
Í tilefni alþjóðamannréttindadagsins sem haldinn er á ári hverju þann 10. desember, og í tilefni aðventunnar, hélt Félagsráðgjafafélag Íslands ve lheppnaðan morgunverðarfund þriðjudaginn 12. desember á Grand hóteli, Gullteigi. Fundurinn hófst með glæsilegu jólamorgunverðarhlaðborði kl. 8.00 en formleg dagskrá hefst kl. 8:30. María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafa sagði frá yfirlýsingu sem alþjóðasamtök félagsráðgjafa sendu frá sér og má sjá hér. Í yfirlýsingunni er fjallað um helstu áskoranir sem félagsráðgjafar standa frammi fyrir i heimsálfunum fimm en barátta fyrir mannréttindum og gegn félagslegu ranglæti hefur alla tíð verið eitt af helstu hlutverkum félagsráðgjafar um allan heim. Eitt af helstu markmiðum félagsráðgjafa er virðing fyrir sérhverjum einstaklingi og réttindum hans. Alþjóðasamtökin benda á að stjórnvöld virðast gleyma þessum grundvallargildum félagsráðgjafar í kapphlaupi sínu um völd, og viðkvæmustu hóparnir sem eiga sér fáa talsmenn verða gjarnan undir í pólitískri hugmyndafræði. María vakti þátttakendur einnig til umhugsunar um streituna og atið sem fylgir jólaundirbúningnum og brýndi fyrir þátttakendum að staldra við og hugsa um börnin og þá sem eiga um sárt að binda, finna ró og jólafrið í stað streitu og ágreinings.