Skip to main content
Fréttir

Ályktun Félagsráðgjafafélags Íslands varðandi brottvísun flóttafólks frá Íslandi

By maí 23, 2022No Comments

Í dag var eftirfarandi ályktun frá FÍ send út:
Reglulega berast fréttir af því að til standi að vísa hópi umsækjenda um alþjóðlega
vernd frá landi. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur jafnvel staðið til að vísa
frá börnum og fjölskyldum þeirra sem tekið hafa þátt í samfélaginu í 2-3 ár og fest
rætur hér.
Það er mikið áhyggjuefni að stór hópur fólks eigi nú von á brottvísun, sér í lagi þegar
fjöldi fólks hefur verið hrakinn á flótta í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu
og staðan í mörgum Evrópuríkjum er þröng. Ísland þarf að leggja sitt af mörkum til
þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar, sem og móttöku flóttafólks, og
hefur boðið fólk frá Úkraínu velkomið. Það er í hrópandi mótsögn við þessi áform að
íslenska ríkið stuðli nú að því að hrekja fleiri á flótta um Evrópu með því að vísa fjölda
fólks úr landi. Með því er verið að auka á áfallastreitu, afkomuóöryggi, heimilisleysi
og hættu á að einstaklingar verði fyrir ofbeldi.
Félagsráðgjafar vinna gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eiga sér stað með
virðingu fyrir manngildi og sérstöðu hvers og eins.
Félagsráðgjafafélag Íslands skorar því á stjórnvöld að hafa mannúðarsjónarmið í
fyrirrúmi í ákvörðunum hvað varðar móttöku flóttafólks sem og við lagasetningu
hvað þetta varðar, en nú liggja fyrir alþingi tillögur að breytingum á útlendingalögum.
Félagið hvetur stjórnvöld til að endurmeta stöðu þess fólks sem til stendur að vísa úr
landi með tilliti til 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og horfa til þess hvort veita
eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Fyrir hönd stjórnar Félagsráðgjafafélags Íslands
Steinunn Bergmann, formaður