Baráttudagur kvenna – Kvennafrí
Samtök launafólks óska konum á Íslandi til hamingju með afmæli Kvennafrídagsins 24. október. Þrjátíu og fimm ár eru nú liðin síðan þúsundir íslenskra kvenna lögðu niður störf og söfnuðust saman á fundum um land allt, hrópuðu: Áfram stelpur og sýndu þannig á táknrænan hátt hversu mikilvægt vinnuframlag þeirra er fyrir atvinnulífið og samfélagið. Samstaðan var algjör. Kvennafrídagurinn 24. október 1975 er og verður baráttudagur íslenskra kvenna, hann er einn mikilvægasti atburður íslenskrar kvennasögu og Íslandssögunnar.
Samtök launafólks hafa frá upphafi barist fyrir bættum lífskjörum allra landsmanna, jöfnum rétti og jöfnum tækifærum á vinnumarkaði og þannig lagt sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Margt hefur áunnist í jafnréttismálum undanfarna áratugi og er það ekki síst að þakka samtöðu samtaka launafólks.
Samtök launafólks minna á að gæta þarf að þeim jafnréttisáföngum sem unnist hafa svo þeir tapist ekki á þeim erfiðleikatímum sem hófust í kjölfar efnahagshrunsins og ekki sér enn fyrir endann á. Réttur foreldra í fæðingarorlofi hefur ítrekað verið skertur og fyrir liggja tillögur um enn frekari niðurskurð. Jafn og raunverulegur réttur kynjanna til fæðingar- og foreldraorlofs er eitt mesta framfaraskref sem stigið hefur verið í átt að jafnrétti.
Eitt meginbaráttumál kvenna á Íslandi er afnám launamunar kynjanna. Það er ólíðandi að kynin skuli ekki njóta sömu launa fyrir jafn verðmæt störf. Rannsóknir sýna að alltof lítið hefur áunnist í þeim efnum undanfarin ár. Þá benda rannsóknir til að kynbundinn launamunur sé mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuþátttaka kvenna hér á landi er ein sú mesta í heiminum þannig að ljóst er að þær láta ekki sitt eftir liggja við öflun verðmæta fyrir þjóðarbúið.
Mikill niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarkerfinu hefur gríðarleg áhrif á starfsstéttir þar sem konur eru í meirihluta og kannað leiða til aukins og langvarandi atvinnuleysis kvenna. Samtök launafólks vara við öllum hugmyndum og aðgerðum sem veikja munu stöðu kvenna og leiða til aukins ójöfnuðar kynjanna á íslenskum vinnumarkaði.
Yfirskrift kvennafrídagsins 2010 er: Konur gegn kynferðisofbeldi. Samtök launafólks fordæma kynbundið ofbeldi og áreiti á vinnustöðum og í samfélaginu öllu og hvetja aðila vinnumarkaðarins, stjórnvöld og almenning allan til markvissra aðgerða gegn því.
Samtök launafólks hvetja félagsmenn aðildarfélaga sinna um land allt til virkrar þátttöku í viðburðum í tilefni Kvennafrídagsins mánudaginn 25. október. Stelpur, höfum hátt við þorum, getum og viljum!