Skip to main content

Félagsráðgjafafélag Íslands var stofnað 19. febrúar 1964 – tilurð félagsráðgjafar

Félagsráðgjöf sem sérhæfð starfsgrein varð til í kringum þar síðustu aldamót. Upphaf hennar má rekja til kristilegra góðgerðarfélaga og umbótahreyfinga þeirra tíma. Áður fyrr
var það fyrst og fremst hlutverk fjölskyldunnar að annast þá meðlimi sína, sem ekki gátu séð sér farborða á eigin spýtur. Umhyggja og hjálp grundvölluðust því á skyldleika og ættarböndum. Skipulögð góðgerðarstarfsemi kom víða
í kjölfar iðnbyltingar og tengdist siðferðilegum, pólitískum og efnahagslegum hugmyndum. Starfsemi góðgerðarfélaganna var umdeild og mikil umræða um að hjálparstarfið væri illa skipulagt. Það varð til þess að komið var á fót námskeiðum fyrir fólk sem starfaði á þeirra vegum. Í framhaldi af námskeiðunum kom í ljós aukin þörf fyrir menntað starfslið og straumhvörf urðu í þessari menntun. Segja má því að víða erlendis hafi félagsráðgjafar orðið til sem vinnuafl góðgerðarfélaganna og þeir voru í raun “framleiddir” af þeim. Fram á 20. öld átti félagsráðgjöf enga kenningarlega undirstöðu, en þekking var sótt til hinna ýmsu greina, svo sem félagsfræði, heimspeki, læknisfræði, sálarfræði, siðfræði og lögfræði. Á þessu varð breyting með útkomu bókar Mary Richmond árið 1917, Social Diagnosis, en hún er talin leggja vísindalegan grundvöll að hinni viðurkenndu starfsaðferð félagsráðgjafa casework. Segja má að þessi bók Richmond hafi verið fyrsta skrefið til að gera félagsráðgjöf að sérfræðigrein.

Félagsráðgjöf á Íslandi
Á Íslandi komu fyrstu félagsráðgjafarnir til starfa um 1960 eftir að hafa stundað nám í félagsráðgjöf erlendis. Um það bil hálfum áratug síðar fóru að heyrast raddir um að rétt væri að koma á félagsráðgjafarnámi hér á landi. Fyrstu spor félagsráðgjafar á Íslandi voru tengd skipulagi framfærslu og félagsmála en þau málefni eiga aldagamlar rætur í íslensku samfélagi. Þeir aðilar sem í byrjun lögðu til að mennta félagsráðgjafa voru einmitt fulltrúar þeirra stofnana þar sem flestir félagsráðgjafar hafa unnið allt frá byrjun og fram til þessa dags, þ.e. á vegum borgarinnar (og annarra sveitarfélaga) og við sjúkrahús. Tilraunir til að koma á kennslu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands blandast meira og minna inn í umræðu um félagsvísindi almennt og uppbyggingu þeirra innan H.Í. Eftir miklar umræður innan félagsvísindadeildar var fyrst haustið 1978 nemendum í fyrsta sinn gert mögulegt samkvæmt Kennsluskrá háskólans að huga að námi í félagsráðgjöf sem miðaði að öflun starfsréttinda á sviði félagsráðgjafar. Til að byrja með var einungis eitt námskeið í boði í félagsráðgjöf og voru stundakennarar Guðrún Jónsdóttir og Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafar og Sigríður Jónsdóttir, félagsfræðingur stundakennarar í félagsráðgjöf. Í maí 1980 kom fram umræða um tvo möguleika á félagsráðgjöf eftir 1982:

1) Tekið yrði upp sérstakt nám í félagsráðgjöf sem aðalgrein til BA prófs til 120 eininga. Þannig yrði félagsráðgjöf ný aðalgrein við deildina.

2) Haldið yrði áfram á braut þeirri er hafin var, þ.e. þriggja ára nám til BA prófs í aðalgreinunum, félagsfræði, sálarfræði eða uppeldisfræði ásamt sérnámskeiðum í félagsráðgjöf, alls ca. 120 einingar.

Fyrsti kennslustjóri í félagsráðgjöf var Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi. Um var að ræða langan þróunarferil náms í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands en fyrstu félagsráðgjafarnir luku þar námi á árinu 1982.

Stofnun SÍF
Fyrsti íslenski félagsráðgjafinn, Guðrún Jónsdóttir, kom heim frá námi árið 1957. Hún leitaði fyrir sér með starf á sjúkrahúsi og fékk þau svör að ekkert leyfi væri fyrir hendi til að ráða félagsráðgjafa. Henni var hins vegar boðin staða hjúkrunarkonu, sem hún hafnaði. Síðan réði hún sig til félagsráðgjafastarfa hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar.

Í kringum 1960 komu tveir nýir félagsráðgjafar til starfa og réðust báðir til Reykjavíkurborgar, Margrét Margeirsdóttir til Geðverndardeildar barna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og Margrét Steingrímsdóttir til Skrifstofu félags- og framfærslumála. Skömmu síðar kom fjórði félagsráðgjafinn, Kristín Gústavsdóttir, sem hóf störf hjá Geðverndardeild barna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur.

Þann 19. febrúar 1964 stofnuðu þessir fjórir félagsráðgjafar félag sem hlaut nafnið Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Margrét Margeirsdóttir, formaður, Guðrún Jónsdóttir, ritari og Kristín Gústavsdóttir, gjaldkeri. Auk þeirra kom Margrét Steingrímsdóttir að stofnun félagsins.

Útdráttur úr Félagsráðgjafatali.

Eldey Huld Jónsdóttir, félagsráðgjafi MSW er framkvæmdastjóri Félagsráðgjafafélags Íslands.

Netfang hennar er eldey@felagsradgjof.is.