Ritstjórn Tímarits félagsráðgjafa

Ritstjórn Tímarits félagsráðgjafa skipa:

  • Freydís J. Freysteinsdóttir, ritstjóri ritrýndra greina
  • Eldey Huld Jónsdóttir, ritstjóri annars efnis
  • Ingibjörg Þórðardóttir
  • Íris Dögg Lárusdóttir 

Steinunn Bergmann, formaður FÍ er ábyrgðarmaður tímaritsins

Markmið Tímarits félagsráðgjafa

Að vera vettvangur fyrir þekkingarmiðlun og umfjöllun um fagleg málefni félagsráðgjafar. Tímaritinu er einnig ætlað að efla fræðilega þróun, miðla faglegum straumum og styrkja áhrif félagsráðgjafar í þjónustu og stefnumótun.

Ritstjórnarstefna Tímarits félagsráðgjafa

Samþykkt vor 2016

Ritstjórnarstefna

Tímarit félagsráðgjafa er vettvangur fyrir kynningu á faglegu efni, niðurstöðum rannsókna, þróunarverkefnum og öðrum fræðilegum efnivið á sviði félagsráðgjafar. Ritstjóri metur gæði alls innsends efnis og ákveður hvað skuli birt í tímaritinu. Í samstarfi við ritstjórn hefur hann umsjón með ritrýniferli tímaritsins. Ritstjórn áskilur sér rétt til að gera minniháttar breytingar á framsetningu á texta við lokafrágang alls birts efnis.
Tímaritið er gefið út í nánu samstarfi við stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands og er að jafnaði gefið út eitt hefti ári. Sérhefti í umsjón utanaðkomandi ritstjóra um þemu, aðferðir eða málaflokk eru gefin út ef tilefni er til. Stefnt er að því að gefa tímaritið eingöngu út rafrænt.
Meginmarkmið Tímarits félagsráðgjafa er að miðla nýþekkingu í félagsráðgjöf, efla fræðilega og faglega stöðu greinarinnar og stuðla þannig að traustari grunni hennar til að auka gæði félags-ráðgjafarþjónustu. Tímaritið er opið fyrir framlagi frá öðrum fagstéttum sem þjónar þessu markmiði.
Bakhjarl tímaritsins er fagráð skipað fjölmennum hópi félagsráðgjafa af ólíkum sérsviðum. Fulltrúum í fagráði er ætlað að fylgjast með rannsóknum, verkefnum og þjónustuþróun á sínu sviði og hvetja til kynningar á því með greinaskrifum, viðtölum ásamt samantektum af ráðstefnum og öðrum faglegum viðburðum. Einnig er fagráð ritstjórn til ráðgjafar um ritrýni.
Tímarit félagsráðgjafa birtir fræðilegar, ritrýndar og almennar greinar um fagleg málefni. Einnig er frétta- og umræðubálkur, Samfélagsumræðan, um brennandi málefni líðandi stundar sem varðar félagsráðgjöf. Einnig er þar umfjöllun um nýútkomnar erlendar og íslenskar fag - og fræðibækur ásamt kynningu á nýjum meistara- og doktorsritgerðum. Þá eru bálkar um starfsemi m.a. Félags-ráðgjafafélags Íslands, Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og Rannsóknarstofnunar í barna –og fjölskylduvernd.

VINNUFERLI VIÐ RITRÝNI
Ritrýndar fræðigreinar eru samþykktar af ritstjórn áður en þær eru sendar ónafngreindar til ritrýna. Um tvöfalda nafnleynd að ræða. Ritrýnar koma oftast úr röðum félagsráðgjafa, en einnig er leitað út fyrir greinina ef við á. Við ritrýnina er fylgt þar til gerðu matsblaði og rituð umsögn um styrkleika og veikleika greinar hvað varðar gæði fræðilegs efnis og framsetningu þess, ásamt með rökstuddum tilmælum um hvort greinin verði samþykkt til birtingar óbreytt, hvað þurfi að endurbæta eða hvort henni skuli hafnað. Greinar sem ekki standast kröfur að mati ritrýna er hafnað af ritstjórn. Tímaritið birtir reglur til höfunda um greinaskrif og upplýsingar um ritrýniferlið.

Greinarskrif leiðbeiningar

Ritrýndar greinar skulu sendar inn í gagnagrunn www.timaritfelagsradgjafa.is. Sótt er um lykilorð á netfangið eldey@felagsradgjof.is Almennar greinar og annað efni skal sent á rafrænu formi til ritstjóra annars efnis Eldeyju Huld Jónsdóttur eldey@felagsradgjof.is.

Tekið skal fram hvort greinarhöfundur hugsar sér handritið til almennrar birtingar eða óskar að fá það ritrýnt. Efni sem óskast ritrýnt skal vera nýtt og ekki hafa verið birt sem slíkt annars staðar. Höfundarnafn með upplýsingum skal sett á (ótölusett) sérblað framan við greinina. Áður en grein er send skal höfundur hafa kynnt sér rækilega leiðbeiningar hér að neðan um frágang og fylgja þeim. Greinum sem ekki standast kröfur um framsetningu og efnistök hafnar ritstjórn.

Almennt Efni sem birtist í Tímariti félagsráðgjafa skal á einhvern hátt tengjast félagsráðgjöf (rannsóknum, fagþróun, hugmyndafræði, siðfræði, þjónustuþróun, stefnumótun o.s.frv.). Það skal að jafnaði ekki hafa birts sem slíkt áður. Til þess að uppfylla fræðilegar kröfur er höfundum bent á að (i) uppbygging greinar skal fylgja hefðbundinni kaflaskiptingu, (ii) texti skal vera gagnorður, stíll knappur og (iii) byggt skal á nýjustu þekkingu (heimildum).

Útdráttur og abstract skal fylgja handriti ritrýndra greina. Þar skal gerð hnitmiðuð grein fyrir markmiði, efnistökum og innihaldi ásamt niðurstöðum í hnotskurn. Gefa skal upp 3-5 lykilorð sem vísa til meginefnis og áherslu. Hámarkslengd er 180 orð. Útdráttur skal vera bæði á íslensku og ensku á sama blaði.

Málfar og textameðferð Vandað skal til röklegrar framsetningar texta, málfars og frágangs. * Eingöngu er tekið við handritum sem eru frágengin hvað varðar stafsetningu, stafavillur/brengl og meðferð íslensks máls ásamt skýrri kaflaskiptingu.* Fylgja skulu upplýsingar um höfund, þakkir og styrki. Sé vitnað í erlendar málsgreinar skulu þær að jafnaði þýddar á íslensku. Sé vísað til erlendra orða skal nota íslenskt orð í lengstu lög, en vísa má til erlenda orðsins í sviga, t.d. líkan (e. model), með e. fyrir ensku, d. fyrir dönsku o.s.frv. Mælst er til að greinarhöfundar hafi að lokinni samningu fengið gagnrýninn yfirlestur á handrit sitt, framsetningu, textameðferð og heimildafrágang áður en það er sent ritstjóra. Miða skal við að framsetning efnis sé í samræmi við nýjustu reglur APA-kerfisins hverju sinni um heimildameðferð, tilvitnanir og frágang.

Lengd, letur og línubil. Miðað er við uþb. 13 bls. eða 4000 orða hámarkslengd að meðtöldum heimildalista og útdráttum. Nota skal 12 p letur en heiti greinar með 16 p letri og millifyrirsagnir með 14 pt letri. Nota skal 1,5 línubil. Spássía skal vera 2 cm og texti fulljafnaður. Nota skal Times New Roman leturgerð. Skjölin skulu vera vistuð í Microsoft Word. Myndir sem eiga að birtast í texta skulu sendar sem sérstök skjöl (pdf/jpg) þar sem bæði er að finna myndir og þau tölugildi sem myndin byggist á. Forðast ber neðanmálsgreinar en setja slíkan texta frekar í sviga. Höfundar skulu fylgja leiðbeiningum. Miða skal við að framsetning efnis sé í samræmi við nýjustu reglur APA-kerfisins hverju sinni um heimildameðferð, tilvitnanir og frágang.

Skilafrestur Tímarit félagsráðgjafa kemur að jafnaði út einu sinni á ári.Heimilt er að senda inn efni til birtingar á hvaða tíma sem er, en síðasti skiladagur fyrir næsta tölublað er 15. október.