Ný bók - Stjórnun og rekstur félagasamtaka

skrifað 17. des 2008

 

Steinunn.jpgKomin er út á vegum Háskólaútgáfunnar bókin Stjórnun og rekstur félagasamtaka í ritstjórn dr. Steinunnar Hrafnsdóttur dósents í félagsráðgjöf og dr. Ómars H. Kristmundssonar, dósents í stjórnmálafræði.

Gagnrýnandi: Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur
Útgáfa: Háskólaútgáfan, Reykjavík 2008, 398 bls.

Í umsögn gagnrýnanda kemur meðal annars eftirfarandi fram: "Bókin er nær því að vera kennslubók en greinasafn, efnið er mjög skipulega fram sett og efni greina skarast lítið. Sérstaklega hefur ritstjórninni tekist vel að ná yfir breitt svið og að gefa nokkuð heildstæða mynd af úrlausnarefnum í félagsstarfi."

Í NAFNI LÝÐRÆÐISINS

Fátt er mikilvægara hverju samfélagi en almenn og virk þátttaka almennings í verkefnum þess í frjálsum félagasamtökum. Fjöldi þeirra og þátttaka í þeim er talin til marks um lýðræðisstig samfélags og vissulega efla félagasamtök skilning á samfélagslegum efnum og þau eru af fræðimönnum talin geta bætt samfélög verulega og minnkað hættuna á hreinu meirihlutaræði. Í bókinni kemur fram að frjáls félagasamtök eru sennilega yfir 20 þúsund á Íslandi.

Gerð og útgáfa bókarinnar Stjórnun og rekstur félagasamtaka þjónar þannig göfugum tilgangi og viðfangsefni bókarinnar hefur sig yfir dagleg málefni. Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir hafa unnið mikið og farsælt brautryðjendastarf og það blasir við að þeirra hlutur við gerð bókarinnar er mikill og afgerandi. Bókin inniheldur 15 fræðigreinar um hin ýmsu svið stjórnunar og reksturs félagasamtaka og síðan 11 samræmdar samantektir um starfsemi þekktra félagssamtaka.

Stjórnun og rekstur félagasamtaka er fræðileg bók og einnig hagnýt. Henni er ætlað að koma að gagni við kennslu á háskólastigi og jafnvel á framhaldsskólastigi og hún er einnig hugsuð sem handbók fyrir stjórnendur félagasamtaka. Hún er fræðibók með tilvísunum í helstu höfunda á málefnasviðinu og út frá henni má rekja sig lengra í fræðunum og hana má einnig nota til að lesa sér til um úrlausn jafn praktískra verkefna og mannauðsstjórnunar á sviði frjálsra félagasamtaka.

Fræðigreinarnar eru mismunandi ítarlegar, en inngangsgrein Steinunnar er skemmtileg byrjun á bókinni og rannsóknir hennar á íslensku samfélagi eru athyglisverðar. Þá eru greinar Ómars H. efnismiklar og vandaðar og setja mikinn svip á ritið.

Samantektirnar um starfsemi þekktra félagasamtaka í lok bókarinnar geta þjónað þeim tilgangi að vera viðfangsefni tilviksathugana í háskólakennslu, en þær eru einnig dæmi sem almenningur í félagsstarfi getur lesið sig til um þegar hann leitar að formgerðum fyrir ákveðna starfsemi.

Í samanburði við mörg erlend greinasöfn verður að telja að ritstjórn og umsjón með verkinu hafi tekist mjög vel til. Bókin er nær því að vera kennslubók en greinasafn, efnið er mjög skipulega fram sett og efni greina skarast lítið. Sérstaklega hefur ritstjórninni tekist vel að ná yfir breitt svið og að gefa nokkuð heildstæða mynd af úrlausnarefnum í félagsstarfi. Hafi bókinni verið ætlað að veita fræðilega og praktíska innsýn í heim félagasamtaka þá hefur tekist mjög vel upp við gerð hennar.

Bókin er á íslensku, í henni er í fyrsta skipti hægt að kynnast þessum málaflokki með íslensku lesefni. Þannig hefur nýtt fræðasvið tileinkað sér íslenskuna. Tilgreind dæmi og viðfangsefni eru einnig úr íslenskum veruleika. Þessi atriði ein réttlæta útgáfu bókarinnar.

Um þessar mundir nýtur frjáls félagastarfsemi mikillar athygli sem heppilegt rekstrarform í vestrænum samfélögum. Bókin kemur þannig út á góðum tíma og hún ætti að koma íslensku samfélagi að miklu gagni við að takast á við ný verkefni með nýjum hætti eða gömul verkefni eftir nýjum leiðum.

 

ver á sínu sviði. Að lokum er starfsemi 11 íslenskra félagasamtaka kynnt.