Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands og Þroskaþjálfafélag Íslands taka heils hugar undir yfirlýsingu Landsamtakanna Þroskahjálpar frá 3. nóvember síðastliðnum um framkvæmd bottvísunar fatlaðs flóttamanns.
Félögin vilja beina því til yfirvalda að þau virði Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í hvívetna, en ljóst er að það var ekki gert við þessa framkvæmd. Að auki vilja félögin benda á að yfirvöldum er einnig skylt að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar um börn á flótta er að ræða.
Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags íslands
Þóra Leósdóttir formaður Iðjuþjálfafélags Íslands
Tryggvi Ingason formaður Sálfræðingafélags Íslands
Laufey Elísabet Gissurardóttir formaður Þroskaþjálfafélags Íslands
Yfirlýsing frá Þroskahjálp vegna handtöku og brottvísunar fatlaðs manns
Síðdegis í gær fengu Landssamtökin Þroskahjálp upplýsingar um að fatlaður maður hefði verið handtekinn án fyrirvara og birt ákvörðun um að honum yrði brottvísað til Grikklands þá um nóttina eftir tveggja ára dvöl á Íslandi. Þroskahjálp hefur fylgst með máli viðkomandi síðustu 18 mánuði og tekið þátt í því að vekja athygli á sérlega viðkvæmri stöðu hans og stutt hann í því að láta á synjun Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála reyna fyrir dómstólum.
Afstaða samtakanna er skýr, við teljum að ekki hafi verið tekið mið af fötlun við mat umsóknar um alþjóðlega vernd, en slíkri umsókn var synjað bæði hjá Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála. Jafnframt héldu þau því fram að mannsæmandi aðstæður væru tryggðar í Grikklandi, sem er í hrópandi mótsögn við þær upplýsingar sem Þroskahjálp hefur aflað hjá systursamtökum sínum í Grikklandi sem segja stöðu fatlaðs flóttafólks fullkomlega óviðunandi. Að auki hafa samtökin verið í sambandi við fjölskylduna eftir að þau lentu og ljóst er að aðstæðurnar eru skelfilegar.
Með þessum ákvörðunum íslenskra stjórnvalda er farið á svig við mikilvæg réttindi sem tryggð eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja á öllum sviðum, þar á meðal við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður skýrt á um að veita beri fötluðu fólki skilyrðislausa virðingu, sem myndir af vettvangi handtöku bera ekki með sér. Í samningnum er einnig fjallað um aðgengi, aðgang að réttinum, viðeigandi aðlögun og mikilvægi þess að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks til þess að tryggja jafnrétti í reynd. Öll þessi ákvæði telja Landssamtökin Þroskahjálp að hafi verið brotin í þeirri atburðarrás sem hófst síðdegis í gær.
Í fyrsta lagi eru tvær vikur þangað til mál mannsins verður tekið fyrir hjá íslenskum dómstólum og augljóst að hann getur ekki komið fyrir dóm á Íslandi til að tala máli sínu þegar búið er að flytja hann nauðugan til Grikklands. Auk þess hófst lögmaður mannsins þegar handa við að fá álit Mannréttindadómstóls Evrópu á brottflutningi, en var ekki gefinn frestur til þess að fylgja því eftir og fá niðurstöðu dómstólsins og málið því látið niður falla þar sem brottvísunin hafði þegar verið framkvæmd. Aðgengi að réttinum, sem þó ber að tryggja, er því frá honum tekið.
Í öðru lagi höfum við staðfestar heimildir fyrir því að hvorki lögmaður mannsins né réttindagæslamaður hafi fengið upplýsingar um stöðu mála frá yfirvöldum, sem þeim þó er skylt að upplýsa. Þegar þær upplýsingar bárust eftir öðrum leiðum var bæði lögmanni og réttindagæslumanni meinað að hitta skjólstæðing sinn og veita honum aðstoð. Krafan um viðeigandi aðlögun og stuðning var því alls ekki uppfyllt.
Í þriðja lagi höfum við upplýsingar um að hann hafi verið sendur úr landi án nauðsynlegra lyfja. Ljóst má vera að með þessu er heilsu mannsins stefnt í voða.
Í fjórða lagi var brotið gegn ákvæði samningsins um verndun friðhelgi einstaklingsins þegar maðurinn var fjarlægður með líkamlegu valdi úr hjólastólnum. Í því felst valdbeiting og ofbeldi sem er með öllu óásættanlegt.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir neyðarfundi með ráðherra mannréttindamála, Katrínu Jakobsdóttur, ráðherra málefna fatlaðs fólks, Guðmundi Inga Guðbrandssyni og ráðherra útlendingamála, Jóni Gunnarssyni. Samtökin telja augljóst að alvarleg mannréttindabrot hafi verið framin og krefjast skýringa tafarlaust.