Skip to main content
Fréttir

Flóttafólk á Íslandi – Vinnusmiðja um vinnu með flóttafólki

By desember 20, 2018No Comments

Dagana 4., 5., og 6. febúar nk. verður boðið upp á vinnusmiðju um vinnu með flóttafólki. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Félagsráðgjafafélag Íslands standa að undirbúningnum og hafa hlotið styrk frá Starfsþróunarsetri háskólamanna. Fræðslan mun fara fram á ensku.

Sérfræðingarnir Mads Ted Drud-Jensen, Mette Fenger og Mette Blauenfeldt frá Center for Udsatte Flygtninger á vegum Dansk Flygtninghjælp í Danmörku sjá um fræðsluna. Þau hafa margra ára reynslu af því að vinna með flóttafólki og hafa t.a.m. verið sveitafélögum ráðgefandi í móttöku flóttafólks í Danmörku ásamt því að veita ráðgjöf og fræðslu um alla Danmörk til ýmissa stofnana og félagasamtaka um ýmis málefni sem tengjast flóttafólki. Nánari upplýsingar má finna um vinnustað þeirra á heimasíðu Center for Udsatte Flygtninge; www.flygtning.dk/danmark/center-for-udsatte-flygtninge

Undanfarin ár hefur fjöldi flóttafólks aukist mikið og samfara því standa fagstéttir í velferðar- og heilbrigðisþjónustu o.fl. frammi fyrir nýjum og oft á tíðum flóknum áskorunum. Áætla má að um þúsund flóttafólk hafi fengið vernd á Íslandi frá árinu 2005, og meirihluti þeirra sl. 4 ár. Um er að ræða kvótaflóttafólk, flóttafólk sem kemur á eigin vegum og er veitt vernd ásamt fjölskyldusameiningum. Tólf sveitafélög hafa tekið á móti kvótaflóttafólki frá árinu 2005.

Vinnusmiðjan er opin öllum þeim sem vinna með flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd og þá sérstaklega starfsfólki ríkis og sveitarfélaga í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og skólamálum, ásamt starfsfólki Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, frjálsra félagasamtaka o.fl.

Í vinnusmiðjunni verður lögð áhersla á virkni þátttakenda og hópastarfi. Þátttakendur fá lista yfir lesefni ásamt upplýsingum um áhugaverðar heimasíður, „best practice“ o.fl. 

Ítarlegri dagskrá kemur seinna.

Starfsþróunarsetur BHM er styrktaraðili vinnusmiðjunnar

Dagskrá vinnusmiðjunnar er í viðhengi hér fyrir neðan. Athugið breytta staðsetningu. Námskeiðið fer fram í Borgartúni 6, 4. hæð.