Skip to main content
Fréttir

Ákall til íslenskra stjórnvalda vegna mannréttindabrota í Palestínu

By apríl 19, 2017No Comments

Félagsráðgjafafélag Íslands sendi rétt í þessu frá sér eftirfarandi ákall til stjórnvalda:

Félagsráðgjafafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til að beita sér af öllum mætti í alþjóðasamfélaginu til að stöðva átökin á Gaza. Markmið félagsráðgjafar er að vinna gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eiga sér stað. Því telur félagið og félagsráðgjafar um allan heim brýna þörf á því að alþjóðasamfélagið leggist nú á eitt til þess að snúa við þessari skelfilegu þróun mála í Palesínu og stöðvi mannréttindabrot sem eiga sér stað á Gaza svæðinu með árásum á sjúkrahús, skóla og flóttamannabúðir þar sem fjöldi almennra borgara og barna hafa látið lífið. Félagsráðgjafar um allan heim eru skelfingu lostnir yfir fréttum sem berast frá Gaza og fyrir viku síðan var félagsráðgjafi, Hashem Khader Abu Maria, skotinn til bana þegar hann tók þátt í friðsamlegri samstöðugöngu með Palestínu. Hashem Khader Abu Maria vann að vernd barna og ungmenna í Palestínu og skráði mannréttindabrot gegn börnum í Hebron. Félagsráðgjafafélag Íslands fordæmir dauða Hashem og sendir samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og félagsráðgjafa í Palestínu.
Félagsráðgjafafélag Íslands tekur undir með alþjóðasamtökum félagsráðgjafa (IFSW) sem hafa sent frá sér áskoranir til alþjóðasamfélagsins og 115 aðildarfélaga sinna um allan heim að skora á stjórnvöld að styðja friðarviðræður sem byggjast á grundvallarhugmyndum félagsráðgjafar um sjálfsákvörðunarrétt, félagslegt og efnahagslegt jafnrétti og félagslega vernd. Alþjóðasamfélagið verður að koma að friðarviðræðum á Gaza svo tryggja megi þar frið til framtíðar sem byggir á réttindum, virðingu og stöðugleika fyrir íbúa Palestínu og Ísrael, en grundvallargildi félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og mannréttindum allra. Félagsráðgjafafélag Íslands hvetur því íslensk stjórnvöld til að láta til sín taka á alþjóðavettvangi og berjast gegn þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað í Palestínu.

Fyrir hönd Félagsráðgjafafélags Íslands,
María Rúnarsdóttir, formaður
maria@felagsradgjof.is
Sími: 6995111