Skip to main content
Fréttir

Hervör Alma nýr doktor í félagsráðgjöf

By nóvember 26, 2025No Comments
Hervör Alma Árnadóttir, deildarforseti Félagsráðgjafadeildar HÍ,  varði doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands í gær, 25.nóvember. Ritgerðin ber heitið „Þátttaka barna og ungs fólks í rannsóknum: Tækifæri og áskoranir.“
Andmælendur voru þau Dr. Ingrid Höjer, professor emerita við the University of Gothenburg, Svíþjóð og Dr. Ottar Ness, professor við the Norwegian University of Science and Technology, Noregi.
Aðalleiðbeinandi Hervarar Ölmu var dr. Guðrún Kristinsdóttir prófessor emerita við Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi Dr. Sissel Seim, dósent við Oslo Metropolitan University, Noregi.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd Dr. Svein Arild Vis, prófessor við The Arctic University of Norway. Noregi.
Það var Dr. Ólafur Páll Jónsson forseti Deildar menntunar og margbreytileika sem stjórnaði athöfninni.
Félagsráðgjafafélag Íslands óskar Dr. Hervöru Ölmu Árnadóttur hjartanlega til hamingju með doktorsnafnbótina.
Nánar um verkefnið; Doktorsverkefni Hervarar Ölmu Árnadóttur fjallar um þátttöku barna og ungmenna í rannsóknum, með sérstaka áherslu á börn sem búa við félagslega erfiðar aðstæður og njóta stuðnings barnaverndar og velferðarþjónustu á Íslandi. Í doktorsverkefninu er fjallað um siðferðileg og aðferðafræðileg álitamál sem tengjast því að fá börn til þátttöku, hlutverk hliðvarða í að veita eða takmarka aðgang og hvernig fagfólk skilur jafnvægið milli verndar og þátttöku barna. Rannsóknin byggir á sjónarhorni gagnrýnnar hugsmíðahyggju og bernskufræða þar sem börn eru skilin sem virkir gerendur í mótun eigin lífs og félagslegs umhverfis. Doktorsverkefnið er byggt á fjórum fræðigreinum sem varpa ljósi á ólíka þætti þátttöku barna, aðgengi að þeim og skapandi rannsóknaraðferðir.