Skip to main content
Fréttir

ALÞJÓÐADAGUR FÉLAGSRÁÐGJAFA ER Í DAG – World Social Work Day 2018

By mars 20, 2018No Comments

Til hamingju með daginn kæru félagsráðgjafar en í dag fagna félagsráðgjafar um allan heim alþjóðadegi félagsráðgjafa (e. World Social Work Day 2018).

Hraðar breytingar í nútímasamfélagi skapa aukin tækifæri en samhliða þeim er hætt við að nýir hópar verði jaðarsettir og því mikilvægt að huga að þeim þannig að allir hafi aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Félagsráðgjafar vita hvar skórinn kreppir, hvaða hópar það eru sem eru viðkvæmir fyrir samfélagsbreytingum og hverjir það eru sem fá ekki nægan félagslegan stuðning og meðferð í samfélaginu. Því verða félagsráðgjafar að aðstoða þá sem er hætt við að verða jaðarsettir til að fá rödd og tryggja að félagsleg réttindi allra séu virt, vinna gegn félagslegu ranglæti og mannréttindabrotum. Það er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að leita allra mögulegra leiða til þess að allir íbúar hér á landi geti verið virkir samfélagsþegnar, bæði í efnahagslegu sjónarmiði og ekki síst með velferð íbúanna í huga. Eru félagsráðgjafar þar meðal lykilstétta og eiga að hafa mikil áhrif á uppbyggingu allrar velferðarþjónustu á Íslandi.

Ég hvet ykkur, kæru félagsráðgjafar, til að láta rödd ykkar heyrast, benda á hvað megi betur fara og hverjir það eru sem ekki fá nægilega góða þjónustu í því velferðarkerfi sem hér er, hvort heldur er um að ræða félagsþjónustu sveitarfélaga, barnavernd, þjónustu við fatlað fólk, geðheilbrigðisþjónustu eða í starfsendurhæfingu og öllum þeim málaflokkum sem þið starfið við. Við erum sérfræðingar og okkur ber skylda til að vera talsmenn skjólstæðinga okkar og valdefla þá til þess að láta rödd sína heyrast og taka þannig virkan þátt í að vinna að félagslegum réttindum og jöfnum tækifærum til samfélagslegrar þátttöku.

Evrópudeild alþjóðasamtaka félagsráðgjafa (IFSW Europe) hafa gefið frá sér yfirlýsingu í tilefni dagsins þar sem áréttað er mikilvægi starfa félagsráðgjafa sem vinna að því að styðja fólk til sjálfshjálpar með valdeflingu með það að leiðarljósi að auka lífsgæði þeirra. Leggur Evrópudeild IFSW útaf áherslum Evrópusambandsins þar sem nú sérstök áhersla á félagsleg réttindi, jöfn tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði, vinnuaðstæður og félagslega vernd og samfélagsþátttöku allra. Tekur Félagsráðgjafafélag Íslands undir með Evrópudeildinni, við verðum öll að taka höndum saman til að vinna gegn félagslegu ranglæti. Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni.

Ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með daginn!

María Rúnarsdóttir, formaður