Stjórn félagsins

Stjórn Félagsráðgjafafélags Íslands er skipuð sjö félagsráðgjöfum; formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og þremur meðstjórnendum. Formaður er kosinn sérstaklega til fjögurra ára og var í fyrsta sinn kosinn árið 2012. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír á ári hverju. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar og er einn stjórnarmeðlimur aðalfulltrúi stjórnar í kjaramálum. Jafnframt er einn fulltrúi stjórnar skipaður í vísindanefnd félagsins eins og lög þess kveða á um, og einn er skipaður sem fulltrúi félagsins í stjórn Hollvinafélags Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands. 

Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands

Steinunn útskrifaðist frá Háskóla Íslands (HÍ) með BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 1995 og starfsréttindi í félagsráðgjöf árið 1996. Hún lauk diplomanámi í barnavernd við Endurmenntun HÍ árið 2001, MPA námi frá HÍ árið 2010 og hlaut sérfræðiréttindi í barnavernd árið 2017. Steinunn starfaði hjá Félagsmálastofnun/Félagsþjónustu/Velferðarsviði Reykjavíkur frá 1992 til 2007 og hjá Barnaverndarstofu frá 2007 til 2019. Steinunn hefur jafnframt sinnt stundakennslu við HÍ frá árinu 2006. Þá hefur Steinunn sinnt trúnaðarstörfum fyrir FÍ frá árinu 1996, var m.a. í kjaranefnd, ritnefnd NSA, stjórn Vísindasjóðs FÍ, stjórn FÍ og varaformaður FÍ tímabilið 2013-2017. Hún tók við formennsku FÍ þann 29. apríl 2019. Steinunn er gift og á fjögur börn.

Netfang Steinunnar er steinunn@felagsradgjof.is

Anna Guðrún Halldórsdóttir félagsráðgjafi, varaformaður og umsjónarmaður heimasíðu og Facebook síðu félagsins.

Anna Guðrún útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA gráðu í félagsráðgjöf árið 2010 og með MA gráðu til starfsréttindina árið 2012. Strax eftir útskrift fór Anna Guðrún að vinna á geðsviði Landspítalans, Kleppi. Hún starfaði þar til maí 2015 þegar hún flutti sig yfir til Velferðarsviðs Kópavogsbæjar þar sem hún vinnur í dag í málefnum fatlaðs fólk. Anna Guðrún hefur tekið virkan þátt í starfi félagsins frá útskrift og hefur meðal annars setið í kjarasamninganefnd bæði við ríki og sveitarfélög. Anna Guðrún hefur einnig verið í stjórn fagdeildar félagsráðgjafa sem vinna að málefnum fatlaðs fólks og mætt á aðalfundi BHM fyrir félagið. Anna Guðrún er einhleyp og barnlaus.

Netfang Önnu Guðrúnar er: annagh@kopavogur.is

Arndís Tómasdóttir félagsráðgjafi og stjórnarmeðlimur.

Arndís útskrifaðist með BA próf í félagsráðgjöf árið 2008 og lauk síðan MA námi til starfsréttinda í félagsráðgjöf vorið 2010. Eftir útskrift hóf hún störf hjá félagsþjónustunni í Árborg og var aðalstarf hennar í barnavernd. Sumarið 2012 færði hún sig yfir til Vinnumálastofnunar Suðurlandi þar hafði hún yfirumsjón með ráðgjöf til atvinnuleitenda á Suðurlandi ásamt því að skipuleggja og þróa úrræði, halda námskeið og taka þátt í þverfaglegri vinnu innan og utan stofnunar. Í byrjun árs 2018 færði hún sig yfir til VIRK starfsendurhæfingu á Suðurlandi og starfar þar í dag við ráðgjöf til einstaklinga í endurhæfingu.

Arndís kom inn í stjórn Félagsráðgjafafélagsins vorið 2017 en hefur áður komið að vinnu í kjaramálum félagsins og setið í bakhópum vegna kjara- og stofnanasamninga bæði fyrir ríki og sveitarfélög.
Arndís er gift og á tvö börn.

Netfang Arndísar er: arndist@gmail.com

Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir, félagsráðgjafi og stjórnarmeðlimur

Guðrún Þorgerður útskrifaðist með BA gráðu í félagsfræði vorið 2004 og starfsréttindi í félagsráðgjöf vorið 2006. Guðrún Þorgerður hefur ennfremur lokið viðbótardiplómu í réttarfélagsráðgjöf árið 2007 og í áfengis- og vímuefnafræðum árið 2017. Eftir útskrift árið 2006 hóf hún störf hjá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og starfaði þar til ársins 2008. Frá árinu 2009 til 2019 starfaði Guðrún Þorgerður með einstaklingum með flókin og fjölþættan vanda hjá Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar. Í dag starfar Guðrún Þorgerður á Áfangaheimilinu Brautinni og í endurhæfingarúrræðinu Grettistak hjá Reykjavíkurborg. Guðrún Þorgerður hefur setið í fagdeild félagsráðgjafa í Áfengis- og vímuefnamálum og í bakhóp vegna kjarasamninga.

Guðrún Þorgerður er gift og á tvo syni.  

Netfang Guðrúnar Þorgerðar er: gudrun.th.agustsdottir@reykjavik.is

Hafdís Gísladóttir félagsráðgjafi og gjaldkeri stjórnar.
Hafdís starfar hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu og starfsréttindi í félagsráðgjöf árið 2006 og lauk diplomanámi í Barnavernd árið 2010 við Háskóla Íslands. Hafdís fór eftir útskrift austur á hérað og vann hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs um tíma. Þar hafði hún yfirumsjón með þjónustu við eldri borgara, húsnæðismálum og sinnti einnig málefnum á sviði barnaverndar og almennri félagslegri ráðgjöf. Í lok árs 2007 vann Hafdís á meðferðarheimilinu Hvítárbakka fyrir unglinga sem var lagt niður snemma árs 2008. Þá fór Hafdís til starfa á þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Auk þess að sinna almennri félagslegri ráðgjöf var hún unglingaráðgjafi og kom að samstarfi við íþrótta og tómstundaráð og unglingadeildir í grunnskólum hverfisins með aðaláherslu á forvarnarstarf. Árið 2011 hóf Hafdís störf hjá Barnavernd Reykjavíkur og starfar þar við að halda utan um málefni fósturbarna og fósturfjölskyldna. Hafdís er gift og eiga þau til samans þrjú börn.

Netfang Hafdísar er: hafdis.g.gisladottir@reykjavik.is

Ingibjörg Þórðardóttir, félagsráðgjafi og stjórnarmeðlimur.

Ingibjörg er eigandi stofunnar Hugrekki – ráðgjöf og fræðsla. Hún útskrifaðist sem félagsráðgjafi með BA og starfsréttindi árið 2007 og bætti svo við sig rannsóknartengdu meistaranámi sem hún lauk árið 2014. Ingibjörg hef rekið eigin félagsráðgjafastofu frá árinu 2013 og var upphaflega eingöngu í fjarþjónustu þar sem hún var búsett í Hrísey á þeim tíma.  Má því segja að hún hafi verið frumkvöðull í fjarheilbrigðisþjónustu þar sem þetta var fyrsta slíka stofan á landinu. Frá árinu 2015 hefurIngibjörg verið með stofu staðsetta á Akureyri en auk þess einnig verið með þjónustu í gegnum netið. Þá hefur hún setið í ritstjórn Tímarits Félagsráðgjafa. Verkefni Hugrekkis eru fjölbreytt og felast meðal annars í fræðslu til fagfólks um ofbeldi, bæði heimilis- og kynferðisofbeldi, ýmis konar viðtalsmeðferðum og einstaka rannsóknarverkefnum.

Ingibjörg hefur alltaf haft mikinn áhuga á hagsmunum félagsráðgjafa og því að gera þá sýnilega í samfélaginu. Þá hefur hún einnig áhuga á að gera félagsráðgjafa á landsbyggðunum sýnilega í störfum sínum og telur að það sé mikilvægt að þau sem búa úti á landi hafi rödd innan stjórnarinnar. 

Netfang Ingibjargar er: hugrekki@hugrekki.is

Sigurlaug H. Traustadóttir félagsráðgjafi og ritari stjórnar.

Sigurlaug útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA gráðu í félagsráðgjöf árið 2008 og með MA gráðu til starfsréttinda í félagsráðgjöf árið 2010. Sigurlaug starfaði að lokinni útskrift um stutt skeið í Félagsþjónustu uppsveita Árnessýslu og hjá Vinnumálastofnun. Í desember 2010 hóf hún störf hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) og var þar fram á sumar 2013 þegar hún flutti sig yfir á Barnaspítala Hringsins til 2017. Vorið 2017 hóf hún störf á Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS en svo haustið 2019 hóf hún störf að nýju á Barnaspítala Hringsins í Stuðnings- og ráðgjafarteymi fyrir fjölskyldur barna með sjaldgæfa sjúkdóma. Sigurlaug starfar einnig sem verktaki hjá Livio Reykjavík og kemur þar að málefnum fólks í frjósemismeðferð. Sigurlaug hefur að auki unnið, bæði samhliða námi og starfi, í Unglingasmiðju þar sem unnið er með félagslega einangruð ungmenni og fjallaði meistararitgerð hennar um það úrræði.

Sigurlaug kom í stjórn FÍ árið 2016 og hefur þar komið að margþættum verkefnum. Hún hefur setið í samninganefnd og bakhópi kjaraviðræðna við ríki. 

Sigurlaug er gift og á þrjú börn.

Netfang Sigurlaugar er: sigurlaughtrausta@gmail.com