Skip to main content
Fréttir

Vel heppnuð Evrópuráðstefna félagsráðgjafa í Hörpu 28. til 30. maí – Jaðarsetning í síbreytilegu samfélagi nútímans

By september 8, 2017No Comments

Félagsráðgjafafélag Íslands hélt Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa nú í lok maí eftir liðlega tveggja ára undirbúning sem hófst í miðju verkfalli BHM vorið 2015.

,,Frábær ráðstefna"… ,,Sú besta sem ég hef farið á sögðu margir þegar ráðstefnunni lauk þriðjudaginn 30. maí. ,,Mikið var gaman að hitta félagsráðgjafa víðsvegar að úr Evrópu og heiminum og finna að við erum öll að vinna að sama markmiði, að móta betra samfélag með auknum jöfnuði og tækifærum fyrir alla með mannréttindi að leiðarljósi".

Um 570 þátttakendur voru mættir og var orkan í salnum dásamleg, gleði og von fyrir betra heimi! Ráðstefnan hófst á sunnudegi með móttöku á Hvalasýningu Íslands þar sem þátttakendum gafst færi á að hittast og spjalla.

Ráðstefnan hófst svo með glæsilegri opnunarathöfn mánudaginn 29. maí sem hófst á því að Vox Feminae tók á móti gestum með fögrum söng. María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafafélagsins setti því næst ráðstefnuna og bauð þátttakendur velkomna og Ana Isabel Lima forseti Evrópudeildar félagsráðgjafa ræddi um mikilvægi starfa félagsráðgjafa og að því lyki aldrei.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og félags-og jafnréttismálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson buðu þátttakendur velkomna og komu báðir inn á það hve starf félagsráðgjafa er mik­il­vægt í nú­tíma­sam­fé­lagi þar sem æ mikilvægara er að standa vörð um mannréttindi og mannvirðingu. Hér má sjá frétt um opnunarathöfnina

Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur og leikkona stýrði athöfninni og ræddi meðal annars um mikilvægi þess að stjórnmálamenn gæfu starfsfólki rými til að skapa í störfum sínum.

Opnunarathöfninni lauk svo með Roll Call af Nations þar sem þátttaekndur eru boðnir velkomnir frá öllum löndum og Vox Feminae undir styrkri og hressri stjórn Margrétar Pálmadóttur endaði á því að syngja O Happy Day og salurinn tók undir í gleði og söng. Þvílíkur kraftur og gleði sem var í salnum!

Helga Þórólfsdóttir, félagsráðgjafi var fyrsti aðalfyrirlesari ráðstefnunnar og talaði um hjálparstarf og landamæri: ,,Við get­um flest ferðast á milli landa­mæra á meðan stór hóp­ur fólks flýr stríðshörm­ung­ar eða eyg­ir von um betra líf í öðrum lönd­um og býr í einsk­is­mannslandi á meðan,“ seg­ir Helga. Hér má sjá frétt um erindi Helgu

Fyrir hádegishlé kom Edda Björgvinsdóttir, leikkona og fyllti þátttakendur gleði og krafti og mikilvægi hláturs og gleði í öllu starfi.

Ávarp forseta Íslands má finna hér

Ræðu Maríu Rúnarsdóttur má finna hér

Opnunarræðu Ana Isabel Lima, forseta IFSW Europe má finna hér

Eftir hádegi voru vinnusmiðjur, kynningar og vettvangsferðir og úr ansi mörgu að velja eins og sjá má af dagskránnir hér

Þriðjudagurinn hófst með áhugaverðu erindi Lenu Dominelli um áhrif hlýnunar á jörðu á viðkvæma hópa. Lena lagði áherslu á í ræðu sinni að félagsráðgjafar yrðu að vera pólitískari og leggja meiri áherslu á samfélagsvinnu og brýndi félagsráðgjafa til aðgerða gegn fátækt.

Glærur Lenu Dominelli má finna hér

Eftir kaffihlé voru pallborðsumræður undir stjórn Ellýjar Öldu Þorsteinsdóttur, skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu.

Þátttakendur í umræðum voru Guy Shennan, formaður breska félagsráðgjafafélagsins, Þórey Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi og þátttakandi í Hugarafli, Ia Shekriladze félagsráðgjafi frá Georgíu og Josien Hofs félagsráðgjafi í stjórn Hollenska félagsráðgjafafélagsins. Þau voru öll sammála um að félagsráðgjafar yrðu að vera róttækari og taka meiri þátt í samfélagsvinnu. Þórey Guðmundsdóttir ræddi um sína reynslu af geðheilbrigðisþjónustunni og benti á að enn væri þjónustan þannig að ætlast sé til þess að notendur þjónustunnar aðlagi sig að þjónustunni en ekki öfugt. ,,Kerfið þarf ekki að vera svona," sagði Guy Shennan, ..,,það er svona af því að við ákváðum að það væri svona".

Dagskrá þriðjudagsmorguns lauk á skemmtilegri kraftræðu Bjart Guðmundssonar leikara sem má sjá hér í fullri lengd

Fjöldinn allur af viðtölum við kynnendur á ráðstefnunni var tekinn upp og finna má hér um tuttugu stutt viðtöl við marga íslenska félagsráðgjafa og erlenda sem voru á ráðstefnunni. Viðtöl á íslensku eru hér

Hér eru viðtölin sem tekin voru á ensku – við bæði íslenska og erlenda félagsráðgjafa