Yfirlýsing frá Félagsráðgjafafélagi Íslands vegna umræðu um kynbundinn launamun

skrifað 02. okt 2013

Félagsráðgjafafélag Íslands sendi rétt í þessu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Vegna umræðu um aðgerðaáætlun borgarstjórnar gegn kynbundnum launamun

Félagsráðgjafafélag íslands fagnar umræðu og áætlun borgarstjórnar um aðgerðir gegn kynbundnum launamun. Í kjaraviðræðunum við borgina árið 2011 bentu félagsráðgjafar sem starfa hjá Reykjavíkurborg á að vísbendingar væru um kynbundinn launamun og rík ástæða væri til þess að skoða heildarsamsetningu launa og vinnumagns sérstaklega á fagsviðum borgarinnar.

Í kjarasamningi Félagsráðgjafafélags Íslands og Reykjavíkurborgar er yfirlýsing frá Reykjavíkurborg um að borgin muni á samningstímanum skoða samsetningu heildarlauna og vinnumagns á fagsviðum borgarinnar. Niðurstöður áttu að liggja fyrir í janúar síðastliðnum og vera teknar til málefnalegrar meðferðar. Leiddu þær í ljós mun á kjörum, félagsráðgjöfum í óhag, myndi Félagsráðgjafafélag Íslands taka málið upp við borgaryfirvöld í febrúar 2013.

Félagsráðgjafafélag Íslands hefur lagt áherslu á að úttekt verði gerð áður en næstu kjaraviðræður hefjast og fagnar því að í aðgerðaáætlun borgarstjórnar nú skuli gert ráð fyrir gerð slíkrar úttektar. Óskandi væri að þessi vinna hefði verið farin fyrr af stað enda líður senn að næstu kjaraviðræðum og ekki seinna vænna en að ljúka þeirri vinnu sem áætlað var að vinna á milli samninga.

Félagsráðgjafafélag Íslands hvetur borgaryfirvöld til þess að setja kjara- og mannauðsmál í forgang enda eru það hagsmunir borgarbúa að hlúð sé að starfsmönnum og ekki síst félagsráðgjöfum sem eru lykilstarfsmenn í velferðarþjónustu borgarinnar. Álag í störfum félagsráðgjafa hefur aukist verulega frá árinu 2008 og hefur félagið áhyggjur af auknum þunga mála og líðan félagsráðgjafa í starfi.

Fyrir hönd stjórnar Félagsráðgjafafélags Íslands, María Rúnarsdóttir, formaður Sími: 595 5151/699 5111 Netfang: maria@felagsradgjof.is / felagsradgjof@felagsradgjof.is