Skip to main content
Fréttir

Ályktun frá stjórn vegna kynbundins launamunar á Kvennafrídeginum 2013

By október 24, 2013september 8th, 2021No Comments

Í tilefni Kvennafrídagsins sendi stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands frá sér eftirfarandi ályktun rétt í þessu:

Kvennafrídagurinn 24. október

Í dag er er kvennafrídagurinn en hann var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi þann 24. október árið 1975. Sameinuðu þjóðirnar höfðu helgað það ár málefnum kvenna og barna og unnu ýmis samtök kvenna að undirbúningi atburða í tengslum við árið og var stærsti viðburðurinn kvennaráðstefna sem haldin var í júní það ár. Á ráðstefnunni var samþykkt áskorun til kvenna um að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns. Þann dag komu íslenskar konur saman á fundum um land allt en sá fjölmennasti var á Lækjartorgi í Reykjavík en fundinn sóttu um 25 þúsund konur. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og lamaðist atvinnulífið í landinu að mestu leyti.
En hvað hefur áunnist á þeim 38 árum sem liðin eru frá því að meirihluti kvenna lagði niður störf til að sýna fram á mikilvægi sitt á vinnumarkaði?
Í kjarakönnun BHM frá því í vor kemur fram að óútskýrður launamunur kynjanna var enn um 8,4% í febrúar síðastliðnum. Þetta þýðir að laun háskólamenntaðra kvenna sem eru í aðildarfélögum BHM þurfi að hækka um 8,4% til að jafna laun karla. Hefur þá verið tekið tillit til starfshlutfalls og vinnustunda, aldurs og menntunar og mannaforráða og fjárhagslegrar ábyrgðar. Launamunurinn var 16,3% þegar ekki er tekið tillit til þessara þátta. Kjarakönnunin sýnir jafnframt að það er samband milli fjölda kvenna í félagi og launa, því fleiri sem konurnar eru, því lægri eru launin.
Félagsráðgjafafélag Íslands fagnar þeim árangri sem orðið hefur en harmar þann launamun sem enn er til staðar nær 40 árum eftir að fyrsti alþjóðlegi frídagur kvenna var haldinn hátíðlegur. Félagsráðgjafar á Íslandi eru að mestu leyti konur og er félagsráðgjafi lögverndað starfsheiti. Það þýðir að einungis þeir sem hafa lokið fimm ára námi til meistaragráðu í félagsráðgjöf mega kalla sig félagsráðgjafa. Starfsvettvangur félagsráðgjafa er fjölbreytilegur en flestir starfa við barnavernd og félagsþjónustu í sveitarfélögunum og á heilbrigðisstofnunum. Nú er mál að linni og hvetur stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands stjórnvöld til þess að beita sér í alvöru fyrir því að kynbundinn launamunur hverfi. Það er ólíðandi að þessi munur skuli enn fyrirfinnast!

Fyrir hönd stjórnar Félagsráðgjafafélags Íslands, María Rúnarsdóttir, formaður Sími: 595 5151/699 5111 Netfang: maria@felagsradgjof.is / felagsradgjof@felagsradgjof.is.