Samnorrænt meistarnám í Öldrunarfræðum

skrifað 24. jan 2008
gamalt_folk.jpgÞverfræðilegt meistaranám í öldrunarfræðum (120 ECTS) sem skipulagt er sameiginlega af Háskóla Íslands, Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og Háskólanum Jyväskylä í Finnlandi hefst á haustmisseri 2008. Í Háskóla Íslands er námið innan félagsráðgjafarskorar í félagsvísindadeild, í Háskólanum í Lundi innan læknisfræðideildar og í Háskólanum í Jyväskylä innan íþrótta- og heilbrigðisvísindadeildar. Opnuð hefur verið heimasíða fyrir „Nordic Master´s Programme in Gerontology – NordMaG”

Námið sem er tveggja ára nám er opið fyrir 15 nemendur á ári (sem hafa lokið BA-prófi á heilbrigðis- eða félagssviði) og getur hver skóli tekið inn 5 nemendur. Umsóknarfrestur fyrir nemendur við HÍ er til 15. apríl 2008 og gilda sömu inntökuskilyrði og í MA nám í öldrunarfræðum. Nemendur þurfa að taka a.m.k. 30 ECTS við annan hvorn samstarfsskólann.

Samstarfshópur skólanna þriggja hlaut hlaut styrk frá Norrænu ráðherranefndinni fyrr á þessu ári til að undirbúa og þróa NordMaG meistaranámið. Sigurveig H. Sigurðardóttir, (sighsig@hi.is) lektor í félagsráðgjöf hefur haft veg og vanda af undirbúningi þess fyrir hönd félagsráðgjafarskorar og veitir hún frekari upplýsingar ef óskað er