
Félagsráðgjafar gegna lykilhlutverki í stuðningi við einstaklinga og fjölskyldur sem glíma við geðrænar áskoranir. Þeir eru oft fyrsti snertipunktur fólks við hjálparkerfi samfélagsins og brúa bilið á milli einstaklinga, fjölskyldna og þjónustu. Félagsráðgjafar vinna út frá áfallamiðaðri nálgun og byggir starf þeirra á heildrænu sjónarhorni þar sem tekið er tillit til félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta sem hafa áhrif á andlega heilsu.
Stuðningur og þverfagleg samvinna
Félagsráðgjafar vinna að því að efla fólk til að takast á við erfiðleika í lífinu. Þeir veita ráðgjöf og hagnýtan stuðning við einstaklinga sem glíma við geðrænar áskoranir, hvort sem um er að ræða þunglyndi, kvíða, streituraskanir eða alvarlegar geðraskanir. Mikilvægur hluti starfsins felst í að hjálpa fólki að tengjast viðeigandi þjónustu og úrræðum í samfélaginu. Félagsráðgjafar starfa innan heilbrigðiskerfisins í þverfaglegum teymum með læknum, sálfræðingum og öðrum fagstéttum. Þeir sjá um að meta félagslegar aðstæður sjúklinga, aðstoða við útskriftaráætlanir og tryggja samfellu í þjónustu.
Forvarnir og fræðsla
Félagsráðgjafar stuðla að aukinni þekkingu á geðheilbrigði, vinna gegn fordómum og styrkja samfélagsleg stuðningsnet með fræðslu, hópastarfi og upplýsingamiðlun. Með þekkingu sinni á félagslegum kerfum og mannlegum samskiptum hjálpa þeir fólki að finna styrk sinn og bæta lífsgæði sín.
Aðgengi og valfrelsi
Félagsráðgjafar starfa bæði í opinbera kerfinu og í einkarekstri. Til að tryggja jafnt aðgengi að samtalsmeðferð félagsráðgjafa þarf greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga að taka til þjónustunnar. Félagsráðgjafafélag Íslands hefur ítrekað kallað eftir því að breytingar frá árinu 2020, á grein 21. a. í lögum nr. 152/2008 um sjúkratryggingar, verði útfæðar og fjármagnaðar í þeim tilgangi að auka aðgengi fólks að félagsráðgjöf.
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn
10. október ár hvert er tileinkaður vitundarvakningu um geðheilbrigði. Markmiðið er að auka fræðslu, sporna gegn fordómum og minna á að enn er þörf á öflugum stuðningi og samstilltu átaki til að bæta geðheilbrigði í samfélaginu. Félagsráðgjafar eru ómissandi hlekkur í geðheilbrigðisþjónustu. Með fagþekkingu, teymisvinnu og heildrænni nálgun styðja þeir fólk til aukins styrks, betri lífgæða og samfélagslegrar þátttöku.
Grein eftir Steinunni Bergmann formanni FÍ, birt á visir.is