Skip to main content

Tímarit félagsráðgjafa

Tímarit félagsráðgjafa kemur að jafnaði út einu sinni á ári en hægt er að senda inn greinar allt árið. Lokafrestur til að skila inn grein fyrir næsta tímarit er 1. september ár hvert.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um ritstjórn tímaritsins ásamt upplýsingum til höfunda greina.
Tímarit félagsráðgjafa má finna á heimasíðu ritsins www.timaritfelagsradgjafa.is

Ritstjórn Tímarits félagsráðgjafa skipa:

 • Guðný Björk Eydal, ritstjóri ritrýndra greina
 • Sveindís Anna Jóhannsdóttir, ritstjóri annars efnis
 • Chien Tai Shill, ritstjórnarfulltrúi
 • Herdís Björnsdóttir, ritstjórnarfulltrúi

Steinunn Bergmann, formaður FÍ er ábyrgðarmaður tímaritsins

Markmið Tímarits félagsráðgjafa

Að vera vettvangur fyrir þekkingarmiðlun og umfjöllun um fagleg málefni félagsráðgjafar. Tímaritinu er einnig ætlað að efla fræðilega þróun, miðla faglegum straumum og styrkja áhrif félagsráðgjafar í þjónustu og stefnumótun.

Ritstjórnarstefna Tímarits félagsráðgjafa – samþykkt vor 2021

Tímarit félagsráðgjafa er vettvangur fyrir kynningu á faglegu efni, niðurstöðum rannsókna, þróunarverkefnum og öðrum fræðilegum efnivið á sviði félagsráðgjafar. Ritstjórn metur gæði alls innsends efnis og ákveður hvað skuli birt í tímaritinu. Ritstjóri ritrýnds efnis hefur umsjón með ritrýniferli tímaritsins. Ritstjórn áskilur sér rétt til að gera minniháttar breytingar á framsetningu á texta við lokafrágang alls birts efnis.

Tímaritið er gefið út í nánu samstarfi við stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands og kemur að jafnaði út eitt hefti á ári. Tímaritið er fáanlegt í rafrænu formi á heimasíðu tímaritsins www.timaritfelagsradgjafa.is

Meginmarkmið Tímarits félagsráðgjafa er að miðla nýþekkingu í félagsráðgjöf, efla fræðilega og faglega stöðu greinarinnar og stuðla þannig að traustari grunni hennar til að auka gæði félagsráðgjafarþjónustu. Tímaritið er opið fyrir framlagi frá öðrum fagstéttum sem þjónar þessu markmiði.
Tímarit félagsráðgjafa birtir fræðilegar greinar, ritrýndar og almennar, um fagleg málefni. Einnig eru fréttagreinar um brennandi málefni líðandi stundar sem varða félagsráðgjöf og fréttir af starfsemi Félagsráðgjafafélags Íslands, Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og víðar að. Einnig er umfjöllun um nýútkomnar erlendar og íslenskar fag- og fræðibækur.

Greinarskrif, leiðbeiningar fyrir höfunda ritrýndra greina

Almennt um skil handrita

 1. Efni sem óskast ritrýnt skal vera nýtt og ekki hafa verið birt sem slíkt annars staðar. Höfundar eru ábyrgir fyrir þeim greinum sem þeir senda í tímaritið. Ef ágreiningur kemur upp varðandi höfundarrétt áskilur ritstjórn sér rétt til að kanna málið. Áður en grein er send skal höfundur hafa kynnt sér rækilega leiðbeiningar hér að neðan um framsetningu efnis og fylgja þeim. Greinum sem ekki standast kröfur um framsetningu og efnistök hafnar ritstjórn.
 2. Ritstjórn tekur ákvörðun um hvort handrit er sent í ritrýni og jafnframt hvort grein fæst birt í tímaritinu að lokinni ritrýni. Við ákvörðun um birtingu greina er m.a. tekið mið af því að efnið tengist á einhvern hátt félagsráðgjöf (rannsóknum, fagþróun, hugmyndafræði, siðfræði, þjónustuþróun, stefnumótun o.s.frv.), að greinar séu vandaðar og að rými sé nægt í hverju tölublaði. Einnig er horft til þess að hafa fjölbreytni í efni ritsins. Til þess að uppfylla fræðilegar kröfur er höfundum bent á að:
  (i) uppbygging greinar skal fylgja hefðbundinni kaflaskiptingu (inngangur, aðferð, niðurstöður og umræða),
  (ii) texti skal vera gagnorður, stíll knappur, og
  (iii) byggt skal á fyrri þekkingu.
 3. Ef ritstjórn metur greinina svo að hún eigi erindi í tímaritið og uppfylli kröfur um efni og framsetningu er hún send til tveggja fræðimanna til ritrýningar. Að ritrýni lokinni er greinin send höfundi ásamt athugasemdum ritrýna og ritstjórnar. Höfundur endurskoðar og lagfærir greinina í samræmi við ábendingar ritrýna og ritstjórnar. Höfundur sendir greinina síðan aftur til tímaritsins með greinargerð um þær breytingar sem hann hefur gert á greininni, og með vísan í línunúmer handrits. Handritið getur þá verið samþykkt af ritstjórn eða sent aftur í ritrýni og ákvörðun um birtingu tekin í kjölfar hennar.
 4. Innsend grein með ósk um birtingu felur í sér leyfi til birtingar í rafrænni útgáfu. Höfundur ber ábyrgð á próförk greinar en tímaritið áskilur sér þó rétt til að breyta orðalagi eða stafsetningu við lokafrágang ef svo ber undir og nauðsyn krefur.

Framsetning efnis

Vandað skal til röklegrar framsetningar texta, málfars og frágangs. Eingöngu er tekið við handritum sem eru frágengin hvað varðar stafsetningu og meðferð íslensks máls ásamt skýrri kaflaskiptingu. Við frágang greinar skal miða við APA-kerfið svo sem við gerð heimildaskrár, tilvísanir í texta, frágang á myndum og töflum, kaflafyrirsagnir og lengd beinna tilvitnana (sjá nánar í Publication Manual of the American Psychological Association, nýjustu útgáfu og á Leiðbeiningavef ritvers Menntavísindasviðs Háskóla Íslands (https://skrif.hi.is/ritver). Sé vitnað í erlendar málsgreinar skulu þær að jafnaði þýddar á íslensku. Sé vísað til erlendra orða skal nota íslenskt orð í lengstu lög, en vísa má til erlenda orðsins í sviga, t.d. líkan (e. model), með e. fyrir ensku, d. fyrir dönsku o.s.frv.

Mikilvæg atriði varðandi skil handrita

 • Lengd handrita skal að hámarki vera 5000 orð að meðtalinni heimildaskrá og ágripum.
 • Greininni skal fylgja að hámarki 180 orða ágrip á íslensku og einnig á ensku. Í ágripi skal gerð hnitmiðuð grein fyrir markmiði, efnistökum og innihaldi ásamt niðurstöðum í hnotskurn. Gefa skal upp 3-5 lykilorð á íslensku og ensku sem vísa til meginefnis og áherslu.
 • Nota skal 12 pt. letur (Times New Roman) og línubil 1,5. Inndregnar tilvitnanir skulu vera í 11 pt. letri og ekki í tilvitnunarmerkjum. Beinar tilvitnanir sem hafa færri en 40 orð skulu vera í gæsalöppum í texta. Lengri tilvitnanir skulu vera inndregnar.
 • Einfalt orðabil skal vera á eftir punkti.
 • Forðast skal að nota skáletur, til dæmis er það ekki notað á erlendum orðum í sviga. Einnig skal forðast skammstafanir.
 • Nota skal íslenskar gæsalappir og fylgja öðrum reglum um greinarmerki.
 • Greinilegt skal vera hvað eru kaflafyrirsagnir og undirfyrirsagnir.
 • Myndir og töflur skulu vera með sem einföldustu sniði og á sérsíðum aftast í handriti en merkt við í handritinu hvar þær skulu staðsettar (t.d. tafla 1 hér).
 • Greinar skulu vera vel yfirfarnar með tilliti til málfars og framsetningar.
 • Greinin skal sett upp samkvæmt APA-kerfinu. Allar upplýsingar í heimildaskrá skulu vera réttar. DOI-númer á að fylgja ef við á.
 • Nöfn höfunda skulu ekki koma fram í upphafi greina og taka skal annað efni út sem kann að gera höfunda greinarinnar auðrekjanlega í ritrýniferli.
 • Höfundar skulu skráðir í samræmi við framlag þeirra til greinarinnar. Nemandi er venjulega skráður sem aðalhöfundur í greinum sem skrifaðar eru af fleiri höfundum ef efni byggir á ritgerð hans.
 • Nafn greinar skal vera lýsandi fyrir innihald greinar. Ekki skal notast við beina tilvitnun nema ef vera kynni í undirtitli.

Tímaritið tekur einnig við handritum að greinum á ensku.

Ritrýndar greinar skulu sendar inn á netfangið felagsradgjof@felagsradgjof.is

Almennar greinar og annað efni skal sent á rafrænu formi til ritstjóra annars efnis Sveindísar Önnu Jóhannsdóttur á netfangið sveindis@felagsradgjof.is.

Greinarskrif, leiðbeiningar fyrir höfunda almennra greina

Almennt Efni sem birtist í Tímariti félagsráðgjafa skal tengjast félagsráðgjöf (rannsóknum, fagþróun, hugmyndafræði, siðfræði, þjónustuþróun, stefnumótun o.s.frv.). Það skal að jafnaði ekki hafa birst sem slíkt áður.

Málfar, textameðferð og lengd greinar Vandað skal til röklegrar framsetningar texta, málfars og frágangs. Mikilvægt er að hafa skýra kaflaskiptingu ef því er að skipta og stíll skal vera knappur. Ef um heimildaskrá er að ræða í almennri grein skal miða við reglur APA-kerfisins hverju sinni um heimildameðferð, tilvitnanir og frágang. Ekki er gerð krafa um að almennar greinar séu langar og ítarlegar en þær skulu að hámarki vera 4000 orð að öllu meðtöldu.

Skilafrestur Tímarit félagsráðgjafa kemur að jafnaði út einu sinni á ári. Heimilt er að senda inn efni til birtingar á hvaða tíma sem er, en síðasti skiladagur ritrýndra greina fyrir næsta tölublað er 1. september. Skilafrestur á almennum greinum er lengri og í samráði við ritstjórn.