Staða í kjaraviðræðum við ríki

Kröfur félagsráðgjafa

skrifað 04. mar 2015
austurbæ

Kjarasamningur sá sem félagsráðgjafar gerðu við ríkið í júní sl. er runninn úr gildi. Við gerðum vopnahlé í vor og ætluðum að róa að því öllum árum að nýr samningur lægi fyrir í lok samningstímans. Sú er ekki raunin. Félagsráðgjafafélagið hefur fundað með ríkinu og farið yfir stöðuna og kröfur okkar. Sameiginleg viðræðunefnd BHM hefur einnig fundað með ríkinu en lítið þokast í samningsátt.

Kröfur félagsráðgjafa eru skýrar. Við viljum að menntun félagsráðgjafa til starfsréttinda verði metin til launa og að laun félagsráðgjafa sem starfa hjá ríkinu verði sambærileg launum annarra háskólamanna sem þar starfa og ekki síst að ríkið verði samkeppnisfært um félagsráðgjafa en það er það hreint ekki eins og staðan er nú. Það getur munað rúmlega 100 þúsund krónum á launum almennra félagsráðgjafa hjá ríki og almennra félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg svo dæmi sé tekið. Við höfnum þessari sviðsmynd og viljum ná fram okkar kröfum um hækkun grunnlauna félagsráðgjafa hjá ríkinu vegna aukinnar menntunarkröfu til starfsréttinda félagsráðgjafa. Hver verður starfsmannaveltan hjá ríkinu haldi þetta áfram? Sjötti hópur félagsráðgjafa með MA próf útskrifast í vor og enn hefur ekki verið vilji til að hækka grunnlaun félagsráðgjafa vegna aukinnar menntunarkröfu til starfsréttinda.

Mætum öll á Baráttufund BHM í Austurbæ fimmtudaginn 5. mars kl. 15