
Nærri 400 félagsráðgjafar og gestir mættu á Félagsráðgjafaþingið sem haldið var föstudaginn 21.febrúar s.l. á Hilton hotel Nordica.
Þingið hófst kl.8.30 og stóð til kl. 18.00. Í fyrri hlutanum flutti Geraldine Nosowska félagsráðgjafi frá Bretlandi áhugaverð erindi og Dr. Steinunn Hrafnsdóttir prófessor við HÍ, ræddi um starfstengd lífsgæði félagsráðgjafa. Þá tóku við pallborðumræður um vinnuumhverfi félagsráðgjafa enda yfirskrift þingsins að þessu sinni, félagsráðgjöf á gervihnattaöld. Vísindanefnd FÍ afhenti tvo styrki úr B-hluta Vísindasjóðs. Eftir hádegi var hægt að velja á milli um fjörtíu fyrirlestra í átján málstofum. Afar góður rómur var gerður að innihaldi þessara fyrirlestra.
Óhætt er að segja að þingið hafi náð athygli fjölmiðla, sérstaklega Ríkisútvarpins og voru fjölmörg viðtöl tekin við fyrirlesara í aðdraganda þingsins, bæði í Mannlega þættinum og morgunþætti Rásar 1, auk þess sem Samfélagið í nærmynd sendi út klukkutíma langan þátt frá þinginu. Þá var fjallað um þingið í sjónvarpsfréttum RÚV.
Fjöldi viðtala var tekinn upp á meðan á þinginu stóð sem hafa verið og verða sett inn á Facebook-síðu Félagsráðgjafa og mikils virði að félagar deili þessum viðtölum til að dreifa þekkingunni sem víðast.
Þess má geta að nýtt skráningarkerfi var tekið í notkun fyrir þingið, kerfi sem er hannað af Konto.is. Með því tekst að halda öllum fjármunum hér á landi en gætt hafði nokkurar óánægju með að verið væri að nota erlent greiðslukerfi og hafði verið óskað eftir því að félagið beindi viðskiptum heldur til innlendra aðila. Þetta tókst mjög vel.