Þórunn Ólý Óskarsdóttir hlaut viðurkenningu Barnaheilla

skrifað 06. des 2010

 

19. nóvember 2010   
 
barnaheill.jpgÞórunn Ólý Óskarsdóttir félagsráðgjafi hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla - Save the Children á Íslandi fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra.Barnaheill - Save the Children á Íslandi veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi samtakanna. Í ár hlaut Þórunn Ólý Óskarsdóttir viðurkenninguna. Hún er forstöðukona unglingasmiðjanna Stígur og Tröð sem reknar eru af Reykjavíkurborg.

  

Frá árinu 1987 til dagsins í dag má ætla að ríflega 600 ungmenni hafi notið góðs af starfsemi smiðjanna. Flest þeirra leita þangað vegna félagslegrar einangrunar, eineltis, hlédrægni, skerts sjálfstrausts og í sumum tilfellum vegna erfiðra uppeldisskilyrða. Ungmennin eru á aldrinu 13-18 ára. Með markvissum stuðningi hafa þau náð að efla sjálfstraust sitt og jákvæða sjálfsmynd, bæta líðan og leita leiða til uppbyggilegra lausna. Hópkenndin er styrkt og lögð áhersla á jákvæð samskipti þar sem virðing og umburðarlyndi eru í fyrirrúmi. Þá er hæfni í félagslegum samskiptum þjálfuð. Ungmennin leita til smiðjanna af fúsum og frjálsum vilja og þátttaka í starfinu er á þeirra ábyrgð. Þórunn Ólý útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Háskólanum í Stafangri árið 1977. Hún hóf starfsferil sinn á Meðferðarheimilinu á Kleifarvegi 15, vann í átta ár við Sálfræðideild skóla en árið 1986 tók hún við starfi forstöðumanns Unglingaathvarfsins í Breiðholti sem síðar varð Unglingasmiðjan Tröð. Síðastliðin tvö ár hefur hún gegnt starfi sem forstöðumaður beggja unglingasmiðjanna. Að öðrum ólöstuðum, hefur Þórunn Ólý verið drifkrafturinn í starfsemi unglingasmiðjunnar Traðar undangengin ár og einnig hefur hún átt mikla aðkomu að starfi unglingasmiðjunnar Stígs í gegnum árin. Hún hefur verið óþreytandi í baráttunni fyrir unga fólkið sem þátt hefur tekið í starfinu og þakklæti foreldra og ævarandi tengsl við skjólstæðinga bera starfinu gleggst vitni. Þórunn Ólý hefur einnig í gegnum tíðina barist ötullega fyrir því að standa vörð um starfsemina þar sem hún veit hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið að ungt fólk sem er félagslega einangrað verði virkir þjóðfélagsþegnar. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í Þjóðmenningahúsinu. Helgi Ágústsson, formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingarmálaráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri fluttu ávarp auk þess sem Þórunn Ólý ávarpaði samkomuna. Edda Kristjánsdóttir, nemi í Snælandsskóla afhenti viðurkenninguna. Birkir Bjarnason, Hrefna Björg Gylfadóttir og Ingunn Kristjánsdóttir, nemendur frá Tónskóla Sigursveins voru með tónlistaratriði. Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna stýrði athöfninni.