Skip to main content
Fréttir

Boðað til heilbrigðisþings helgað heilsugæslunni 28.nóvember

By nóvember 22, 2024nóvember 25th, 2024No Comments

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings 2024 þann 28. nóvember næstkomandi á Hótel Reykjavík Nordica sem að þessu sinni ber yfirskriftina „Heilsugæslan, svo miklu meira…

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Ætlunin er að varpa ljósi á hve hlutverk heilsugæslunnar er margþætt. Hún sinnir bráðum og langvinnum heilsuvanda, margvíslegum bráðaerindum, geðheilbrigðisþjónustu, heilsuvernd fólks á öllum æviskeiðum og mikilvægum forvörnum s.s. skimunum og bólusetningum og svo mætti áfram telja.

Þetta er sjöunda árið í röð sem heilbrigðisþing er haldið. Þingin eru hverju sinni helguð einhverju tilteknu málefni sem varðar almenning og samfélagið miklu. Þingin eru opinn vettvangur umræðu og skoðanaskipta og þar með mikilvægt innlegg í stefnumótun og skipulag heilbrigðisþjónustunnar.

Þingið að þessu sinni verður helgað heilsugæslunni og verður fjallað um hugmyndafræðina að baki heilsugæsluhugtakinu, um þróun og stöðu heilsugæslu nútímans og hvernig sjá megi fyrir sér heilsugæslu framtíðarinnar.

Íslenskir og erlendir fyrirlesarar munu fjalla um fjölbreyttar áskoranir í heilsugæslu og ræða leiðir til að takast á við þær. Tækninýjungar færa okkur stöðugt ný tækifæri sem nýtast við veitingu og skipulag heilbrigðisþjónustu og um það verður einnig fjallað.
Heilsugæslan er grunnstoð heilbrigðisþjónustu við landsmenn, nánast frá því að líf kviknar í móðurkviði og allt til æviloka hvers og eins. Það er til mikils að vinna að standa vörð um heilsugæsluna, efla hana og þróa þannig að hún geti um ókomin ár þjónað hlutverki sínu á sem bestan hátt í þágu einstaklinga og samfélags.

Á vefsvæði þingsins eru birt drög að dagskrá, upplýsingar um fyrirlesara og skráningu þátttöku.

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/11/06/Bodad-til-heilbrigdisthings-2024-helgad-heilsugaeslunni/