
Stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands kom saman til fundar 17. september. Þar var m.a. rætt um spennandi framtíðarmál félagsins og hvernig við getum öll tekið þátt í þeim.
Podcast-stúdíó með myndavélum tekið í notkun
Félagið er komið með upptökustúdíó í Borgartúni 27 sem keypt var með níu öðrum fagfélögum innan BHM. Rætt var um möguleika stjórnar til að halda úti föstum þáttum og hvernig fagdeildir og félagsráðgjafar alls staðar af landinu geti nýtt stúdíóið til að efla faglega umræðu og miðlun.
Stefnumótunardagur FÍ
Stefnumótunardagurinn 11. september tókst afar vel. Yfir 100 manns skráðu sig og almenn ánægja ríkti með framkvæmdina. Fyrstu niðurstöður voru kynntar í lok dags og var endurskoðun náms í félagsráðgjöf rauður þráður í gegnum umræður. Lokaskýrsla barst 12. september og samanburður við fyrri stefnumótun liggur fyrir. Búið er að senda öllum þátttakendum samantekt niðurstaðna og óskað eftir viðbótum eða athugasemdum fyrir 24. september áður en þær verða sendar öllu félagsfólki. Ætlunin er einnig að kynna niðurstöðurnar fyrir Háskóla Íslands. Stjórn mun halda áfram vinnu við stefnumótun á fundum í október.
Félagsráðgjafaþing 2026
Undirbúningur er hafinn fyrir næsta þing sem fer fram 20. febrúar 2026 á Hilton Reykjavík Nordica. Þema þingsins er til umræðu og félagsfólk fær tækifæri til að hafa áhrif á mótun dagskrár með aukinni þátttöku fagdeilda FÍ. Einn af aðalfyrirlesurum verður Helle Öbo frá Danmörku sem mun fjalla m.a. um hvað tengslavelferð (relational welfare) þýðir í reynd fyrir fagfólk í félagsþjónustu. Helle er höfundur bókarinnar „Man møder et menneske“ (2023), sem fjallar um umbreytandi kraft mannlegra tengsla.
Kjaramál í brennidepli
Unnið er að endurskoðun stofnanasamninga í kjölfar kjarasamninga og var samningur við Landspítala undirritaður 12. september. Við síðustu kjarasamninga var samið um launatöfluauka fyrir kjarasamningstímabilið 2024 – 2028 og kemur launahækkun 1,24% vegna viðmiðunartímabilsins desember 2023 til desember 2024 til félagsfólks aðildarfélaga BHM hjá ríkinu til útborgunar 1. október.
Viðburðir á næstunni
- Málþing fagdeildar í fjölmenningu – 16. nóvember á Grand hótel.
- Aðventufundur FÍ á Alþjóða mannréttindadeginum – 10. desember á Grand hótel.
Erlent samstarf
Formaður FÍ mætir á fund norrænna samtaka félagsráðgjafa í Rowaniemi Finnlandi dagana 25.-26. september og einnig fund IFSW Europe, í Osló dagana 3.-5.október. Stjórn sækir ráðstefnu í kjölfar hans í Osló dagana 6-9.október. Erindi barst frá félagsráðgjöfum innan BASW varðandi málefni Palestínu þar sem kallað er eftir afstöðu IFSW Europe til þátttöku samtaka félagsráðgjafa frá Ísrael í IFSW. Stjórn FÍ tekur skýra afstöðu með Palestínu og hafnar þátttöku fulltrúa frá Ísrael.
Annað
- Tímarit FÍ er í vinnslu og nokkrar greinar þegar komnar. Félagar eru hvattir til að senda inn áhugaverðar greinar.
- Rætt um undirbúning fyrir heimsþingið í Kenía í júní 2026 og eru áform uppi um að setja á laggirnar ferðanefnd. Vel á annað hundrað félagsráðgjafar sögðust hafa áhuga á að fara á heimsþingið og er verið að bregðast við því ákalli.
- Árlegur fundur stjórnar með fulltrúum nefnda, fagdeilda og landshlutadeilda verður haldinn 19. nóvember.
- Formaður og framkvæmdastjóri tóku þátt í afmælisráðstefnu Jafnréttisstofu á Akureyri 15. september.