Skip to main content
Fréttir

Alþjóðadagur félagsráðgjafa 15. mars 2016 – Félagsráðgjafar hvetja stjórnvöld til að marka skýra stefnu í móttöku hælisleitenda með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi

By mars 15, 2016september 8th, 2021No Comments

Kæru félagsráðgjafar!

Til hamingju með daginn en í dag fagna félagsráðgjafar um allan heim alþjóðlegum degi félagsráðgjafa.

Yfirskrift ársins í ár er virðing og réttindi allra en eins og við þekkum svo vel þá þrífast samfélög best þegar allir njóta virðingar og réttindi allra eru virt. Á kynningarplakati sem alþjóðasamtök félagsráðgjafa IFSW hafa látið gera í tilefni dagsins er áhersla lögð á að félagsráðgjafar eru málsvarar mannúðar en grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu. Í siðareglum okkar segir jafnframt að félagsráðgjafi vinni gegn mannréttindabrotum hvar svo sem þau eiga sér stað.

Félagsráðgjafar þekkja vel til þess hvar skórinn kreppir í samfélagi líðandi stundar en þeir starfa meðal annars við barnavernd, í málefnum fatlaðs fólks, aldraðra, utangarðsfólks og flóttafólks svo dæmi séu tekin. Félagsráðgjafar á Íslandi hafa líkt og félagsráðgjafar um alla Evrópu séð af eigin raun í störfum sínum hvaða áhrif sá mikli straumur flóttafólks hefur haft á samfélag okkar og sendu félagsráðgjafar um alla Evrópu ákall til stjórnvalda um að koma flóttafólki til aðstoðar.

Hér má sjá ákall félagsráðgjafa á Íslandi frá því í september 2015

Hér má sjá ákall norrænna félagsráðgjafa í október 2015

Á Félagsráðgjafaþingi sem haldið var þann 19. febrúar síðastliðinn ræddu félagsráðgjafar málefni flóttafólks og hælisleitenda. Í kynningum félagsráðgjafa kom fram að þrátt fyrir góðar fyrirætlanir stjórnvalda í byrjun vetrar um skýra stefnu og aðgerðir í málefnum þessa hópa þá skorti skýra sýn og samhæfingu. Síðast en ekki síst þurfi að fjölga félagsráðgjöfum sem komi að þjónustu og stuðningi við flóttafólk og hælisleitendur en reynslan sýnir að álagið sem fylgir störfum í þessum málaflokki sé óviðunandi. Gera þarf aðgerðaráætlun vegna aukins fjölda hælisleitenda og koma í veg fyrir aðstöðumun þessara hópa. Auka þarf umræðu um mansal og gera skýra áætlun um hvernig taka skuli á þessum málum. Félagsráðgjafar benda á að auka þarf samráð við flóttafólk og hælisleitendur, nýta þekkingu og rannsóknir miklu betur en nú er gert og samhæfa stefnu og aðgerðir stjórnvalda.

Félagsráðgjafar hvetja stjórnvöld til að marka skýra stefnu í móttöku hælisleitenda með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi. Koma þarf í veg fyrir að geðþóttaákvarðanir og ójafnræði í malsmeðferð, aðstöðu og þjónustu við fólk sem er að flýja stríð, ofsóknir, ofbeldi og fátækt sem ekki er hægt að lifa við. Félagsráðgjafar skora á stjórnvöld til að gera aðgerðaáætlun hið fyrsta sem tekur á því hvernig íslensk stjórnvöld ætla að bregðast við breyttu samfélagi.

Til hamingju með daginn félagsráðgjafar!

María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands