Samstarfsfundur norræna félagsráðgjafafélaga í Stokkhólmi 6. og 7. apríl 2017

skrifað 09. apr 2017
NSSK

Félagsráðgjafafélag Íslands tekur þátt í samstarfi norrænna félagsráðgjafafélaga NSSK en haldnir eru fundir tvisvar á ári hverju, að vori og hausti. Löndin skiptast á um að halda fundina og nú er röðin komin að Svíþjóð og var fyrsti fundurinn haldinn dagana 6. og 7. apríl í húsnæði SSR - Akademikerne, í Kungsholmen í Stokkhólmi. María Rúnarsdóttir formaður félagsins og Hafdís Gerður Gísladóttir, stjórnarmeðlimur sóttu fundinn að þessu sinni.

Hvað er á döfinni

Dagskrá fundarins var þétt skipuð og hófst með því að löndin fóru yfir það markverðasta sem er á döfinni í hverju landi:

í Noregi er unnið að breytingum á barnaverndarlögum þar sem áherslan verður á rétt barna til góðra uppeldisaðstæna en norska félagið hefur gagnrýnt að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni í málaflokkinn með lagabreytingunum en starfsmannavelta í barnavernd er mjög mikil, allt að 30%.

Í Svíþjóð er í fyrsta sinn verið að lögfesta kröfur og hvaða skilyrði krafa er gerð til menntunar félagsráðgjafa í heilsugæslunni en félagsráðgjafar í Svíþjóð hafa barist lengi fyrir lögverndun félagsráðgjafar sem starfs án árangurs.

Í Danmörku er mikil áhersla nú lögð á fjárfestingu í félagsþjónustunni sem byggir á þeirri hugmyndafræði sem Stinne Höjer Mathiesen og Rikke Hjort sögðu okkur frá á Félagsráðgjafaþinginu í febrúar. Sveitarfélögin í Danmörku eru hvert af öðru að innleiða sambærilega hugmyndafræði með auknum árangri, skilvirkni og hagræðingu með auknum fjölda stöðugilda og áherslu á snemmtæka íhlutun. Er Samband sveitarfélaga í Danmörku mjög styðjandi á þessum vettvangi.

Í Færeyjum er húsnæðisvandi ungs fólks mest í umræðunni í dag sem og umræðan um fátækt.

Nýverið hefur verið gerð könnun meðal félagsráðgjafa í Finnlandi um kulnun sem leiddi í ljós mjög neikvæðar niðurstöður. Þar hefur verið lögð áhersla á að félagsráðgjafar stundi núvitund til þess að koma í veg fyrir kulnun. Í sömu könnun kom einnig í ljós að fimmti hver félagsráðgjafi hefur orðið fyrir hótunum eða ofbeldi í starfi sínu.

Að lokum kynnti María ferlið varðandi breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og áframhaldandi kjaraviðræðum við ríki sem hefjast í haust og umræðu um hótanir og ofbeldi gagnvart félagsráðgjöfum á Íslandi sem fagdeild félagsráðgjafa í barnavernd hefur tekið upp.

Móttaka fylgdarlausra barna á Norðurlöndum

Fundurinn fékk til sín sérstakan gest, Anne Gardegard, sem starfar hjá Nordens Valfardscenter. Hún kynnti skýrslu um móttöku fylgdarlausra flóttabarna á Norðurlöndum þar sem meðal annars er fjallað um sérstöðu Íslands í málaflokknum. Skýrsluna í heild sinni má finna hér. Þess ber að geta að Anna verður með vinnustofu á Evrópuráðstefnu félagsráðgjafa á Íslandi í maí.

Hver tekur ákvarðanirnar í barnaverndarmálum

Á föstudagsmorgunn var morgunverðarfundur þar sem rætt var um hvar ákvarðanataka liggur í barnaverndarmálum, þ.e. hvort hún liggi hjá sérfræðingum í barnavernd eða hvort kjörnir fulltrúar taki ákvarðanirnar. Kynntu fulltrúar landanna stöðuna í hverju landi og svo voru umræður þar sem rannsakandi, stjórnandi og kjörinn fulltrúi tóku þátt. Löndin eru ekki mjög frábrugðin þegar kemur að ákvarðanatökunni þar sem kjörnir fulltrúar skipa í öllum löndunum nefndir sem framselja ákveðinn hluta málsferils til starfsmanna en taka ákvarðanir þegar kemur að þvingunarúrræðum og úrskurðum. Í Svíþjóð er mikil umræða um það hvort færa eigi ákvarðanatökuna til sérfræðinga í barnavernd þar sem nefndirnar eru mjög mismunandi skipaðar og oft lítil sérfræðiþekking hjá pólitískt kjörnum fulltrúum.

Vændiskaup eru ólögleg í Svíþjóð

Að loknum morgunverðarfundi fengu NSSK Fulltrúarnir kynningu á lögum um vændiskaup í Svíþjóð, og sagði fulltrúi lögreglunnar NSSK fulltrúum hvernig lagaumhverfið er í Svíþjóð. Ísland og Noregur hafa farið að fordæmi Svía og lagt áherslu á að vændi er ólöglegt en í Danmörku og Finnlandi hefur þessi leið ekki verið farin og mætir umræðan mikilli andstöðu enn í Danmörku. Var sláandi hversu mikill fjöldi vændiskvenna í Svíþjóð koma frá Rúmeníu en mansal er mjög algengt í málaflokknum og koma vændiskonur frá fátækari ríkjum og mestur fjöldi frá Rúmeníu. Vegna fátæktar leita margar konur í vændi en þær geta mögulega þénað allt að þreföld árslaun með því að stunda vændi í Svíþjóð þrátt fyrir að fá minnstan hluta sjálfar af tekjunum. Fátækt og þau viðhorf að ofbeldi gegn konum eigi rétt á sér viðheldur þessari samfélagsmynd og er mikilvægt að við félagsráðgjafar berjumst gegn þessum mannréttindabrotum.

Hryðjuverk í Stokkhólmi

Fundinum lauk á föstudeginum kl. 15 að sænskum tíma og tóku flestir lestina á næsta áfangastað að loknum fundi. Þegar María og Hafdís komu í lestina var þeim tilkynnt að ekki væri hægt að fara á Central Stationen en hægt væri að fara úr hjá Ráðhúsinu eða skipta um lest. Á miðri leið var öllum farþegum sagt að fara úr lestinni af öryggisástæðum. Rétt áður hafði vörubíl verið ekið inn í vöruhúsið Ahlens við eina helstu verslunargötu Stokkhólms þar sem fjórir létust og 12 slösuðust alvarlega. Allir fulltrúar NSSK voru öruggir og það var mjög sérstakt að vera svo nærri þessum alvarlega atburði og fylgjast með og taka þátt í viðbrögðum við þessum voðaverkum.

Við verðum að standa saman um jafnrétti og lýðræðislegt samfélag og umfram allt umburðarlyndi. Hugur okkar er með vinum og ættingjum í Svíþjóð og sendir Félagsráðgjafafélag Íslands sænskum félagsráðgjöfum innilegar samúðarkveðjur.

nssk1nssk2hafdisvændianna gnoregur