Skip to main content

Hér má finna fyrirhugaða viðburði á vegum FÍ sem og eldri viðburði

Hér birtum við fréttir úr starfi félagsins

Félagsfundur FÍ vegna fyrirhugaðra breytinga á barnaverndarlögum, lögum um félagsþjónustu og fleiri lögum.

Boðað er til almenns félagsfundar Félagsráðgjafafélagsins mánudaginn 16. september nk. kl. 8:30 til 10:00 í fundarsal BHM á 4. hæð í Borgartúni 6 Reykjavík, vegna fyrirhugaðra breytinga á barnaverndarlögum, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna og fl. lögum sbr. það sem kemur fram í viðhengi „Stefnumótun“ hér fyrir neðan.

Hinn 20. júní sl. fór fram fjölmennur fundur á vegum félagsmálaráðuneytis með fulltrúum svokallaðra „hliðarhópa“ og nú er fyrirhugaður enn fjölmennari opinn fundur í Hörpu 2. október nk. Ráðuneytið óskar eftir að eiga samráðs- og hugarflugsfund með félagsráðgjöfum um þær hugmyndir sem nú eru að skýrast varðandi framtíðarskipulag um málefni barna. Félagsráðgjafar eru einnig hvattir til að taka frá 2. október nk. og mæta á opna fundinn en dagskrá þess fundar verður auglýst síðar.

Dagskrá félagsfundar FÍ:

  • 8:30-9:00
    morgunverður í boði
  • 9:00-10:00
    Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir
    félagsráðgjafi og sérfræðingur hjá félagsmálaráðuneytinu kynnir
    fyrirhugaðar breytingar og leiðir umræður.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að senda póst á steinunn@felagsradgjof.is. 

Mögulegt er að fylgjast með í gegnum fjarfund á heimasíðu bhm: 

https://livestream.com/bhm

Kröfurnar eru skýrar

Yfirlýsing frá átta aðildarfélögum BHM vegna ummæla 
formanns Sameykis í gær

25.10.2019

Átta aðildarfélög BHM hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna ummæla formanns Sameykis í fréttum RÚV í gær, 24. október:

Formaður Sameykis, Árni Stefán Jónsson, gagnrýndi í fréttum RÚV í gær fimm aðildarfélög BHM sem undirrituðu kjarasamning við ríkið sl. mánudag. Að sögn formanns Sameykis stóðu aðildarfélög BSRB í þeirri trú að stéttarfélög opinberra starfsmanna ætluðu að fylgjast að hvað varðar útfærslu á styttingu vinnuvikunnar í nýjum kjarasamningum. Með samningi BHM-félaganna fimm við ríkið hafi þessi samstaða verið rofin.

Vegna ummæla formanns Sameykis vilja átta aðildarfélög BHM, sem hafa haft samflot í yfirstandandi kjaraviðræðum, taka fram að þau telja hag sinna félagsmanna ekki borgið með því að skrifa undir samningstilboð ríkisins sem byggist á krónutöluhækkunum, felur í sér styttingu vinnuvikunnar (með sölu og takmörkunum á ýmsum gæðum) og umfangsmikla breytingu á yfirvinnutaxta.

Kröfur félaganna eru skýrar: Við viljum prósentuhækkanir sem skila auknum kaupmætti til félagsmanna á samningstímanum, styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir að meðtöldum hléum og að menntun sé metin til launa þannig að lágmarkslaun fyrir fyrstu háskólagráðu verði ekki lægri en 500.000 kr.

BHM-félögin átta eru:
Dýralæknafélag Íslands
Félag geislafræðinga
Félag íslenskra náttúrufræðinga
Félagsráðgjafafélag Íslands
Iðjuþjálfafélag Íslands
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Sálfræðingafélag Íslands
Þroskaþjálfafélag Íslands

Áunnin réttindi félagsmanna verði virt

Húsfyllir á baráttufundi ellefu aðildarfélaga BHM í morgun

Á sameiginlegum baráttufundi ellefu aðildarfélaga BHM í morgun var samþykkt ályktun þar sem fullum stuðningi er lýst við kröfur samninganefnda félaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið. Viðsemjendur eru hvattir til að virða áunnin réttindi félagsmanna og þess er krafist að í yfirstandandi kjaraviðræðum verði raunveruleg skref tekin til styttingar vinnuvikunnar, án þess að kjör og réttindi verði skert.

Húsfyllir var á fundinum en þar fóru forsvarsmenn félaganna yfir stöðuna í viðræðunum við ríkið og kynntu helstu sjónarmið og áherslur. Kjarasamningar félaganna við ríki og sveitarfélög hafa nú verið lausir í tæplega átta mánuði eða frá 1. apríl síðast liðnum og hafa viðræður enn sem komið er litlum árangri skilað.

Félögin ellefu eru: Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag lífeindafræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands og Þroskaþjálfafélag Íslands.

Ályktun fundarins sem samþykkt var einróma, er eftirfarandi:

Sameiginlegur kjarafundur félagsmanna 11 aðildarfélaga BHM haldinn 20. nóvember 2019 lýsir yfir fullum stuðningi við kröfur og áherslur samninganefnda félaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið og harmar þann seinagang sem er í viðræðunum. Fundurinn hafnar kjararýrnun og hvetur viðsemjendur til að virða áunnin réttindi félagsmanna. Krafist er 500 þúsund króna lágmarkslauna fyrir háskólamenntaða. Óhóflegt álag á starfsfólk innan almannaþjónustu á vegum hins opinbera er viðvarandi og þekkt að slíkt er heilsuspillandi. Fundurinn krefst þess að viðsemjendur taki raunveruleg skref til styttingar vinnuvikunnar án þess að skerða kjör og réttindi.

Yfirlýsing stjórnar Félagsráðgjafafélags Íslands

Stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands tekur undir þrjár ályktanir frá fundi Evrópusamtaka félagsráðgjafa sem haldin var í Vín Austurríki 8. september sl.:

  • Evrópusamtök félagsráðgjafa vekja athygli á vaxandi félagslegum vanda í Evrópu. Félagsráðgjafar búa yfir vitneskju um hvaða afleiðingar félagslegur vandi hefur fyrir einstaklinga og á efnahag þjóða. Félagsráðgjafar telja að ríkisborgarar í Evrópu sem standa höllum færi eigi betra skilið frá leiðtogum og stjórnmálamönnum. Félagsráðgjöf snýst um mannréttindi og munu félagsráðgjafar halda áfram að vinna með fólki, óháð uppruna þeirra og aðstæðum, til að stuðla að velferð þeirra. Þegar samfélag okkar og stjórmálamenn virða mannréttindi, munu allir hagnast. Hér má lesa yfirlýsingu Evrópusamtakana.
  • Félagsráðgjafar í Evrópu taka höndum saman í því skyni að stuðla að auknu öryggi félagsráðgjafa og efla kerfi sem verndar þjónustuþega og fagfólk. Hér má lesa yfirlýsingu Evrópusamtakana.
  • Samtök félagsráðgjafa í Bretlandi og norður Írlandi lýsa áhyggjum vegna BREXIT. Félagsráðgjafar starfa þvert á landamæri og eru mannréttindi þungamiðja félagsráðgjafar, því hefur mannréttindasáttmáli Evrópu spilað stórt hlutverk í að móta réttindabyggða nálgun í félagsráðgjöf í Bretlandi. Félagsráðgjöf er alþjóðlegt fag og hefur innleiðing Evrópusamningsins stutt við miðlun þekkingar og árangursríkra starfsaðferða þvert á landamæri. Þessu er stefnt í hættu með BREXIT að mati samtakana. Hér má lesa yfirlýsingu Evrópusamtakana.

Ganga þarf lengra í því að styrkja háskólanema

Umsögn BHM um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna

5.12.2019

BHM fagnar áformum stjórnvalda um að taka upp blandað kerfi lána og styrkja í stað núverandi námslánakerfis. Engu að síður telur bandalagið að ganga eigi lengra í því að styrkja námsmenn en lagt er til í frumvarpi til laga um Menntasjóð námsmanna. Þá telur BHM nauðsynlegt að sett verði ákveðið þak á vexti námslána í nýju kerfi. Enn fremur lýsir BHM furðu á því að ekki sé í frumvarpinu komið í veg fyrir að námsmenn framtíðarinnar þurfi að greiða af námslánum eftir að starfsævinni lýkur.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna sem mun, verði frumvarpið að lögum, leysa af hólmi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í umsögn BHM um frumvarpið er því fagnað að ætlunin sé að taka upp blandað kerfi námsstyrkja og námslána. Styrkur til námsmanna mun samkvæmt frumvarpinu einkum felast í því að veittur verður 30% afsláttur af höfuðstól námsláns ef námsmaður lýkur námi innan ákveðinna tímamarka. Í umsögninni er bent á að í Noregi sé sambærilegur afsláttur 40%: „Að mati bandalagsins ættu íslensk stjórnvöld að hafa metnað til að haga fyrirkomulagi námsstyrkja þannig að það standist samanburð við það sem best gerist meðal nágrannaþjóða.“

Stuðningur við barnafólk verði alfarið í formi styrks

Einnig bendir BHM á að í Noregi fái námsmenn afslátt af höfuðstól námslána í lok hverrar annar ef kröfur um námsframvindu eru uppfylltar. Þetta þýði að námsmaður njóti ávinnings af eðlilegri námsframvindu jafnóðum og ekki einungis þegar námi lýkur. BHM telur slíkt fyrirkomulag heppilegra en það sem frumvarpið kveður á um: „BHM hvetur löggjafann til að skoða þetta atriði sérstaklega um leið og mat er lagt á það hvort stuðningskerfi við námsmenn sé nægilega vel fjármagnað hérlendis.“

Í frumvarpinu er kveðið á um að stuðningur við námsmenn með börn verði blanda af styrkjum og lánum. BHM telur að stuðningur vegna barna námsmanna eigi alfarið að vera í formi styrks: „Engu að síður fagnar BHM því að styrkja eigi barnafólk í námi og meðlagsgreiðendur. Þessi breyting gerir allt námsstuðningskerfið fjölskylduvænna og nútímalegra.“

Námsmenn beri ekki kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum

Samkvæmt frumvarpinu verða vextir á námslánum breytilegir. Í umsögn BHM er vakin athygli á því að íslenskt samfélag hafi til þessa einkennst af miklum sveiflum, með tilheyrandi verðlags- og vaxtabreytingum. Nauðsynlegt sé að löggjafinn taki af allan vafa um að greiðendur námslána verði ekki látnir bera kostnaðinn af mögulegum efnahagsáföllum í framtíðinni. BHM mælist því eindregið til þess að sett verði vaxtaþak á námslán, eins og í núgildandi kerfi: „Þannig yrði hafið yfir vafa að ríkissjóður myndi eftir sem áður taka á sig kostnað vegna mögulegra efnahagsáfalla í framtíðinni og slíkum kostnaði yrði ekki velt yfir á námsmenn.“

Ekki tryggt að allir nái að greiða upp lán sín fyrir 65 ára aldur

Eitt markmiða frumvarpsins er að enginn greiði af námsláni eftir 65 ár aldur. BHM fagnar þessu markmiði enda hefur bandalagið lengi barist fyrir því að eftistöðvar námslána falli niður við starfslok. Samkvæmt frumvarpinu munu lántakar eiga þess kost, áður en þeir ná 35 ára aldri, að velja hvort afborganir lána verði tekjutengdar eða ekki. BHM er eindregið fylgjandi því að lántakar hafi þennan valkost í nýju kerfi. Hins vegar er í umsögninni bent á að þetta muni að óbreyttu leiða til þess að fyrrnefnt markmið frumvarpsins náist ekki. Þótt flestir lántakar muni ná að greiða upp lán sín fyrir 65 ára aldur muni hluti þeirra eftir sem áður ekki ná því, þ.e. fólk sem tekur há lán og velur að tekjutengja afborganir. BHM telur raunar (og styðst þar við eigin útreikninga) að stór hópur lántaka muni velja að tekjutengja sín námslán: „BHM harmar að við heildarendurskoðun á námslánakerfinu sé ekki stigið það nauðsynlega skref að koma í veg fyrir að námsmenn framtíðarinnar greiði af námslánum eftir að starfsævinni lýkur. Ef viðráðanlegar tekjutengdar afborganir námslána nægja ekki til að ljúka greiðslum námslána fyrir starfslok er ljóst að stuðningur við námsmenn er ekki nægur og úr því verður aðeins bætt með frekari fjárframlögum.“

Annað markmið frumvarpsins er að jafna þann óbeina styrk sem felst í núverandi kerfi milli námsmanna. Bent hefur verið á að þessi óbeini styrkur sé á bilinu 1% og upp í 85% af fjárhæð láns. Í umsögn BHM er vakin athygli á því að vegna tekjutekingarinnar muni eftir sem áður, verði frumvarpið að lögum, fjöldi lántaka fá meiri stuðning en aðrir í formi niðurfellingar námslána við andlát.

Fjallað er um ýmis fleiri atriði í frumvarpinu í umsögn BHM.

21.1.2020 

Fréttatilkynning frá ellefu aðildarfélögum BHM

Færðu samninganefnd ríkisins heimabakaða köku

BHM-félög skora á ríkið að leita lausna sem báðir aðilar geti unað við

Fulltrúar ellefu aðildarfélaga BHM færðu samninganefnd ríkisins heimabakaða köku á samningafundi aðila í morgun. Með þessu vildu félögin, sem eru í samfloti í yfirstandandi kjaraviðræðum við ríkið, hvetja viðsemjandann til dáða en viðræðurnar hafa nú staðið yfir í tæpa 10 mánuði og lítið þokast í samningsátt. Fundurinn í morgun var sá 42. í röðinni.

Leitað verði lausna

Félögin ellefu telja að
þær launahækkanir sem ríkið hefur boðið séu ófullnægjandi. Þá geta félögin ekki
sætt sig við að félagsmenn greiði fyrir styttingu vinnuvikunnar með lækkun á
yfirvinnutaxta og sölu kaffi- og matarhléa, líkt og ríkið hefur boðið. Að mati
félaganna er þetta ekki til þess fallið að draga úr vinnutengdri streitu og
álagi. Þvert á móti er hætta á að tíðni veikinda hjá starfsfólki aukist með
tilheyrandi kostnaði fyrir ríkisstofnanir og samfélagið allt.

Félögin ellefu eru: Dýra­lækna­fé­lag Íslands, Fé­lag geisla­fræðinga, Fé­lag ís­lenskra nátt­úru­fræðinga, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag líf­einda­fræðinga, Fé­lags­ráðgjafa­fé­lag Íslands, Iðjuþjálf­a­fé­lag Íslands, Kjara­fé­lag viðskipta­fræðinga og hag­fræðinga, Ljós­mæðrafé­lag Íslands, Sál­fræðinga­fé­lag Íslands og Þroskaþjálf­a­fé­lag Íslands.

Félagsráðgjafar hjá ríki samþykkja kjarasamning

17. apríl 2020

Niðurstaða kosningar, vegna samkomulags Félagsráðgjafafélags Íslands við Fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs, um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila sem undirritað var 2. apríl, liggur nú fyrir.

Félagsráðgjafar sem starfa hjá ríkinu kusu um samninginn, alls var 101 á kjörskrá, 68 kusu (67,327%) og féllu atkvæði á þá leið að 49 sögðu já (74,24%) og 17 sögðu nei (25,76%), auð atkvæði voru engin.

Samningurinn er samþykktur með 74,24% atkvæða. 

Gildandi kjarasamningur aðila framlengist frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samkomulaginu felst og fellur þá úr gildi án frekari fyrirvara. Áætlað er að félagsráðgjafar sem starfa hjá ríkinu fái leiðréttingu launa greidda 1. maí nk.

Samninginn má finna hér:  

https://felagsradgjof.is/kjarasamningar/

Viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Yfirlýsing frá Félagsráðgjafafélagi Íslands 30. apríl 2020

Tryggjum aðgengi að félagsráðgjöf

Kvíði, streita og félagsleg einangrun er ein af afleiðingum COVID-19 faraldursins vegna óvissu og samkomubanns. Félagsráðgjafar hafa í störfum sínum leitað leiða til að tryggja að viðkvæmir hópar fái nauðsynlega þjónustu, s.s. mat, félagsskap og aðhlynningu. Landlæknir sendir út þau skilaboð að fólk eigi að halda sig heima til að fyrirbyggja smit. Við þær aðstæður þarf að leita leiða til að tryggja þjónustu fyrir heimilislausa, fatlaða, aldraða og aðra viðkvæma hópa. Einnig þarf að finna leiðir til að rjúfa félagslega einangrun. Félagsráðgjafar geta ekki haldið sig heima þegar sinna þarf börnum sem búa við óviðunandi aðstæður eða upplifa ofbeldi. Þeir standa frammi fyrir því að þróa lausnir fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður. Nú er hugað að því að létta á samkomubanni en afleiðingar faraldursins munu vara næstu misseri, löngu eftir að búið er að ráða niðurlögum smitsjúkdómsins, en auk efnahagslegra afleiðinga munu sálfélagslegar afleiðingar vara lengur. Það er mikilvægt að veita viðeigandi þjónustu og þegar um er að ræða félagslegan vanda þá þarf að bregðast við sem fyrst áður en vandinn þróast og verður ill viðráðanlegur. Kvíða, samskiptavanda og félagslega einangrun sem hefur aukist vegna fordæmalausra aðstæðna þarf að vinna með í nærumhverfi.

Félagsráðgjafar sem starfa innan heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og barnaverndar sinna mikilvægu hlutverki en það þarf einnig að tryggja aðgengi að félagsráðgjöf á öllum sviðum samfélagsins, til dæmis innan skóla og heilsugæslu. Margir félagsráðgjafar bjóða upp á þjónustu á almennum markaði með viðtölum við einstaklinga, pör og fjölskyldur sem þurfa á margvíslegri aðstoð að halda og því brýnt að slík þjónusta falli undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga sem klínísk viðtalsmeðferð.

Fyrir Alþingi liggur fyrir endurflutt frumvarp um breytingar á lögum um Sjúkratryggingar, með það að markmiði að tryggja að sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsmeðferð falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. Félagsráðgjafafélag Íslands hefur í umfjöllun sinni gert athugasemd við að í fyrra frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir að ein fagstétt, sálfræðingar, geti veitt samtalsmeðferð við sálfélagslegum vanda. Vakti félagið athygli á því að margar fagstéttir, þar á meðal félagsráðgjafar, veiti samtalsmeðferð við andlegri vanlíðan á einkareknum meðferðarstofum. Nálgun ólíkra fagstétta á andlegum vanda er ólík og því brýnt að halda því til haga að engin ein aðferð eða meðferð er réttari en önnur. Markmið þjónustunnar er það sama að bæta líðan og lífsgæði þeirra sem óska eftir samtalsmeðferð og telja sig þurfa á henni að halda. Félagsráðgjafafélagið áréttaði í umfjöllun sinni mikilvægi þess að þeir einstaklingar sem þurfi að leita sér aðstoðar vegna sálfélagslegs vanda hafi val um sem fjölbreyttust úrræði. Aðgengi að þjónustu er takmarkað ef greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga nær aðeins til einnar fagstéttar líkt og fyrra frumvarpið gerir ráð fyrir. Til að tryggja viðeigandi þjónustu er mikilvægt að almenningur hafi aðgang að niðurgreiðslu á þverfaglegri þjónustu mismunandi heilbrigðisstétta.

Félagsráðgjafafélag Íslands skorar á þingmenn og heilbrigðisráðherra að setja afgreiðslu málsins í forgang. Félagsráðgjafafélag Íslands er tilbúið til umræðu um málefnið.

Steinunn Bergmann
Formaður Félagsráðgjafafélags Íslands

Undirritun kjarasamninga

8. maí 2020

Í dag undirritaði Félagsráðgjafafélag Íslands nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn er í anda Lífskjarasamningsins sem þegar gildir á almennum vinnumarkaði. Kjaraviðræður fóru alfarið fram á fjarfundum. Samningurinn verður kynntur félagsráðgjöfum sem starfa hjá sveitarfélögum á fjarfundi 11. maí og fer rafræn atkvæðagreiðsla fram 12. til 15. maí. Verði samningurinn samþykktur mun hann gilda frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023. Á sama tíma undirrituðu fimm önnur aðildarfélög BHM nýja kjarasamninga sjá nánar

Félagsráðgjafar sem starfa hjá sveitarfélögum samþykkja kjarasamning

15.5.2020

Niðurstaða kosningar, vegna kjarasamnings Félagsráðgjafafélags Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga, liggur nú fyrir.

Félagsráðgjafar sem starfa hjá sveitarfélögum kusu um samninginn, alls voru 160 á kjörskrá, 86 kusu (53,75%) og féllu atkvæði á þá leið að 72 sögðu já (83,72%) og 14 sögðu nei (16,28%), auð atkvæði voru engin.

Samningurinn er samþykktur með 83,72% atkvæða.

Samningur þessi kemur í stað áður gildandi kjarasamnings og gildir frá 1. janúar 2020 til 31. mars 2023 en samningurinn fellur þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Áætlað er að félagsráðgjafar sem starfa hjá sveitarfélögum fái leiðréttingu launa greidda 1. júní nk. Samninginn má nálgast hér

Viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg.

Undirritun kjarasamnings við Reykjavíkurborg

25.6.2020

Í dag undirritaði Félagsráðgjafafélag Íslands nýjan kjarasamning við Reykjavíkurborg. Samningurinn er líkt og samningur við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga í anda Lífskjarasamningsins sem þegar gildir á almennum vinnumarkaði. Kjaraviðræður stóðu yfir í 16 mánuði og fóru um tíma fram á fjarfundum. Samningurinn verður kynntur félagsráðgjöfum sem starfa hjá Reykjavíkurborg 29. júní og fer rafræn atkvæðagreiðsla fram 30. júní til 3. júlí. Verði samningurinn samþykktur mun hann gilda frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023. Á sama tíma undirrituðu fjögur önnur aðildarfélög BHM nýja kjarasamninga.

Kjarasamningur við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) samþykktur

26.6.2020

Félagsráðgjafafélag Íslandi undirritaði kjarasamning við Samök fyrirtækja í velferðarþjónustu 16. júní. Samningurinn var kynntur félagsmönnum sem taka laun skv. samningnum, 23. júní og hlaut samningurinn samþykki félagsmanna. Gildistími samnings er frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023 og fellur þá úr gildi án frekari fyrirvara.

Félagsráðgjafar sem starfa hjá Reykjavíkurborg fella samning

3.7.2020

Niðurstaða kosningar, vegna kjarasamnings Félagsráðgjafafélags Íslands við Reykjavíkurborg, liggur nú fyrir.

Félagsráðgjafar sem starfa hjá Reykjavíkurborg kusu um samninginn, alls voru 157 á kjörskrá, 119 kusu (75,796%) og féllu atkvæði á þá leið að 45 sögðu já (38,46%) og 72 sögðu nei (61,54%), auð atkvæði voru 2 (1,68%).

Samningurinn er felldur með 61,54% atkvæða. 

Boðað hefur verið til félagsfundar og viðræður við Reykjavíkurborg hefjast að nýju eftir helgi.

Yfirlýsing frá fjórum félögum heilbrigðisstétta innan BHM (FÍ, IÞÍ, SÍ, ÞÍ)

7.7.2020

Fjögur félög heilbrigðisstétta innan Bandalags háskólamanna (BHM) vilja koma eftirfarandi á framfæri:

Í kjölfar þess að frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla) var fellt á Alþingi hefur umræða um stöðu fólks sem notar fíkniefni og þurfa fyrst og fremst heilbrigðisþjónustu verið áberandi. Við undirrituð hörmum þá óvissu sem þessi viðkvæmi hópur fólks býr við á degi hverjum þar sem varsla neysluskammta er bönnuð samkvæmt lögum.

Gagnreynd þekking í nútímasamfélagi gefur ótvírætt til kynna að refsistefna skilar engu en viðheldur jaðarsetningu og kostar mannslíf. Það ætti því að vera forgangsmál að mæta heilsufars- og félagslegum vanda með aðstoð í fyrirrúmi. Það er mikilvægt að tekið verði á fíkniefnaneyslu sem heilbrigðisvanda með áherslu á fræðslu, endurhæfingu og stuðning í stað úrræða í dómskerfinu. Það er ljóst að kostnaðurinn fyrir samfélagið við að beita refsingum er umtalsverður og hefur víðtæk og slæm samfélagsleg áhrif.

Greiður aðgangur að skaðaminnkandi velferðarþjónustu bætir á hinn bóginn lífsaðstæður fólks í fíknivanda auk þess að minnka líkur á þeim smitsjúkdómum sem fylgja honum. Þekkt er að ríkjandi fordómar og glæpavæðing hindrar fólk í að leita sér aðstoðar hjá lögreglu, félagsþjónustu og í heilbrigðiskerfinu.

Við viljum hvetja stjórnvöld eindregið til að koma málefnum þessa viðkvæma hóps í nauðsynlegan farveg með mannúð og virðingu að leiðarljósi líkt og önnur Evrópulönd hafa gert með góðum árangri. Slíkt er siðferðislega rétt og öllum í samfélaginu til hagsbóta.

Reykjavík 7. júlí 2020,

Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands

Þóra Leósdóttir formaður Iðjuþjálfafélags Íslands

Tryggvi Guðjón Ingason formaður Sálfræðingafélags Íslands

Laufey Elísabet Gissurardóttir formaður Þroskaþjálfafélags Íslands

Nýr kjarasamningur FÍ og Reykjavíkurborgar samþykktur

10.7.2020

Félagsráðgjafafélag Íslands undirritaði nýjan kjarasamning við Reykjavíkurborg 7. júlí sl. og fór samningurinn í atkvæðagreiðslu meðal félagsráðgjafa sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Niðurstaða kosningar, vegna kjarasamnings Félagsráðgjafafélags Íslands við Reykjavíkurborg, liggur nú fyrir.

Félagsráðgjafar sem starfa hjá Reykjavíkurborg kusu um samninginn, alls voru 157 á kjörskrá, 116 kusu (73,885%) og féllu atkvæði á þá leið að 97 sögðu já (83,62%) og 19 sögðu nei (16,38%), einn skilaði auðu (0,86%).

Samningurinn er samþykktur með 83,62% atkvæða.

Yfirlýsing til fjölmiðla og þingheims

15.9.2020

Tryggjum mannréttindi barna á flótta

Brottvísanir barna á flótta hafa ítrekað verið til umfjöllunar hér á landi síðustu misseri og dæmi um að almennir borgarar mótmæli þeim mannréttindabrotum sem slíkar niðurstöður geta falið í sér. Vert er að hafa í huga að Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi árið 2013 og hefur því sama gildi og hver önnur lög og bera stjórnvöld þá skyldu að framfylgja þeim jafnt öðrum lögum. Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildarríki að virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum og láta það sem barni er fyrir bestu hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða börn​. Lög um útlendinga nr. 80/2016 endurspegla ákvæði Barnasáttmálans en við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. greinar lagana ber stjórnvöldum að hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu ber Útlendingastofnun að líta til öryggis barns, velferðar og félagslegs þroska auk þess að taka tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Jafnframt ber Útlendingastofnun að taka skriflega afstöðu til framangreindra atriða samkvæmt greininni við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns auk þess að eiga samráð við barnaverndaryfirvöld. Í 6. mgr. 37. gr. lagana er sú skylda lögð á stjórnvald að taka til skoðunar að eigin frumkvæði hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. ef stjórnvald kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. eigi ekki við.

Ísland hefur getu til að taka á móti börnum á flótta og veita þeim tækifæri til menntunar, aðgengi að heilbrigðiskerfi og annan stuðning. Börnum er ekki bjóðandi að flakka á milli landa. Velferðarríki eins og Íslandi ber að tryggja vernd og réttindi barna á flótta og veita þeim tækifæri til að alast upp í öruggu umhverfi. Lagarammin er skýr en endurskoða þarf verklag svo það endurspegli framkvæmd sem virðir Barnasáttmálann og tryggir að honum sé framfylgt þannig að réttindi barna á flótta séu ávallt tryggð. Félagsráðgjafafélag Íslands skorar á dómsmálaráðherra að láta málið til sín taka.

15. september 2020

Steinunn Bergmann

Formaður Félagsráðgjafafélags Íslands

Tryggjum aðgengi að samtalsmeðferð óháð efnahag

20.10.2020

Áskorun til stjórnvalda

Það var mikið fagnaðarefni þegar Alþingi samþykkti í vor að fella sálfræðiþjónustu og aðra klíníska viðtalsmeðferð undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Enda mikið framfaraskef í allri heilbrigðisþjónustu að hugað sé jafnt að andlegri sem og líkamlegri heilsu fólks. Það urðu því mikil vonbrigði þegar í ljós kom nú í haust að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í þessa heilbrigðisþjónustu í fjármálaáætlun ríkisstjórarninnar til næstu ára.

Félagsráðgjafafélag Íslands harmar þessa ákvörðun og vill benda á að félagsmenn þess, sem allir eru með starfsleyfi frá landlækni, sinna margir klínískri samtalsmeðferð við einstaklinga, pör og fjölskyldur á einkareknum meðferðarstofum. Félagsráðgjafar eru því ein þeirra fagstétta sem falla undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.

Félagsráðgjafafélag Íslands og fagdeild sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa skora á stjórnvöld að endurskoða fyrri ákvörðun sína og setja nauðsynlegt fjármagn í þennan málaflokk til að þeir sem þurfa á samtalsmeðferð að halda geti sótt hana, óháð efnahag.

20. október 2020

Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands

Valgerður Halldórsdóttir talskona fagdeildar sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa

Aðventufundur FÍ verður haldinn á alþjóða mannréttindadaginn sem er 10. desember ár hvert og verður hann kl. 9:00. Yfirskrift fundarins er „Félagsráðgjöf og fátækt.“

Skrá þarf þátttöku á netfanginu felagsradgjof@felagsradgjof.is og slóð á zoom verður send þátttakendum upp úr kl. 8:30.

Close Menu