Skip to main content
Fréttir

Yfirlýsing frá stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands vegna umræðu í fjölmiðlum um þjónustu sveitarfélaga og brot á lögum

By apríl 19, 2017No Comments

Í fréttum RUV þann 27. og 28. janúar hefur komið fram að víða er pottur brotinn þegar framkvæmd sveitarfélaga á lögboðinni þjónustu er skoðuð.
Þar kemur fram að Félagsþjónusta Vesturbyggðar býður ekki upp á skipulagða akstursþjónustu fyrir fatlað fólk eins og lög um málefni fatlaðs fólks kveða á um. Einnig úrskurðaði Persónuvernd nýverið að Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs hefði brotið lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þegar hún krafði umsækjanda um fjárhagsaðstoð um þvagprufu og gerði að skilyrði að hann væri ekki í neyslu áfengis eða annarra vímuefna ætlaði hann sér að fá framfærslu frá sveitarfélaginu.

Félagsráðgjafar eru lykilstétt í félagsþjónustu sveitarfélaga og vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála, tala máli skjólstæðinga sinna og vinna gegn mannréttindabrotum. Félagsráðgjafafélag Íslands harmar þessar fréttir af lögbrotum sveitarfélaganna og skorar á þau að standa undir ákvæðum laga um þjónustu sem íbúar þeirra eiga ótvíræðan rétt á og brjóta ekki á mannréttindum íbúa sinna. Félagið telur að fullt tilefni sé til að fylgst sé með því hvort sveitarfélögin fari í reynd eftir lögum í þjónustu sinni við íbúa og skorar á félags- og húsnæðismálaráðherra að kanna hvernig staðið er að þjónustu í þessum málaflokkum í sveitarfélögunum.