Skip to main content
Fréttir

Yfirlýsing frá Félagsráðgjafafélagi Íslands

By apríl 8, 2020september 8th, 2021No Comments

Tryggjum aðgengi að félagsráðgjöf

Kvíði, streita og félagsleg einangrun er ein af afleiðingum COVID-19 faraldursins vegna óvissu og samkomubanns. Félagsráðgjafar hafa í störfum sínum leitað leiða til að tryggja að viðkvæmir hópar fái nauðsynlega þjónustu, s.s. mat, félagsskap og aðhlynningu. Landlæknir sendir út þau skilaboð að fólk eigi að halda sig heima til að fyrirbyggja smit. Við þær aðstæður þarf að leita leiða til að tryggja þjónustu fyrir heimilislausa, fatlaða, aldraða og aðra viðkvæma hópa. Einnig þarf að finna leiðir til að rjúfa félagslega einangrun. Félagsráðgjafar geta ekki haldið sig heima þegar sinna þarf börnum sem búa við óviðunandi aðstæður eða upplifa ofbeldi. Þeir standa frammi fyrir því að þróa lausnir fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður. Nú er hugað að því að létta á samkomubanni en afleiðingar faraldursins munu vara næstu misseri, löngu eftir að búið er að ráða niðurlögum smitsjúkdómsins, en auk efnahagslegra afleiðinga munu sálfélagslegar afleiðingar vara lengur. Það er mikilvægt að veita viðeigandi þjónustu og þegar um er að ræða félagslegan vanda þá þarf að bregðast við sem fyrst áður en vandinn þróast og verður ill viðráðanlegur. Kvíða, samskiptavanda og félagslega einangrun sem hefur aukist vegna fordæmalausra aðstæðna þarf að vinna með í nærumhverfi.

Félagsráðgjafar sem starfa innan heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og barnaverndar sinna mikilvægu hlutverki en það þarf einnig að tryggja aðgengi að félagsráðgjöf á öllum sviðum samfélagsins, til dæmis innan skóla og heilsugæslu. Margir félagsráðgjafar bjóða upp á þjónustu á almennum markaði með viðtölum við einstaklinga, pör og fjölskyldur sem þurfa á margvíslegri aðstoð að halda og því brýnt að slík þjónusta falli undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga sem klínísk viðtalsmeðferð.

Fyrir Alþingi liggur fyrir endurflutt frumvarp um breytingar á lögum um Sjúkratryggingar, með það að markmiði að tryggja að sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsmeðferð falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Félagsráðgjafafélag Íslands hefur í umfjöllun sinni gert athugasemd við að í fyrra frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir að ein fagstétt, sálfræðingar, geti veitt samtalsmeðferð við sálfélagslegum vanda. Vakti félagið athygli á því að margar fagstéttir, þar á meðal félagsráðgjafar, veiti samtalsmeðferð við andlegri vanlíðan á einkareknum meðferðarstofum. Nálgun ólíkra fagstétta á andlegum vanda er ólík og því brýnt að halda því til haga að engin ein aðferð eða meðferð er réttari en önnur. Markmið þjónustunnar er það sama að bæta líðan og lífsgæði þeirra sem óska eftir samtalsmeðferð og telja sig þurfa á henni að halda. Félagsráðgjafafélagið áréttaði í umfjöllun sinni mikilvægi þess að þeir einstaklingar sem þurfi að leita sér aðstoðar vegna sálfélagslegs vanda hafi val um sem fjölbreyttust úrræði. Aðgengi að þjónustu er takmarkað ef greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga nær aðeins til einnar fagstéttar líkt og fyrra frumvarpið gerir ráð fyrir. Til að tryggja viðeigandi þjónustu er mikilvægt að almenningur hafi aðgang að niðurgreiðslu á þverfaglegri þjónustu mismunandi heilbrigðisstétta.

Félagsráðgjafafélag Íslands skorar á þingmenn og heilbrigðisráðherra að setja afgreiðslu málsins í forgang. Félagsráðgjafafélag Íslands er tilbúið til umræðu um málefnið.

Steinunn Bergmann
Formaður Félagsráðgjafafélags Íslands