Skip to main content
Fréttir

Fræðsluferð fagdeildar fjölmenningarfélagsráðgjafa til Danmerkur í mars 2014 – Staðfesting á þátttöku

By febrúar 20, 2014september 8th, 2021No Comments

Fagdeild fjölmenningarfélagsráðgjafa innan Félagsráðgjafafélags Íslands fékk styrk frá Leonardo da Vinci starfsmenntasjóð fyrir tveimur fimm daga fræðsluferðum til Noregs og Danmerkur.

Sótt var um styrkinn með því augnamiði að kynnast starfsumhverfi í málefnum flóttafólks, hælisleitenda og annarra innflytjenda, skoða móttökuþjónustu, velferðarþjónustu, afleiðingar áfallastreitu, sérstakan stuðning við börn og unglinga og þjónustu við fylgdarlaus börn innan stjórnsýslunnar, í opinberri nærþjónustu og hjá félagasamtökum.

Farið var í vel heppnaða fræðsluferð til Osló í byrjun nóvember 2013 þar sem margar af helstu stofnunum sem koma að málefnum flóttafólks og hælisleitenda voru heimsóttar.

Þrír félagsráðgjafar fengu styrk til ferðarinnar, auk þeirra þáðu 11 sérfræðingar boð um þátttöku í ferðinni. Með í för voru sérfræðingar (ekki aðeins félagsráðgjafar) frá Barnaverndarstofu, Barnavernd Reykjavíkur, Félagsþjónustusviði Seltjarnarnesbæjar, Fjölskyldu- og félagssviði Reykjanesbæjar, Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, Skóla og frístundasviði Reykjavíkur, Rannsóknastofu í barna og fjölskylduvernd, velferðarráðuneytinu, Velferðarsviði Reykjavíkur og Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða.

Megintilgangur ferðarinnar er að mynda enn sterkari faghóp sem getur unnið markvisst að yfirfærslu sérþekkingar og reynslu Dana og Norðmanna í málefnum flóttafólks og hælisleitenda til annarra sem starfa með þeim. Í framhaldi ferðanna stefnir fagdeildin að því að standa fyrir fræðslu og hanna upplýsingaefni fyrir aðra sérfræðinga á vettvangi.

Félagsráðgjafar finna vel fyrir mikilvægi samvinnu í sínum störfum, bæði innan fagstéttar og með þverfaglegum teymum. Því kannar fagdeildin hér með áhuga annarra sérfræðinga og samstarfsaðila til þátttöku í ferðunum, það skal tekið fram að ekki er verið að bjóða fram greiðslur til þátttöku heldur aðeins verið að láta vita af fyrirhugaðri fræðsluferð. Áætlað er að fara í seinni ferðina, til Kaupmannahafnar, 23. til 29. mars 2014. Búið er að leita eftir tilboði frá Icelandair og má gera ráð fyrir því að gist verði á Scandic Hótel, miðsvæðis í Kaupmannahöfn og að flug og gisting í tveggja manna herbergjum muni kosta um 125.000 kr.

Þeir sem hafa áhuga á þátttöku eru vinsamlegast beðnir um að láta vita af sér fyrir 10. desember 2013. Ganga þarf frá hóppöntun á flugi og gistingu fyrir jól. Sé frekari upplýsinga óskað er hægt að hafa samband við undirritaða.

Kær kveðja
F.h. Fagdeildar fjölmenningarfélagsráðgjafa

Edda Ólafsdóttir, formaður

edda.olafsdottir@reykjavik.is

s. 411 4156