
Tekjur kvenna dragast saman um helming miðað við árið fyrir barnsburð en tekjur karla halda áfram að hækka eða standa í stað. Fimm árum eftir fæðingu er tekjumissir kvenna 36,5% miðað við árið áður en barnið fæddist og tíu árum eftir fæðingu er langtímamuruinn 34,5%. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Unu Margrétar Lyngdal Reynisdóttur sem hún skrifaði um í BS ritgerð sinni í hagfræði og hún kynnti á fundi aðildarfélaga BHM í morgun (26.11.25).
Rannsóknin var unnin að beiðni Fjármála-og efnahagsráðuneytisins og byggir á ítarlegum gögnum úr álagningarskrám Ríkisskattstjóra á árunum 2003-2023. Markmiðið var að meta tekjumissi kvenna við barneignir, þ.e. hversu mikið tekjur kvenna lækka samanborið við tekjur karla þegar barn kemur inn á heimilið og hvernig áhrifin skiptast eftir hópum.
Helstu niðurstöður eru þær að barnseignir hafi sterk og langvarandi áhrif þess að verða foreldri á rauntekjur kvenna en lítil á karla. Konur yngri en 28 ára verða fyrir mun meiri tekjumissi en konur 29-50 ára sem Una tengir við að því eldri sem konur eru því lengra séu þær komnar á starfsferlið og hafi sterkari tengsl við vinnumarkað. Hjúskaparstaða hefur einnig áhrif, því einstæðar mæður verða fyrir 41,1% tekjumissi eftir 5 ár samanborið við 30% hjá konum í sambúð. Þá er tekjumissir meiri utan höfuðborgarsvæðisins, tæp 40% en 35,2% innan þess.
Við fæðingu annars barns magnast tekjumissirinn enn frekar og verða konur sem fæða börn með stuttu millibili, t.d. einu ári, fyrir allt að 70% tekjulækkun árið sem annað barnið nær eins árs aldri. Dagvistunarúrræði virðast skýra hækkun tekna á því ári sem barn verður tveggja ára.
Að sögn Unu Margrétar getur langvarandi tekjutap fylgt konum út starfsævina og haft áhrif á lífeyri, sérstaklega hjá einstæðum mæðrum. Þá segir hún aðgang að góðri dagvistun lykilatriði til að minnka þennan mun þó erlendar rannsóknir sýni að leikskólakerfi eitt og sér dugi ekki til að útrýma tekjumissinum. Una bendir á að störf tengd umönnun, oft unnin af konum, séu lágt launuð þrátt fyrir að vera ómissandi fyrir velferð og hagkerfi samfélagsins og að virðing og laun í störfum lækki eftir því sem fleiri konur starfi í þeim. Hún telur þetta sjónarhorn geta hjálpað við að skýra hvernig samfélagsleg norm og virðingarstig starfa tengjast tekjumissi.
Erindinu lauk hún svo með opinni, pólitískri og samfélagslegri spurningu:
„Er ásættanlegt að konur beri kostnaðinn af uppeldi barna, hvort sem er á heimilinu eða á vinnumarkaði, umfram karla?“
