Tilnefnd til nýsköpunarverðlauna forseta

skrifað 17. feb 2009

forseti.jpgÍ dag mun Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenda Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykir hafa skarað fram úr við vinnslu verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Kristín Heiða Kristinsdóttir spjallaði við þá fimm nemendur sem tilnefndir voru þetta árið til verðlaunanna.

rannveig.jpg

Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir lýkur BA-námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands í vor. Verkefni hennar gekk út á það að öðlast þekkingu og skilning á aðstæðum foreldra, sem ekki fara með sameiginlega forsjá, til fæðingarorlofstöku.

„Guðný Björk Eydal dósent við félagsráðgjafadeild HÍ var umsjónarmaður minn í verkefninu, en í megindlegri rannsókn sem hún gerði, kom í ljós að feður sem ekki búa með börnum sínum, nýta síður fæðingarorlof en feður í sambúð eða hjónabandi. Ég gerði síðan viðtalsrannsókn meðal einstæðra foreldra, um hvernig þeir höguðu fæðingarorlofinu. Stór hluti barna fæðist utan sambúðar og hjónabands. Árið 2005 voru þau t.d. yfir 600 talsins.“

 

Fæðingarorlofslögin eru þannig að forsjárlausir feður geta ekki nýtt sér fæðingarorlofið nema með samþykki barnsmóður. Rannveig tekur fram að ef faðirinn taki ekki orlofið, þá færist það ekki yfir til móður. Rannveig talaði við ellefu einstaklinga, sex mæður og fimm feður og hún segir að í ljós hafi komið að ástæður þess að feður tóku ekki fæðingarorlof hafi verið misjafnar.

„Til dæmis lítil samskipti milli foreldra á meðgöngu, sambandsslit sem enduðu illa sem og áhugaleysi föður. Í einu tilfelli þekkti mjög ungur faðir einfaldlega ekki rétt sinn og í öðru tilfelli neitaði móðir að skrifa upp á. Þrír af þeim fimm feðrum sem ég talaði við, nýttu sér því fæðingarorlofið.“ Einn feðranna sem Rannveig ræddi við, tók sex mánaða fæðingarorlof en barnsmóðir hans ætlaði ekki að nýta sína mánuði. Annar faðir nýtti þrjá mánuði af sínu orlofi og þriðji faðirinn nýtti sitt fæðingarorlof aðeins í einn mánuð.

„Áhugavert er að skoða markmið fæðingarorlofslaganna og hvort þau skili sér sem skyldi, því lögin eiga að tryggja samvistir barns við bæði móður og föður. En þegar móðirin hefur neitunarvald í þessum málum, er réttur forsjárlausra feðra greinilega skertur. Einn faðirinn vildi til dæmis að utanaðkomandi aðili, hjá Tryggingastofnun eða Sýslumanni, tæki ákvörðun um rétt einstæðra feðra til að taka orlof, út frá mati fagaðila. Eins og lögin eru í dag, geta mæður neitað mjög verðugum og hæfum feðrum um að taka orlof, sem ég tel vera brotalöm í lögunum. Það er nauðsynlegt að koma á markvissri fjölskyldu- og félagsráðgjöf við verðandi foreldra, til að hlúa betur að tengslum þeirra með hagsmuni barnsins að leiðarljósi,“ segir Rannveig sem stefnir á framhaldsnám.