Skip to main content
Fréttir

Skaðaminnkun og félagsráðgjöf – Housing first – Morgunverðarfundur fagdeildar vímuefna

By október 24, 2017No Comments

Fagdeild félagsráðgjafa sem vinna að áfengis- og vímuefnamálum verður með morgunverðarfund miðvikudaginn 18. maí kl. 8:30 – 10:00 að Borgartúni 6.

Ísabella Björnsdóttir og Selma Björk Hauksdóttir félagsráðgjafar munu flytja erindi á fundinum. Í boði verða rúnstykki með áleggi og kaffi.

1) Ísabella Björnsdóttir félagsráðgjafi á deild 33 A á Landspítalanum mun flytja erindið, SKAÐAMINNKUN OG FÉLAGSRÁÐGJÖF. Um erindi sitt segir Ísabella:
Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á félagsráðgjöf eru helstu viðfangsefni starfstéttarinnar að stuðla að félagslegum breytingum, félagslegri þróun og félagslegri samheldni. Auk þess að huga að valdeflingu, mannréttindum og frelsi einstaklinga. Því er mikilvægt að félagsráðgjafar láti sig varða jaðarsetta hópa í samfélaginu og hafi þekkingu á þeirra málefnum. Skaðaminnkun er nýleg hugmyndafræði sem snýr að málefnum í starfi með vímuefnaneytendum. Í hugmyndafræði skaðaminnkunar er hugað að heilsufarsþáttum, mannréttindum og gagnreyndri þekkingu í málefnum þeirra. Þar sem margir félagsráðgjafar koma að málefnum vímuefnaneytenda er mikilvægt að þeir þekki skaðaminnkun. Í fyrirlestrinum verður hugmyndafræðin kynnt í tengslum við félagsráðgjöf.
2) Selma Björk Hauksdóttir félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu Sandgerði-Vogum mun kynna fyrir fundarmönnum hugmyndfræði HOUSING FIRST- HÚSNÆÐI FYRST. Selma segir um erindi sitt :
Erindið mun fjalla um hugmyndafræðina húsnæði fyrst (Housing First) sem miðar að því að koma fólki sem fyrst í varanlegt húsnæði við hæfi hvers og eins. Ákveðnir þættir þurf að vera til staðar þegar hugmyndafræðin er notuð en þar sem hún er notuð hefur hún sannað gildi sitt. Þjónustuþörf íbúa er ólík en hverjum og einum er mætt á eigin forsendum. Nota má hugmyndafræðina fyrir húsnæðislausa einstaklinga jafnt sem húsnæðislausar fjölskyldur. Hugmyndafræðin hentar vel þegar unnið er með langvarandi húsnæðislausum. Íbúar fá þjónustu eins og þeim hentar eins lengi og þörf krefur.

Allir velkomnir, sjáumst sem flest að morgni 18. maí klukkan 8:30 að Borgartúni 6.