Skip to main content
Fréttir

Tryggjum mannréttindi barna á flótta

By september 15, 2020september 8th, 2021No Comments

Brottvísanir barna á flótta hafa ítrekað verið til umfjöllunar hér á landi síðustu misseri og dæmi um að almennir borgarar mótmæli þeim mannréttindabrotum sem slíkar niðurstöður geta falið í sér. Vert er að hafa í huga að Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi árið 2013 og hefur því sama gildi og hver önnur lög og bera stjórnvöld þá skyldu að framfylgja þeim jafnt öðrum lögum. Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildarríki að virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum og láta það sem barni er fyrir bestu hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða börn​. Lög um útlendinga nr. 80/2016 endurspegla ákvæði Barnasáttmálans en við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. greinar lagana ber stjórnvöldum að hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu ber Útlendingastofnun að líta til öryggis barns, velferðar og félagslegs þroska auk þess að taka tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Jafnframt ber Útlendingastofnun að taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt greininni við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns auk þess að eiga samráð við barnaverndaryfirvöld. Í 6. mgr. 37. gr. lagana er sú skylda lögð á stjórnvald að taka til skoðunar að eigin frumkvæði hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. ef stjórnvald kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. eigi ekki við.

Ísland hefur getu til að taka á móti börnum á flótta og veita þeim tækifæri til menntunar, aðgengi að heilbrigðiskerfi og annan stuðning. Börnum er ekki bjóðandi að flakka á milli landa. Velferðarríki eins og Íslandi ber að tryggja vernd og réttindi barna á flótta og veita þeim tækifæri til að alast upp í öruggu umhverfi. Lagarammin er skýr en endurskoða þarf verklag svo það endurspegli framkvæmd sem virðir Barnasáttmálann og tryggir að honum sé framfylgt þannig að réttindi barna á flótta séu ávallt tryggð. Félagsráðgjafafélag Íslands skorar á dómsmálaráðherra að láta málið til sín taka.

15. september 2020

Steinunn Bergmann

Formaður Félagsráðgjafafélags Íslands