Skip to main content
Fréttir

Yfirlýsing fagdeilda félagsráðgjafa í áfengis- og vímuefnamálum og í barnavernd – Úrræðaleysi í meðferðamálum barna og ungmenna

By apríl 18, 2018No Comments

Fagdeildir félagsráðgjafa í áfengis- og vímuefnamálum og í barnavernd sendu eftirfarandi yfirlýsingu þann 16. apríl til heilbrigðis- og félags- og jafnréttismálaráðherra og til fjölmiðla.

Við viljum sjá fjölbreytt úrræði fyrir börn sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda. Úrræði sem eru stigskipt, með tilliti til aldurs, kyns og hvar barnið er statt í neyslu. Börn sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda eru flest með annan undirliggjandi vanda, sem getur verið andlegur, félagslegur eða líffræðilegur vandi og því er brýnt að bregðast við eins fljótt og auðið er, áður en barnið fer í sjálfskaðandi hegðun, svo sem neyslu fíkniefna. Það bráðvantar heilbrigðisúrræði fyrir þessi börn sem eru í lífshættu vegna ávana- og fíkniefna.

Yfirlýsingin í heild sinni má finna hér:

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum um úrræðaleysi í meðferðarmálum barna og unglinga á Íslandi vegna áfengis-og vímuefnavanda. Umræðan hefur lengi verið í gangi á meðal foreldra sem málið varðar, barnaverndarstarfsmanna og annars fagfólks. Opinber stefna á Íslandi er að vinna með áfengis-og vímuefnavanda sem ólæknandi heilasjúkdóm. Ekki eru allir á eitt sáttir með þá skilgreiningu en ef vandinn er „ólæknandi heilasjúkdómur“ af hverju fá börn og unglingar ekki viðeigandi meðferð á viðeigandi stofnun eins og ef þau glímdu við annan sjúkdóm. Reynslan sýnir að svo er ekki, hver vísar á annan og fáir vilja taka ábyrgð á þessum börnum. Börn og unglingar sem glíma við áfengis-og vímuefnavanda eru flest með annan undirliggjandi vanda sem getur verið andlegur, félagslegur eða líffræðilegur vandi. Brýnt er að bregðast við þeim vanda eins fljótt og hans verður vart, áður en börnin fara að meðhöndla sig með sjálfskaðandi hegðun sem meðal annars felst í neyslu efna.

Það er vert að beina sjónum að því að börn sem nota áfengi eða önnur vímuefni eiga ekki sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og önnur börn í landinu. Börnin eiga ekki innkomu á Barnaspítala Hringsins né á Barna-og unglingageðdeild Landspítalans. Úrræðaleysið er slíkt að barn var vistað í fangageymslu fyrir stuttu. 

Börn hafa verið send á sjúkrahúsið Vog til áfengis- og vímuefnameðferðar þar sem þau hafa verið í samneyti við fullorðið fólk sem er komið mislangt í bataferli sínu, hefur ólíkan bakgrunn og á enga samleið með börnum eins og nýlegt dæmi sýnir. Okkur þykir því það mikið gleðiefni að SÁÁ ætlar að axla ábyrgð og setja öryggi skjólstæðinga sinna framar öllu með því að taka ekki ungmenni undir 18 ára aldri í meðferð. Það er því verk heilbrigðis-og félagsmálayfirvalda að koma á viðunandi meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem glíma við þennan vanda svo þau eigi sama rétt og önnur börn í samfélaginu. Það er von og ósk okkar félagsráðgjafa að komið verði á stofn úrræði sem mætir þörfum barna, unglinga og fjölskyldum þeirra, þar sem fagfólk í málaflokknum leiðir meðferðina og hafi nýjustu þekkingu að leiðarljósi. Meðferðin þarf bæði að vera aldurs og kynjaskipt og áhersla lögð á sjá lausnir, styrkleika og jákvæðar breytingar í stað vanda og hindrana. Skapa verður öruggt umhverfi þar sem virðing og reisn ríkir. Það þarf að koma á meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga þar sem stefnan, framkvæmd og verkefni byggja á tengslum og heilbrigðum samskiptum við fjölskyldu, vini og samfélagið í heild. Félagsráðgjafar lýsa sig tilbúna til að vinna að slíku úrræði og veita ráðgjöf þar sem þeir búa yfir mikilli þekkingu í málaflokknum.