Skip to main content

Lög Félagsráðgjafafélags Íslands

Samþykkt á aðalfundi 16. mars 2021

I. kafli. Nafn félagsins og tilgangur

1. gr. Nafn og varnarþing

Félagið heitir Félagsráðgjafafélag Íslands, skammstafað FÍ. Starfssvæði þess er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið á aðild að Bandalagi háskólamanna.

2. gr. Hlutverk og tilgangur

Félagið Félagsráðgjafafélag Íslands er fag- og stéttarfélag félagsráðgjafa á Íslandi. Hlutverk félagsins er að stuðla að samstöðu meðal félagsráðgjafa og standa vörð um hagsmuni þeirra, stuðla að auknum félagslegum jöfnuði og vinna gegn fordómum og félagslegu óréttlæti í íslensku samfélagi með eflingu félagsráðgjafar sem fagstéttar.

Tilgangur félagsins er:

1. Að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna í hvívetna og semja um kaup og kjör félagsmanna.

2. Að gæta þess að þeir sem starfa við félagsráðgjöf uppfylli fyllstu kröfur um menntun og siðfræði sbr. siðareglur félagsráðgjafa í starfi.

3. Að efla félagsráðgjöf, jafnframt því að standa vörð um og stuðla að áframhaldandi framgangi félagsráðgjafar sem sérfræðigreinar.

4. Að stuðla að aukinni hagnýtingu félagsráðgjafar sem vísindagreinar og koma sjónarmiðum hennar á framfæri.

5. Að efla samheldni með félagsráðgjöfum á Íslandi.

6. Að hafa samstarf við samtök félagsráðgjafa erlendis.

II. kafli. Aðild, aðildargjöld og úrsögn

3. gr. Stéttarfélagsaðild, fagaðild og aukaaðild

Þeir einir geta orðið félagsmenn sem lokið hafa námi frá viðurkenndum háskólum og fengið starfsleyfi á Íslandi skv. reglugerð nr. 1088/2012.

Skriflega inntökubeiðni í Félagsráðgjafafélag Íslands skal senda til félagsins. Félagsaðild að FÍ er þrenns konar:

1. Stéttarfélagsaðild þar sem félagið sér um kjarabundinn samningsrétt.

2. Fagfélagsaðild fyrir þá sem greiða eingöngu fagfélagsgjald.

3. Félagsráðgjafanemar og samtök þeirra geta sótt um aukaaðild að félaginu.

4. gr. Stéttarfélags- og fagfélagsgjöld

Nýir félagsmenn sem ganga inn í félagið á starfsárinu greiði félagsgjöld miðað við hvenær á starfsárinu þeir ganga í félagið.

1. Stéttarfélagsgjald er ákveðið hlutfall af heildarlaunum. Hluti félagsgjalds skal alla jafna renna í vinnudeilusjóð. Stéttarfélagsgjald og greiðslur í vinnudeilusjóð ákveðist á aðalfundi.

2. Fagfélagsgjald er ákveðið á aðalfundi.

3. Félagsráðgjafanemar greiða ekki félagsgjald.

4. Lífeyrisþegar og þeir sem eru atvinnulausir eða sjúkir greiða ekki fagfélagsgjald.

5. gr. Úrsögn úr félaginu

Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til stjórnar og telst viðkomandi genginn úr félaginu eftir að úrsögn hefur borist enda sé hann skuldlaus við félagið. Greiði fagfélagar eigi tvær greiðslur til félagsins, missa þeir félagsréttindi sín og þar með kosningarétt og kjörgengi. Uppgjör á skuld eða samkomulag þar að lútandi leiðir til fullrar fagaðildar að nýju.

III. kafli Aðalfundur

6. gr. Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Hann er haldinn fyrir 30. apríl ár hvert. Skal til hans boðað skriflega eða með auglýsingu með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Aðalfundarboði skulu fylgja tillögur til lagabreytinga. Aðalfundur er því aðeins löglegur, að löglega sé til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum. Atkvæðisbærir félagar á aðalfundi eru þeir sem greitt hafa félagsgjald ársins á undan.

Á aðalfundi skulu vera eftirfarandi mál á dagskrá:

1. Fundur settur.

2. Skipan fundarstjóra og fundarritara.

3. Staðfest lögmæti fundarins.

4. Skýrsla stjórnar um starf félagsins á liðnu ári.

5. Skýrsla stjórnar um reikninga félagsins, vinnudeilusjóð og nefndir eftir atvikum.

Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af löggildum endurskoðanda og lagðir fram til samþykktar á aðalfundi.

6. Stéttarfélagsgjald og fagfélagsgjald ákveðið til eins árs, svo og framlag/hlutfall stéttarfélagsgjalds í vinnudeilusjóð.

7. Skýrslur fastanefnda.

8. Lagabreytingar. Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal senda til stjórnar skriflega ásamt rökstuddri greinargerð, í síðasta lagi 1. febrúar ár hvert. Breytingartillaga skal birt orðrétt í fundarboði þess aðalfundar er ræðir hana. 2/3 hluta atkvæða þarf til breytinga á lögum.

9. Stjórn félagsins. Fulltrúar í stjórn skulu kosnir til tveggja ára í senn. Kosið er sérstaklega um formann félagsins til fjögurra ára í senn. Eigi færri en fimm af sjö stjórnarmeðlimum skulu vera með stéttarfélagsaðild.

10. Tillögur og áætlanir um störf félagsins á yfirstandandi ári kynntar.

11. Fjárhagsáætlun yfirstandandi árs lögð fram til samþykktar.

12. Önnur mál.

13. Fundi slitið.

Við lok kjörtímabils formanns skal kallað eftir framboðum til formannsembættis eigi síðar en þremur mánuðum fyrir aðalfund og lýkur framboðsfresti þremur vikum fyrir aðalfund. Fá frambjóðendur tvær vikur til að kynna sig. Kallað er eftir framboðum í önnur embætti stjórnar og nefnda eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund og lýkur framboðsfresti tveimur vikum fyrir aðalfund.

Heimilt er að kjósa rafrænni kosningu í stjórn og fastanefndir félagsins séu fleiri en einn í framboði. Séu fleiri en einn í framboði til formanns skal ávallt fara fram rafræn kosning. Rafræn kosning hefst þá viku fyrir aðalfund og stendur yfir í þrjá daga.

Hafi ekkert framboð komið fram í eitthvert embætta félagsins, er hægt að bjóða sig fram á aðalfundi. Kosningar á aðalfundi skulu leynilegar sé þess óskað.

Auka aðalfundur: Stjórn getur boðað til auka aðalfundar ef þess er talin þörf og/eða ef 2/3 hlutar félagsmanna æskja þess. Auka aðalfund skal boða með sama hætti og ef um aðalfund væri að ræða.

IV. Kafli. Stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands

7. gr. Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skipa sjö menn og ber hún ábyrgð á störfum félagsins. Stjórn skiptir með sér hlutverkum varaformanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnenda. Að öðru leiti skal stjórn skipta með sér verkum og setja sér starfsreglur. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn skipar í aðrar trúnaðarstöður en tilgreint er í lögum um aðalfund. Auk venjulegra stjórnarstarfa er stjórn falið eftirfarandi:

1. Að boða til félagsfunda.

2. Að halda úti heimasíðu þar sem fram koma upplýsingar og tilkynningar varðandi störf félagsins, kjarasamninga, málþing og ráðstefnur, og annað.

3. Að hafa frumkvæði að réttinda- og hagsmunamálum félaga svo og einnig um vernd starfsheitis samkvæmt lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

4. Að afla upplýsinga um menntun þeirra sem sækja um aðild að FÍ og veita inngöngu nýjum félögum.

5. Að beita sér fyrir því að trúnaðarmenn séu kjörnir sbr. V. kafla laga nr. 94/1986 og I. kafla laga nr. 80/1938 og hafa umsjón með störfum þeirra.

6. Að skipa í samninganefndir félagsins sem beri ábyrgð á undirbúningi kjaraviðræðna, kjaraviðræðum við einstaka viðsemjendur og gerð kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna.

V. kafli. Skipulag félagsins

8. gr. Nefndir á vegum Félagsráðgjafafélags Íslands

Undir félagið heyra vísindanefnd og siðanefnd. Nefndir starfa á grundvelli laga félagsins og hlíta eigin starfsreglum. Nefndir starfa á ábyrgð félagsins og ber FÍ fulla og óskoraða fjárhagslega ábyrgð á störfum nefnda. Nefndum er óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga nema með heimild stjórnar FÍ. Nefndir skulu skila ársskýrslum til stjórnar FÍ fyrir 1. mars.

8.1. Vísindanefnd

Á vegum félagsins skal starfa þriggja manna Vísindanefnd sem fer með stjórn Vísindasjóðs FÍ. Stjórn FÍ skipar einn fulltrúa árlega í nefndina en kjósa skal að auki tvo félagsmenn í nefndina á aðalfundi til tveggja ára í senn og skiptir nefndin með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara.

Hlutverk nefndarinnar er:

1. Að greiða fyrir og halda lifandi umræðu um rannsóknir innan félagsins.

2. Að starfa í nánum tengslum við fulltrúa skrifstofu FÍ varðandi greiðslur úr A-hluta sjóðsins.

3. Að ákveða úthlutun úr B-hluta sjóðsins.

4. Að fylgja eftir að styrkþegar kynni verkefni sitt á félagsráðgjafaþingi eða í Tímariti félagsráðgjafa, eða sambærilegu tímariti sbr. 8. gr. úthlutunarreglna B-hluta.

5. Að rýna og endurskoða reglur sjóðsins jafnt og þétt.

6. Að fræða og halda námskeið um rannsóknir a.m.k. annað hvert ár.

8.2. Siðanefnd

Á vegum félagsins skal starfa þriggja manna siðanefnd. Nefndarmenn eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Fulltrúar nefndarinnar skulu útnefna formann.

Hlutverk nefndarinnar er:

1. Að greiða fyrir og halda lifandi umræðu um siðfræði innan félagsins.

2. Að stuðla að fræðslu fyrir félagsmenn um siðfræðileg málefni.

3. Að rýna og endurskoða siðareglurnar reglulega.

4. Að veita ráðgjöf í siðfræðilegum málefnum og aðstoða við lausnir siðfræðilegra álitamála.

9. gr. Deildir innan Félagsráðgjafafélags Íslands

Félagsmönnum er heimilt í samráði við stjórn félagsins að stofna landshlutadeildir eða sérstakar fagdeildir, sem vinna að sérstökum sviðum innan félagsráðgjafar. Deildir starfa á grundvelli laga félagsins og starfa á ábyrgð þess. Deildum er óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga nema með heimild stjórnar FÍ. Deildir skulu skila upplýsingum um starfsemi deildarinnar á liðnu ári til stjórnar FÍ fyrir 1. mars.

10. gr. Sjóðir á vegum Félagsráðgjafafélags Íslands

10.1. Vinnudeilusjóður

Markmið með vinnudeilusjóði Félagsráðgjafafélags Íslands er að styrkja stöðu félaga sinna í vinnudeilum. Kjarafélagar í stjórn FÍ fara með yfirstjórn sjóðsins og ákveða upphæð og úthlutunarreglur/greiðslur hverju sinni í samræmi við fjárhag sjóðsins. Kjarafélagar í stjórn FÍ setja reglur um vinnudeilusjóð.

10.2. Vísindasjóður

Vísindasjóður er starfræktur í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Vísindasjóður Félagsráðgjafafélags Íslands skiptist í tvo hluta, A-hluta og B-hluta. A-hlutinn er ætlaður til framhalds- og endurmenntunarkostnaðar annars vegar og ferða- og dvalarkostnaðar vegna námskeiða og námskeiðsgjalda hins vegar. B-hlutinn er til rannsóknar- og þróunarverkefna. Félagsmenn fá greitt í febrúar úr A-hluta en sækja þarf sérstaklega um í B-hlutann. Á vegum FÍ skal starfar þriggja manna Vísindanefnd sem fer með stjórn sjóðsins.

VI. Kafli. Réttindi og skyldur

11. gr. Réttindi og skyldur félagsmanna

1. Félagsmenn skulu fara að lögum félagsins, lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn og hafa í heiðri siðareglur félagsráðgjafa.

2. Félagið skal að fremsta megni stuðla að því að félögum séu búnar viðeigandi starfsaðstæður. Sérstaklega skal þess gætt þegar að ný störf koma til.

3. Félagsmenn sem standa skil á greiðslum félagsgjalda eru kjörgengir og með kosningarétt í FÍ.

4. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald til félagsins í tvö ár missir hann félagsréttindi sín, enda hafi hann áður verið krafinn um greiðslu.

5. Óski félagsmaður að ganga úr félaginu geri hann það skriflega.

12. gr. Félagsslit

Slíta má félaginu á fundi sem hefur verið boðaður sérstaklega í því skyni, ef 2/3 hlutar félagsmanna æskja þess, enda sæki 2/3 hlutar atkvæðisbærra félagsmanna fundinn. Eignum félagsins skal ráðstafað í samræmi við ákvörðun meirihluta félagsmanna.

13.gr.

Með samþykki þessara laga falla þegar úr gildi eldri lög félagsins.