Skip to main content
Viðburðir

Ólafía Jóhannsdóttir – Minningarathöfn 22. október

By október 20, 2023No Comments

Sunnudaginn 22. október eru 160 ár liðin frá því að Ólafía Jóhannsdóttir fæddist (1863-1924). Af því tilefni ætlar Félagsráðgjafafélag Íslands, Hvítabandið og Kvenréttindafélag Íslands að leggja blómsveig að minnisvarða um Ólafíu við kirkjuna að Mosfelli í Mosfellsbæ. Sr. Henning Emil Magnússon, sóknarprestur, í Mosfellsprestakalli, hefur boðið félagsmönnum að vera við guðþjónustu í Lágafellskirkju sem hefst kl. 11:00. Dr. Sigrún Júlíusdóttir mun fjalla þar stuttlega um Ólafíu og það sem einkenndi hennar mannúðarstörf. Að guðþjónustu lokinni verður haldið að Mosfelli og blómsveigur lagður að minnisvarða.

Ólafía var forvígismaður íslenskrar kvennabaráttu, byltingarkona og heimskona. Hún ferðaðist víða um Ísland og hélt fyrirlestra á vegum Hvítabandsins. Síðar fór hún til Bandaríkjanna, Kanada, Englands, Skotlands og Noregs til að halda fyrirlestra um jafnréttismál, menntamál, trúmál, lífeyrisréttindi og heilbrigðismál.
Árið 1912 stofnaði hún heimili fyrir utangarðskonur og skrifaði síðan bókina Aumastar allra: Myndir frá skuggahliðum Kristjaníu. Bókin vakti mikla athygli bæði á Íslandi og erlendis, var endurútgefin oft í Noregi og einnig þýdd yfir á ensku og gefin út í Kanada. Ólafía ritaði síðar endurminningar sínar Frá myrkri til ljóss. Bókin, sem gefin var út árið 1925, var tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu en þetta var í fyrsta sinn sem sjálfsævisaga konu kom út á prenti.