Öldubrjótur kynntur í Helsinki

skrifað 02. sep 2008

gamalt_folk.jpgHrönn Ljótsdóttur félagsráðgjafa og Lovísu A. Jónsdóttur forstöðumanni Hrafnistu í Hafnarfirði hefur verið boðið að kynna tilraunaverkefnið Öldubrjótur á ráðstefnu sem fjallar um fjölþjóðlega starfsmannastjórnun innan heilbrigðisþjónustunnar í Helsinki þann 6. október næstkomandi.

Ráðstefnan er á vegum Niva og nefnist First Nordic Leadership Forum: Multicultural management in health care Öldubrjótur er Íslensku-, samfélags og verkmenntaskóli Hrafnistu. Skólinn stendur allt árið 2008 og það sem af er árinu hefur verkefnið heppnast mjög vel og hefur vakið þó nokkra athygli fyrir lausnamiðaða og nýja nálgun þeim mönnunarvanda sem mörg hjúkrunarheimili hafa staðið frami fyrir undanfarin ár. Markmið skólans voru: að kenna einstaklingum af erlendum uppruna íslensku, að kynna fyrir þeim íslenskt samfélag, gildi þess og viðmið, að kenna aðhlynningu, mannleg samskipti og fleira, að rjúfa félagslega einangrun einstaklinga af erlendum uppruna, að nýta þann mannauð sem einstaklingar af erlendum uppruna búa yfir og að ráða þessa einstaklinga sem framtíðarstarfsmenn Hrafnistu.