Skip to main content
Fréttir

Alþjóðadagur félagsráðgjafa

By mars 15, 2017september 8th, 2021No Comments

Alþjóðadagur félagsráðgjafa er 19. mars n.k.

Yfirskriftin er:

FÉLAGSLEGT OG EFNAHAGSLEGT JAFNRÉTTI

Markmiðið er að varpa ljósi á hvernig félagsráðgjafar draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði með störfum sínum.

Félagsráðgjafafélag Íslands fagnar Alþjóðadegi félagsráðgjafa með margvíslegum hætti og hélt þann 12. mars málþing undir yfirskrift dagsins þar sem samstarfshópur um enn betra samfélag kynnti skýrslu sína um Farsæld: Baráttan gegn fátækt á Íslandi.

Á alþjóðadaginn ætla félagsráðgjafanemar að vekja athygli á félagsráðgjöf á Facebook og eru félagsráðgjafar hvattir til að taka þátt í því.

Hér eru dæmi sem hægt er að deila:

Vissir þú að félagsráðgjöf er lögverndað starfsheiti? Til þess að mega
kalla sig félagsráðgjafa og vinna sem slíkur, þarf viðkomandi að ljúka 5
ára háskólanámi, þar af 2 ár á meistarastigi.

Félagsráðgjafar vinna út frá velferð fjölskyldunnar og heildarsýn.
Viðfangsefni félagsráðgjafa eru meðal annars hjónabandserfiðleikar,
samskipta- og uppeldisvandi, skilnaður, forsjármál, ofbeldi, veikindi og
önnur áföll.

Vissir þú að félagsráðgjafar fá þjálfun í að veita sálræna skyndihjálp? Og
læra um skipulag almannavarna og áfallastjórnun?

Vissir þú að félagsráðgjafarnemar læra ítarleg um lífskeiðin, allt frá
vöggu til grafar? Þeir læra um líkamlegan, hugrænan, félagslegan og
tilfinningalegan þroska á mismunandi lífskeiðum.

Vissir þú að félagsráðgjafarnemar læra afbrotafræði? Bæði um eðli afbrota
og samfélagsleg viðbrögð við þeim. Einnig læra þeir sérstaklega um
ofbeldisglæpi, kynferðisbrot, fíkniefnabrot og viðskiptaglæpi.

Vissir þú að félagsráðgjafarnemar læra sérstaklega um áfengis- og
vímuefnamál? Og læra að greina áfengisvanda og áfengisfíkn? Þeir læra
helstu líkamlegu og sálræn viðbrögð við fíknivanda, öðlast þekkingu á
meðferð og afleiðingum og áhrifum á fjölskylduna.

Vissir þú að félagsráðgjafar hafa lært viðtalstækni og fengið góða þjálfun
í henni? Einnig hafa þeir lært sértæka aðferðafræði varðandi viðtöl við
börn og unglinga.