Skip to main content
Fréttir

Yfirlýsing frá fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd

By nóvember 28, 2017No Comments

Í ljósi umræðu undanfarna daga um störf barnaverndarnefnda telur fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd þó mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri. Umfjöllun um barnaverndarmál í fjölmiðlum er ávallt einhliða umfjöllun þar sem starfsmönnum barnaverndarnefnda er óheimilt að tjá sig um einstaka mál. Þrátt fyrir að foreldrar kunni að tjá sig opinberlega hafa barnaverndarnefndir trúnað við börnin sjálf og telja mikilvægt að virða friðhelgi einkalífs barna. Hjá barnaverndarnefndum landsins starfa fagaðilar með mikla menntun og víðtæka reynslu og vinna starf sitt af heillindum með hagsmuni barna og fjölskyldna að leiðarljósi. Starfið er flókið og krefjandi og krefst þess að unnið sé faglega. Ákvarðanir í barnaverndarmálum eru sjaldnast á hendi einstaka starfsmanna, heldur eru þær teknar af hópi fagaðila hverju sinni eða af barnaverndarnefndunum sjálfum. Allar ákvarðanir þurfa að vera vel rökstuddar og ígrundaðar út frá gildandi lögum og reglugerðum. Starfsmenn barnaverndarnefnda hafa ávallt meðalhóf í fyrirrúmi og almennt er íþyngjandi aðgerðum ekki beitt nema ef vægari úrræði hafa ekki skilað árangri. Í sumum tilfellum er þó nauðsyn að bregðast strax við til að tryggja öryggi barns. Starfsmenn barnaverndarnefnda hafa aðgang að sérfræðingum Barnaverndarstofu sem þá eiga að vera leiðbeinandi um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga. Að sama skapi hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndanefnda. Starfsmenn barnaverndarnefnda og fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af því hvort þessir tveir þættir fari saman, þ.e. að vera leiðbeinandi og hafa eftirlit. Upplifun starfsmanna barnaverndarnefnda er sú að Barnaverndarstofa hiki þegar komi að leiðbeiningum til starfsmanna þar sem eftirlitshlutverk stofnunarinnar vegi þyngra. Fagdeildin telur mikilvægt að eftirlit sé á einni hendi og leiðbeiningar á annarri hendi til að tryggja áfram og efla það faglega starf sem nú þegar er unnið í barnaverndarmálum á Íslandi. Mikilvægt er í svo viðkvæmum málum að starfsmenn barnaverndanefnda hafi aðgang að sérfræðingum sem treysti sér að leiðbeina út frá gildandi lögum hverju sinni.

Stjórn fagdeildar félagsráðgjafa í barnavernd vill jafnframt koma á framfæri að það hafi vakið furðu barnaverndarstarfsmanna að starfsmaður Barnaverndarstofu hafi í Kastljóssþætti þann 8. nóvember sl. gefið í skyn að barnaverndarnefndir landsins óttist eftirlit Barnaverndarstofu. Vill stjórn fagdeildarinnar mótmæla þeim aðdróttunum og telja með þeim ómaklega að barnverndarstarfsmönnum vegið.

Að lokum vill fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd taka fram að starfsmenn barnaverndar eru fyrst og fremst málsvarar þeirra barna í þeim málum sem þeir koma að. Það þarf kjark og þor til að standa með litlu barni sem á sér stundum engan annan málsvara en starfsmanninn sem að málum þess kemur. Það leynist engum að barnaverndarmál eru viðkvæm og snúin. Starfsmenn barnaverndar vinna af virðingu og samviskusemi að því að styrkja fjölskyldur landsins.