Skip to main content

Ritstjórnarstefna Tímarits félagsráðgjafa

Samþykkt vor 2016

Ritstjórnarstefna

Tímarit félagsráðgjafa er vettvangur fyrir kynningu á faglegu efni, niðurstöðum rannsókna, þróunarverkefnum og öðrum fræðilegum efnivið á sviði félagsráðgjafar. Ritstjóri metur gæði alls innsends efnis og ákveður hvað skuli birt í tímaritinu. Í samstarfi við ritstjórn hefur hann umsjón með ritrýniferli tímaritsins. Ritstjórn áskilur sér rétt til að gera minniháttar breytingar á framsetningu á texta við lokafrágang alls birts efnis.
Tímaritið er gefið út í nánu samstarfi við stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands og er að jafnaði gefið út eitt hefti ári. Sérhefti í umsjón utanaðkomandi ritstjóra um þemu, aðferðir eða málaflokk eru gefin út ef tilefni er til. Stefnt er að því að gefa tímaritið eingöngu út rafrænt.
Meginmarkmið Tímarits félagsráðgjafa er að miðla nýþekkingu í félagsráðgjöf, efla fræðilega og faglega stöðu greinarinnar og stuðla þannig að traustari grunni hennar til að auka gæði félags-ráðgjafarþjónustu. Tímaritið er opið fyrir framlagi frá öðrum fagstéttum sem þjónar þessu markmiði.
Bakhjarl tímaritsins er fagráð skipað fjölmennum hópi félagsráðgjafa af ólíkum sérsviðum. Fulltrúum í fagráði er ætlað að fylgjast með rannsóknum, verkefnum og þjónustuþróun á sínu sviði og hvetja til kynningar á því með greinaskrifum, viðtölum ásamt samantektum af ráðstefnum og öðrum faglegum viðburðum. Einnig er fagráð ritstjórn til ráðgjafar um ritrýni.
Tímarit félagsráðgjafa birtir fræðilegar, ritrýndar og almennar greinar um fagleg málefni. Einnig er frétta- og umræðubálkur, Samfélagsumræðan, um brennandi málefni líðandi stundar sem varðar félagsráðgjöf. Einnig er þar umfjöllun um nýútkomnar erlendar og íslenskar fag – og fræðibækur ásamt kynningu á nýjum meistara- og doktorsritgerðum. Þá eru bálkar um starfsemi m.a. Félags-ráðgjafafélags Íslands, Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnunar í barna –og fjölskylduvernd.

VINNUFERLI VIÐ RITRÝNI
Ritrýndar fræðigreinar eru samþykktar af ritstjórn áður en þær eru sendar ónafngreindar til ritrýna. Um tvöfalda nafnleynd að ræða. Ritrýnar koma oftast úr röðum félagsráðgjafa, en einnig er leitað út fyrir greinina ef við á. Við ritrýnina er fylgt þar til gerðu matsblaði og rituð umsögn um styrkleika og veikleika greinar hvað varðar gæði fræðilegs efnis og framsetningu þess, ásamt með rökstuddum tilmælum um hvort greinin verði samþykkt til birtingar óbreytt, hvað þurfi að endurbæta eða hvort henni skuli hafnað. Greinar sem ekki standast kröfur að mati ritrýna er hafnað af ritstjórn. Tímaritið birtir reglur til höfunda um greinaskrif og upplýsingar um ritrýniferlið.