Áskorun til stjórnvalda
Það var mikið fagnaðarefni þegar Alþingi samþykkti í vor að fella sálfræðiþjónustu og aðra klíníska viðtalsmeðferð undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Enda mikið framfaraskef í allri heilbrigðisþjónustu að hugað sé jafnt að andlegri sem og líkamlegri heilsu fólks. Það urðu því mikil vonbrigði þegar í ljós kom nú í haust að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í þessa heilbrigðisþjónustu í fjármálaáætlun ríkisstjórarninnar til næstu ára.
Félagsráðgjafafélag Íslands harmar þessa ákvörðun og vill benda á að félagsmenn þess, sem allir eru með starfsleyfi frá landlækni, sinna margir klínískri samtalsmeðferð við einstaklinga, pör og fjölskyldur á einkareknum meðferðarstofum. Félagsráðgjafar eru því ein þeirra fagstétta sem falla undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.
Félagsráðgjafafélag Íslands og fagdeild sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa skora á stjórnvöld að endurskoða fyrri ákvörðun sína og setja nauðsynlegt fjármagn í þennan málaflokk til að þeir sem þurfa á samtalsmeðferð að halda geti sótt hana, óháð efnahag.
20. október 2020
Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands
Valgerður Halldórsdóttir talskona fagdeildar sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa