Skip to main content

Sérfræðileyfi – ýmsar upplýsingar

Hvað felst í því að vera sérfræðingur í félagsráðgjöf?

Sérfræðingur í félagsráðgjöf er félagsráðgjafi sem hefur sérþekkingu og er sérhæfður í að leysa viðfangsefni er snúa að hans sérsviði, ásamt því að bæta við þá þekkingu með rannsóknum og stefnumótun á sviðinu. Sérfræðingur í félagsráðgjöf er frumkvöðull og leiðtogi í starfi og samþættir og nýtir fræðilega og gagnreynda þekkingu í starfi sínu, kennslu og fræðslu. Hann viðheldur þekkingu sinni og færni miðað við bestu þekkingu á hverjum tíma og leitast við að meta árangur starfa sinna.

Eftirfarandi upplýsingar er að finna á heimasíðu landlæknis:

Félagsráðgjafar – sérfræðileyfi

Skilyrði fyrir útgáfu sérfræðileyfa í félagsráðgjöf eru skilgreind og skýrð í reglugerð nr. 1088/2012 um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Reglugerðin er sett samkvæmt lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn. Sjá reglugerðina hér fyrir neðan.

Sérfræðileyfi

Leitað er umsagnar Félagsráðgjafardeildar félagsvísindasviðs Háskóla Íslands áður en sérfræðileyfi er veitt.
Sérfræðileyfi má veita á skilgreindum sérsviðum félagsráðgjafar. Skilyrði er að sérfræðinám umsækjanda sé skilgreint innan þess sérsviðs sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.
Viðkomandi sérsvið skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi. Heimilt er að tilgreina áherslusvið sem viðkomandi hefur sérhæft sig í innan skilgreindra sérsviða.

Rétt til að öðlast sérfræðileyfi í félagsráðgjöf hafa þeir sem:
1. Hafa starfsleyfi sem félagsráðgjafi hér á landi.

2. Hafa lokið meistaraprófi eða doktorsprófi í félagsráðgjöf á viðkomandi sérsviði eða sambærilegu framhaldsnámi frá viðurkenndum háskóla.

3. Hafa starfað við félagsráðgjöf að loknu prófi skv. 2. tölulið, sem svarar til að minnsta kosti tveggja ára í fullu starfi á því sérsviði sem umsókn um sérfræðileyfi tekur til. Sé starfshlutfall lægra lengist starfshlutfall sem því nemur. Til frádráttar geta komið allt að tólf mánuðir í fullu starfi ef viðkomandi hefur starfað samhliða doktorsnámi sínu á viðkomandi sérsviði.

4. Hafa hlotið handleiðslu hjá viðurkenndum aðila á starfstíma skv. 3. tölulið.

Undirritaðri umsókn um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf skal fylgja: Námsferill. Staðfesting á að umsækjandi hafi lokið meistara- eða doktorsnámi á því sviði sem sótt er um. Nauðsynlegt er að senda inn staðfestan námsferil (e. transcript) frá viðkomandi háskólastofnun.
Námsskrá. Sé heiti námskeiða ekki lýsandi fyrir innihald þeirra er nauðsynlegt að senda inn almenna lýsingu á náminu eða námsskrá (e. syllabus).
Verkefni á sérsviði. Komi ekki skýrt fram í þessum gögnum að námið hafi verið á því sviði sem sótt var um getur umsækjandi sent inn frekari gögn eins og námsritgerðir og lýsingar á námi.
Lokaverkefni. Óskað er eftir upplýsingum um heiti lokaverkefnis og stuttri lýsingu á því. Gagnlegt er að lokaverkefni fylgi umsókn.
Starfsvottorð. Staðfesting á að umsækjandi hafi starfað á því sviði sem óskað er eftir viðurkenningu á og jafnframt tímalengd og starfshlutfall. Til að fullnægja kröfu um fullt starf í tvö ár gæti umsækjandi þurft að leggja fram starfsvottorð frá fleirum en einum aðila. Í öllum tilvikum er nauðsynlegt að fram komi hvert var starfssvið umsækjanda, starfshlutfall og tímalengd ráðningar.
Handleiðsla. Staðfesting á að umsækjandi hafi fengið handleiðslu á starfstíma.
Útfylltar umsóknir um sérfræðileyfi þarf að undirrita og senda Embætti landlæknis ásamt staðfestum ljósritum af nauðsynlegum gögnum. Með staðfestu ljósriti er átt við að samræmi milli frumrits og ljósrits sé staðfest, en gögnin fást staðfest hjá viðkomandi skóla (ef nám var stundað á Íslandi), hjá Embætti landlæknis, á lögreglustöðvum eða hjá sýslumanni.
Umsókn um vottorð vegna sérfræðileyfis má senda Embætti landlæknis í pósti, símbréfi eða í tölvupósti á mottaka@landlaeknir.is
ATH. Gildistími slíkra vottorða er hámark þrír mánuðir frá útgáfudegi þeirra.
Gjöld fyrir starfsleyfi, vottorð starfsleyfa og viðurkenningar.
Gjald fyrir útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa er kr. 8.300.- en kr. 2.000.- fyrir vottorð vegna starfsleyfis. Við afgreiðslu leyfis er greiðsluseðill sendur umsækjanda.
Gjald er innheimt vegna umsóknar heilbrigðisstarfsmanns um starfsleyfi eða sérfræðileyfi þegar senda þarf umsókn til umsagnar.Vegna mats umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á háskólastigi kr. 50.000.-Vegna mats umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á framhaldsskólastigi kr. 25.000. Greiðsluseðill er sendur umsækjanda til innheimtu gjaldsins.

Síðast uppfært 07.03.2016

Umsókn um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf er að finna á heimasíðu landlæknis.

__________________________________________________________________________________________

REGLUGERÐ um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi er að finna hér í Stjórnartíðindum

_________________________________________________________________________________________

Vinnureglur nefndar um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf

Nefnd um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf var skipuð af Félagsráðgjafardeild HÍ með erindisbréfi 1. febrúar 2017 og hefur það hlutverk að veita umsagnir til Landlæknisembættisins um útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa í félagsráðgjöf. Í nefndina voru skipaðar Sigrún Harðardóttir, Steinunn Hrafnsdóttir og Guðlaug M. Júlíusdóttir. Störf sérfræðinefndarinnar byggja á reglugerð nr. 1088/2012 um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.

Til hliðsjónar við vinnu að þessum drögum að vinnureglum nefndarinnar var ofangreind reglugerð og  skýrsla vinnuhóps um sérfræðileyfi sem  í sátu Sigrún Harðardóttir, Guðlaug M. Júlíusdóttir og María Rúnarsdóttir. Vinnuhópurinn var skipaður í kjölfar fundar félagsráðgjafadeildar HÍ með formanni FÍ í september 2015. Helstu tillögur vinnuhópsins voru:

  1. Að Félagsráðgjafardeild HÍ skipaði sérstaka nefnd þriggja fulltrúa sem hafi það hlutverk að meta umsóknir um starfsleyfi þeirra sem ekki eru menntaðir á á Íslandi ásamt því að meta umsóknir um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf.
  2. Nefndin skilgreini hvað það felur í sér að vera sérfræðingur í félagsráðgjöf.
  3. Nefndin haldi fund í samstarfi við FÍ með sérfræðingum í félagsráðgjöf til að ræða hvernig megi nýta sérfræðinga í félagsráðgjöf faginu til framdráttar.
  4. Nefndin haldi opinn fund með félagsráðgjöfum til að ræða hvað sérfræðiréttindi feli í sér og hvernig þróunin geti orðið næstu 10 árin.
  5. Nefndin skilgreini viðmið um skilyrði um nám, handleiðslu og sérfræðisvið í félagsráðgjöf.
  6. Nefndin skilgreini viðmið um skilyrði til starfsleyfa í félagsráðgjöf á Íslandi.

Tillögur nefndar um sérfræðileyfi um skilgreiningu á því hvað það felur í sér að vera sérfræðingur:

Sérfræðingur í félagsráðgjöf er félagsráðgjafi sem hefur sérþekkingu og er sérhæfður í að leysa viðfangsefni er snúa að hans sérsviði, ásamt því að bæta við þá þekkingu með rannsóknum og stefnumótun á sviðinu. Sérfræðingur í félagsráðgjöf er frumkvöðull og leiðtogi í starfi og samþættir og nýtir fræðilega og gagnreynda þekkingu í starfi sínu, kennslu og fræðslu. Hann viðheldur þekkingu sinni og færni miðað við bestu þekkingu á hverjum tíma og leitast við að meta árangur starfa sinna.

Tillögur nefndar um sérfræðileyfi um almennar kröfur að sérfræðiréttindum til viðbótar því sem kveðið er á um í reglugerðinni:

  1. Þeir sem eru með fjögurra ára starfsréttindanám skulu ljúka meistaranámi til þess að eiga kost á að sækja um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf. Að því loknu skulu þeir hafa a.m.k. tveggja ára starfsreynslu á sviðinu.
  2. Þeir sem eru með fimm ára meistaranám til starfsréttinda skulu ljúka viðurkenndu viðbótarnámi á sérsviði, t.d. diplómanámi eða doktorsnámi. Að því loknu skulu þeir hafa m.k. tveggja ára starfsreynslu á sviðinu.
  3. Umsækjendur hafi lokið 70 tímum í handleiðslu að loknu meistaraprófi/viðbótarnámi hjá félagsráðgjafa sem öðlast hefur til þess réttindi. Meirihluti handleiðslutíma þarf að vera einstaklingshandleiðsla en tekið verður mið af því ef umsækjandi hefur einnig sótt hóphandleiðslu. Leyfilegt er að viðurkenna hluta af handleiðslu sem hefur verið fengin hjá öðru fagfólki en félagsráðgjafa (geðhjúkrunarfræðingi, geðlækni eða sálfræðingi sem uppfyllir sömu kröfur).
  4. Gerð er krafa um sjálfstætt ritverk sem hefur verið birt í viðurkenndu vísindatímariti eða í sérstöku riti eða bók þar sem fræðilegum kröfum er fylgt. Séu höfundar fleiri en einn og annað ekki tilgreint, er hlutdeild í ritverki metin á þann hátt að tveir höfundar teljast eiga helmingshlut hvor. Prófritgerðir til meistara- eða doktorsprófs eru að jafnaði ekki metnar nema þær hafi verið gefnar út á viðurkenndum ritrýndum vettvangi. Embættisskýrslur til opinberra aðila eru að jafnaði ekki metnar nema þær hafi verið birtar sem fræðilegar ritgerðir.

Sérfræðisvið:

Nefndin leggur til að gert verði ráð fyrir að félagsráðgjafar geti sótt um sérfræðiréttindi á eftirfarandi meginsérfræðisviðum:

Heilbrigðisþjónustu
Klínískri félagsráðgjöf
Barnavernd
Öldrun
Félagsþjónustu
Skólafélagsráðgjöf
Réttarfélagsráðgjöf
Stjórnun
Samfélags- og hópvinnu
Fjölmenningu

Veita má sérfræðileyfi á öðrum sviðum en þeim sem nú er gert ráð fyrir, ef félagsráðgjafi hefur uppfyllt sömu kröfur og þar eru gerðar. Sérfræðinefnd úrskurðar um slík mál. Umsækjandi sækir um ákveðið svið og skilar inn greinargerð um forsendur og hæfni til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til að öðlast sérfræðiréttindi.

Samþykkt í Félagsráðgjafardeild 7. desember 2017. Viðmiðunarreglurnar munu taka gildi 1. apríl 2018. Reglurnar verða endurskoðaðar ekki síðar en í apríl 2020.