Skip to main content
Fréttir

Siðanefnd FÍ kannar ofbeldi gegn félagsráðgjöfum

By nóvember 18, 2025No Comments

Aukið ofbeldi gagnvart félagsráðgjöfum – Áskorun frá Siðanefnd

Siðanefnd Félagsráðgjafafélags Íslands lýsir yfir áhyggjum vegna aukins ofbeldis, hótana, niðrandi ummæla og annarrar óviðunandi framkomu sem félagsráðgjafar verða fyrir í starfi sínu – bæði í nær- og fjærumhverfi.
Í ljósi vitundarvakningar í samfélaginu um ofbeldi sem starfsstéttir á borð við lögreglu hafa orðið fyrir og aðgerða sem gripið hefur verið til í því samhengi, telur Siðanefnd FÍ brýnt að kanna stöðuna meðal félagsráðgjafa og hefur öllum starfandi félagsráðgjöfum verið send könnun sem ætti að gefa einhverja mynd af stöðunni innan greinarinnar.

Siðanefndin leitast nú við að safna upplýsingum um fjölda mála þar sem félagsráðgjafar hafa orðið fyrir ofbeldi eða hótunum í tengslum við starf sitt.

Markmiðið er m.a. að greina aðstæður og ástæður sem liggja að baki slíkum atvikum og er ætlunin að leitast við að móta verkferla sem stuðla að auknu öryggi og bættri vernd fyrir félagsráðgjafa.

Með því að draga fram raunveruleikann sem margir félagsráðgjafar standa frammi fyrir vonast Siðanefndin til að vekja athygli almennings og stjórnvalda á þeirri áhættu sem fylgir starfinu.

 Markmiðið er skýrt: Að stuðla að aukinni vernd, faglegum stuðningi, skilningi og virðingu fyrir því mikilvæga og krefjandi starfi sem félagsráðgjafar sinna daglega  oft við afar erfiðar aðstæður.

Siðanefnd FÍ hvetur félagsmenn eindregið til að deila reynslu sinni og styðja við þessa vinnu með því að veita innsýn í aðstæður sem geta varpað  ljósi á vandann. Ætlunin er að halda málstofu á næsta Félagsráðgjafaþingi í febrúar á næsta ári þar sem svörin verða rýnd.