Stofnun Fagdeildar félagsráðgjafa í áfengis- og vímuefnaráðgjöf er mikilvægt skref stéttarinnar í þá átt að vinna að samræmingu þekkingar og vinnubragða þeirra félagsráðgjafa sem starfa við þennan málaflokk. Þetta er stór og fyrirferðarmikill málaflokkur sem félagsráðgjafar starfa við á hverjum degi og því afar mikilvægt að þekking og upplýsingar séu aðgengilegar og að unnið sé markvisst að því að færa greininni það nýjasta og besta hverju sinni. Stofnun fagfélags gefur félagsráðgjöfum tækifæri til þess að efla sérþekkingu sína t.d. með auknum rannsóknum og tækifærum til þess að fylgjast með því hvað verið er að gera erlendis varðandi ýmis úrræði áfengis- og vímuefnamála. Sérþekking félagsráðgjafa á áfengis og vímuefnamálum varða einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt. Fagdeildin er kjörinn vetvangur sem getur verið ráðgefandi um mál er snerta þjófélagsumræðuna og getur einnig verið álitsgjafi þegar kemur til mála sem skarast við önnur stór mál eins og barnaverndarmál, fjölskyldumál og fl.
Stofnfundur Fagdeildar félagsráðgjafa í áfengis- og vímuefnaráðgjöf verður haldinn að Borgartúni 6, 14. janúar 2009 kl. 15:00. Allir félagsráðgjafar sem starfa við áfengis- og vímuefnamál eru hvattir til að mæta og gerast stofnfélagar.