Skip to main content
Fréttir

Ólafíuhátíð – fréttatilkynning – Frá myrkri til ljóss

By ágúst 19, 2013september 8th, 2021No Comments

Morgunverðarfundur til minningar um Ólafíu Jóhannsdóttur á vegum Félagsráðgjafafélags Íslands
Þriðjudaginn 22. október 2013
Grand Hótel, Hvammi kl. 8.10-10:15

Þann 22. október eru 150 ár liðin frá fæðingu Ólafíu Jóhannsdóttur, frumkvöðuls í líknar- og mannúðarmálum. Af því tilefni stendur Félagsráðgjafafélag Íslands fyrir morgunverðarfundi til að minnast Ólafíu og starfa hennar og heiðra minningu hennar sem eins af frumkvöðlum félagsráðgjafar.

Saga Ólafíu er samofin sögu íslenskra kvenna á ofanverðri nítjándu öld. Hún var í forystu íslenskrar kvennabaráttu og tók meðal annars þátt í stofnun Hins íslenska kvenfélags, stofnaði Hvítabandið, bindindisfélag íslenskra kvenna árið 1895 og var virk í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Ólafía flutti til Noregs þar sem hún helgaði líf sitt líknarstörfum og hjálpaði vegalausum og föllnum konum. Hún gerði sér heimili meðal vændiskvenna, fátæklinga og drykkjumanna í Osló. Ólafía er þjóðkunn í Noregi fyrir störf sín þar en hún er minna þekkt á Íslandi. Bók Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, Ólafía, sem kom út 2006, hefur aukið þekkingu Íslendinga á þessum mikla mannvin.

Á morgunverðarfundinum flytur Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, erindi um hugsjónakonuna Ólafíu Jóhannsdóttur, Listin að umgangast útigangskonur. Þá flytur dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf erindi undir yfirskriftinni Mannkærleikur, fagið og fræðin. Að endingu fjalla Elísabet Þorgeirsdóttir og Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir, félagsráðgjafar um vinnu félagsráðgjafa með heimilislausum í dag undir yfirskriftinni Arfur Ólafíu. Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar verður fundarstjóri.

Brjóstmynd Ólafíu stendur í Aðalbyggingu Háskóla Íslands enda var hún meðal helstu tals- og hvatamanna að því að háskóli tæki hér til starfa. Að loknum morgunverðarfundi leggur Félagsráðgjafafélag Íslands blóm að minnisvarða Ólafíu til að heiðra minningu hennar sem eins af frumkvöðlum félagsráðgjafar á Íslandi

Fundurinn er öllum opinn, þátttökugjald er kr. 2.300 og er morgunverður innifalinn. Greiða þarf við innganginn.

Nánari upplýsingar um morgunverðarfundinn gefur Edda Ólafsdóttir í síma: 848 8565.

Fyrirlesarar gefa kost á sér í viðtöl:

· Sigrún Júlíusdóttir, prófessor sími: 891 7638

· Elísabet Þorgeirsdóttir, félagsráðgjafi sími: 864 4497