Lára Björnsdóttir félagsráðgjafi hlaut í dag heiðursviðurkenningu Norrænu háskólasamtakanna (NASSW) árið 2021 fyrir framúrskarandi framlag til félagsráðgjafar. Viðurkenningin er veitt annað hvert ár í tengslum við ráðstefnu NASSW og FORSA, Norræn samtök um rannsóknir í félagsráðgjöf.
Lára Björnsdóttir hefur starfað að velferðarmálum í hálfa öld og verið sérstakur málsvari fyrir mannréttindi fatlaðs fólks og þeirra sem upplifa fátækt. Lára lauk prófi í félagsráðgjöf frá Danmarks Sociale Höjskole í Kaupmannahöfn árið 1968 og MA-prófi í félagsráðgjöf (Social and Community work) frá háskólanum í Bradford á Englandi árið 1986. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum velferðarmála, sinnt einstaklingsmálum auk stjórnunar og stefnumótunar hjá Reykjavíkurborg, ríkisstofnunum og félagasamtökum. Lára var framkvæmdastjóri Þroskahjálpar 1990 til 1994, félagsmálastjóri Reykjavíkur 1994 til 2006 og skrifstofustjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu 2008 til 2012. Hún stýrði Velferðarvaktinni í kjölfar efnahagshrunsins 2008 til 2013. Þá var Lára í hópi fyrstu félagsráðgjafa hér á landi og gekk í raðir Félagsráðgjafafélags Íslands árið 1969, þá tíundi félagsmaður félagsins. Hún gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið, var formaður þess 1990-1992, átti sæti í fræðslunefnd og ritnefnd afmælisrits félagsins sem gaf út veglegt afmælisrit á 25 ára afmæli félagsins.
Lára var sæmd gullmerki Landsamtakanna Þroskahjálpar 1995 og hlaut Rósina 2011, hvatningarverðlaun samtakanna og fjölskyldu Ástu B. Þorsteinsdóttur. Þá var Lára sæmd fálkaorðu forseta Íslands 17. júní 2016, hlaut hún riddarakross fyrir störf á vettvangi velferðar og félagsþjónustu og að málefnum fatlaðs fólks.
Lára Björnsdóttir hefur helgað starfsævi sína baráttu fyrir félagslegu réttlæti og mannréttindum. Á myndinni má sjá þegar heiðursverðlaun Norrænu háskólasamtakanna árið 2021 voru afhent á Forsa ráðstefnunni sem nú stendur yfir hér á landi í rafrænu formi.
Félagsráðgjafafélag Íslands óskar Láru Björnsdóttur innilega ti hamingju með þessa viðurkenningu.