Starfsleyfi félagsráðgjafa
Reglugerð nr. 1088/2012
Þeir einir hafa rétt til þess að kalla sig félagsráðgjafa og starfa sem slíkir á Íslandi eru þeir sem hafa fengið leyfi landlæknis.
- Leyfi má veita þeim sem lokið hafa MA-prófi í félagsráðgjöf frá félagsráðgjafardeild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
- Einnig má veita starfsleyfi á grundvelli menntunar frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi félagsráðgjafa sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, fer samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.
- Þá er heimilt að veita starfsleyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.
- Umsækjandi um starfsleyfi sem félagsráðgjafi og sérfræðileyfi í félagsráðgjöf frá ríki utan EES og Sviss sem Ísland hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi skal meðal annars leggja fram gögn um ríkisfang, innihald náms og námslengd, ásamt prófskírteini, starfsleyfi ef starfsgreinin er löggilt í því landi sem umsækjandi kemur frá, fyrirhuguð störf hér á landi svo og önnur gögn og vottorð sem landlæknir telur nauðsynleg vegna útgáfu starfsleyfis.
- Áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til efnislegrar meðferðar þarf eftir atvikum að liggja fyrir staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt undirrituðum ráðningarsamningi.
- Heimilt er að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf, lögum um málefni fatlaðs fólks svo og öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin eru nauðsynleg til að geta starfað sem félagsráðgjafi, einkum vegna öryggis og samskipta við þann sem nýtur þjónustu félagsráðgjafa.
- Hafi að mati landlæknis ekki verið sýnt fram á að nám umsækjanda uppfylli kröfur að teknu tilliti til starfsreynslu er heimilt að krefjast þess að umsækjandi gangist undir próf sem sýni fram á að hann búi yfir þeirri faglegu þekkingu og hæfni sem krafist er af félagsráðgjafa og félagsráðgjafa með sérfræðileyfi. Viðeigandi menntastofnun skal skipuleggja prófið í samráði við landlækni.
- Starfsleyfi og sérfræðileyfi er gefið út við komu umsækjanda til starfa hér á landi.