Í fréttum RUV þann 27. nóvember 2017 kom fram að um 20 manns séu með nánast fasta búsetu á tjaldstæðinu í Laugardal. Frostið þessa nótt í Reykjavík fór niður í – 10 stig og er það ekki sæmandi íslensku samfélagi að svo margir þurfi að gista utandyra í slíkum fimbilkulda. Þann sama dag auglýsti Frú Ragnheiður að þeir sem væru heimilislausir, svæfu úti eða væru í hústöku gætu fengið þar svefnpoka, tjalddýnur og hlý föt. Verkefnið er rekið af Rauða krossinum í Reykjavík og veitir skaðaminnkandi þjónustu fyrir jaðarsetta hópa, heimilislausa og einstaklinga sem sprauta vímuefnum í æð. Reykjavíkurborg rekur Gistiskýlið sem er neyðarathvarf heimilislausra karlmanna með lögheimili í Reykjavík. Þegar öll rúm eru upptekin þarf því að vísa þeim körlum frá sem ekki eru með lögheimili í Reykjavík. Konukot er neyðarathvarf fyrir heimilislausar konur sem rekið er af Rauða krossinum í Reykjavík með stuðningi frá Reykjavíkurborg og eru allar konur velkomnar þangað óháð búsetu. Þar sem hjón eða fjölskyldur geta ekki gist saman í neyðarathvörfum er það því mögulega eina lausn þeirra að gista á tjaldstæðum.
Það má ljóst vera að fólk alls staðar af landinu sækir oft til Reykjavíkur þegar það hefur misst húsnæði sitt í sínu sveitarfélagi. Vandinn er því ekki einungis Reykjavíkurborgar heldur allra sveitarfélaga og opinberra stjórnvalda sem þurfa að leggja sitt af mörkum til að leysa þennan húsnæðisvanda. Reykjavíkurborg gaf út skýrslu í september síðastliðnum þar sem fjöldi og hagir utangarðsfólks er kortlagður og sýna niðurstöður skýrslunnar að utangarðsfólki hefur fjölgað á undanförnum árum.
Stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands skorar á stjórnvöld að koma fólki sem gistir úti í skjól sem fyrst og öað byggja upp langtímaúrræði fyrir þennan hóp. Til þess þarf samhent átak ríkis og sveitarfélaga.