Skip to main content
Fréttir

Fjárhagsaðstoð og flóttafólk – fræðsla vikunnar

By september 22, 2017No Comments

Það er óhætt að segja að þessi vika hafi verið stútfull af áhugaverðum fræðslufyrirlestrum í Félagsráðgjafafélagi Íslands.

Þriðjudag 19. september hélt fagdeild félagsráðgjafa í félagsþjónustu vel sóttan morgunverðarfund þar sem kröfur til fólks með fjárhagsaðstoð voru til umræðu. Á fundinn mættu um 80 þátttakendur, bæði félagsráðgjafar og aðrir sem vinna í félagsþjónustu sem og fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Á fundinum fjölluðu Ellý Alda Þorsteinsdóttir, félagsráðgjafi skrifstofustjóri í velferðarráðuneyti um þátttöku allra og Björk Vilhelmsdóttir, félagsráðgjafi talaði um mannréttindi ungs fólks sem er hvorki í skóla né í vinnu. Síðast en ekki síst sagði notandi fjárhagsaðstoðar af reynslu sinni og ráðgjafi las upp bréf frá öðrum notenda sem hefur lengi verið með fjárhagsaðstoð. Sköpuðust miklar umræður um hvers vegna frumvarp um skilyrðingu fjárhagsaðstoðar hefur ekki farið í gegn og voru ekki allir þátttakendur ánægðir með að velferðarráðuneytið hygðist stofna starfshóp um útfærslu skilyrðingar. Fagdeild félagsráðgjafa í félagsþjónustu stefnir á að skipuleggja enn fleiri morgunverðarfundi á næstu mánuðum til að ræða félagsþjónustu sveitarfélaga!

Miðvikudaginn 20. september hélt fagdeild fjölmenningarfélagsráðgjafa opinn fræðslufund í samstarfi við velferðarráðuneytið. Dr. Angelea Panos sem er sérfræðingur í málefnum flóttafólks en á fundinum lagði hún sérstaka áherslu á vinnu með börnum með áfallastreituröskun og hvernig er hægt að meta þarfir þeirra og hvernig er hægt að styrkja og byggja um fjölskyldur sem hafa neyðst að flýja heimaland sitt. Um 30 þátttakendur sóttu fræðslufundinn og hefur fagdeild félagsráðgjafa í fjölmenningu í hyggju að bjóða upp á enn frekari fræðslu um hvernig best er að vinna með flóttafólki út frá hugmyndafræði Trauma informed care.