Skip to main content
Fréttir

Aldrei fleiri í MA námi í félagsráðgjöf

By október 21, 2024No Comments

Um 650 nemendur stunda nú nám í fjölbreyttum námsleiðum við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, 350 eru skráðir í grunnnám og tæplega 300 í framhaldsnám, (MA og diploma) auk fimm doktorsnema.

Þetta kom fram á fundi stjórnar FÍ með Hervöru Ölmu Árnadóttur deildarforseta, Guðnýju Björk Eydal umsjónarkennara BA náms og Steinunni Hrafnsdóttur umsjónarkennara MA náms, fyrr í þessum mánuði. Nemendum í félagsráðgjöf hefur fjölgað mikið og með viðbótar stöðugildum í haust var deildinni gert kleift að fjölga nemendum í MA námi til starfsréttinda úr 40 í 60.  Þá eru 38 nemar á öðru ári MA til starfsréttinda sem stefna á útskrift í vor.

Við deildina starfa 23  í um 14 stöðugildum, auk þess sem á annað hundrað stundakennara kemur að kennslunni. Nemendum sem vilja stunda nám við deildina hefur fjölgað mikið og er hlutfall nemenda á kennara eitt það hæsta í skólanum.

Á yfirstandandi skólaári er kennsla í faræld barna, öldrunarfræði, öldrunarþjónustu, áfengis- og vímuefnamálum, handleiðslu, fjölmenningu, barnavernd og starfsendurhæfingu. Auk þessa er boðið upp á diplomanám á sviði ráðgjafar við einstaklinga með heilabilun og fjölskyldu þeirra í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Það er misjafnt eftir árum hvaða ör- og diplomanám stendur til boða og þarf að ná tilteknum fjölda til að halda úti námslínum en námið er í stöðugri þróun og áhersla lögð á samstarf við háskóla á Norðurlöndunum og á alþjóðavettvangi.

Til upplýsinga: 

Nám í félagsráðgjöf er fimm ára háskólanám sem skiptist í þriggja ára BA nám og tveggja ára MA nám. BA námið byggir á fjölbreyttum námskeiðum meðal annars um áföll og þroska, fjölskyldur, fátækt, ofbeldi, úrræði velferðarkerfsins, fjölmenningu, fötlun, samfélagið, stjórnkerfi og löggjöf um velferðar- og fjölskyldumál. Þetta eru námskeið sem búa nemendur undir að vinna með fólki. Nemendur sem ljúka BA námi í félagsráðjgöf hafa verið eftirsóttir starfskraftar í velferðarkerfinu en flest kjósa að halda áfram námi, ýmist til starfsréttinda í félagsráðgjöf eða á öðrum sviðum. Í starfsréttindanáminu felst stór hluti námsins í starfsþjálfun utan Háskóla Íslands undir handleiðslu sérþjálfaðra starfsþjálfunarkennara. Félagsráðgjafar geta að loknu MA námi sótt um starfsleyfi í félagsráðgjöf til Embættis Landlæknis og leyfi til að reka heilbrigðisþjónustu. Þá er mögulegt að stunda doktorsnám við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands auk þess er boðið upp á margvíslegar diplomalínur í framhaldsnámi svo sem í áfengis- og vímuefnamálum, barnavernd, farsæld barna og öldrunarþjónustu. ( Steinunn Bergmann, formaður FÍ )